Hoppa yfir valmynd
30. maí 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 8/2006

Þriðjudaginn, 30. maí 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. febrúar 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 9. febrúar 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 11. nóvember 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

Um málavexti og rökstuðning kæru segir í kærubréfi:

„Ég flutti til B-lands í ágúst 2005 með kærasta mínum þar sem hann var að fara í mastersnám í D-borg og ég stefndi á E-nám í F skóla. Þar sem við áttum von á barni í nóvember 2005 og spurðum útí þessi réttindi. Konan sem við töluðum við fullvissaði okkur um það að kærasti minn ætti rétt á fullum styrk þar sem hann yrði námsmaður erlendis og hefði verið í fullri vinnu á Íslandi fyrir brottflutninginn, það stóðst. Þjónustufulltrúinn tjáði okkur einnig að ég ætti rétt á fæðingarstyrk sem maki námsmanns svokölluðum makastyrk og fullum styrk sem námsmaður. Með þessar upplýsingar í farteskinu ákváðum við að fresta fyrirhuguðu námi mínu í D-borg um eitt ár svo ég gæti einbeitt mér að fullu að nýfæddu barninu okkar eða sækja um makastyrk í stað styrks sem námsmaður.

Svo þegar á reyndi og við sækjum um makastyrk fyrir mig kemur í ljós að réttur minn til makastyrkjar frá TR er enginn þar sem ég er ekki að fara í nám „strax“. Okkur þykir þetta frekar ósanngjarnt þar sem brottflutningur okkar frá Íslandi var einnig vegna fyrirhugaðs náms af minni hálfu ekki bara hans. En þar sem ég skráði mig ekki í nám á haustönn 2005 sem ég hefði væntanlega gert hefði ég fengið réttar upplýsingar er ég „réttindalaus“ frá Íslandi.

Okkur finnst að þessi synjun vera vægast sagt mjög ósanngjörn ekki bara vegna þess að við fengum rangar upplýsingar frá starfsmanni Tryggingastofnunar heldur einnig vegna þess að brottflutningur minn frá Íslandi var vegna náms sem ég frestaði vegna þessara upplýsinga.

Ég og kærastinn minn höfum engin réttindi til fæðingarstyrks í B-landi þar sem við höfum búið hér svo stutt og höfum ekki unnið í 3 mánuði sem er skilyrði fyrir fæðingarstyrk hér. Synjunin frá TR ásamt synjuninni frá félagslega kerfinu í D-borg stangast á við eina af megin stoðum “Norðurlandasamning um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu” (1996/66) að okkar mati. Þessi lög taka skýrt fram að Íslendingar sem búa í einu af Norðurlöndunum eiga rétt á sömu félagslegu þjónustu og ríkisborgar búsetu landsins eða B-landi í okkar tilfelli. Þar sem okkur er synjað um fæðingarstyrk frá B-landi er okkar mat að við eigum rétt á styrki frá Íslandi. Það er okkar mat að það geti ekki staðist lagalega að ég sé réttindalaus í báðum löndum, þetta hlýtur að vera galli á lagabreytingunni sem átti sér stað 1. janúar 2005, allavega alvarleg yfirsjá.

Ef satt reynist að ég sé sannanlega réttindalaus hvað varðar fæðingarstyrk frá Íslandi þá fer ég þess á leit við íslensk stjórnvöld eða viðeigandi stofnanir að þau aðstoði okkur við að sækja réttindi okkar í B-landi, sjá lög 1996/66, Norðurlandasamningur, 6 gr. II. hluti og 13. gr. III. hluti. Vegna þess að okkur var neitað um fæðingarstyrk í B-landi. Við munum halda áfram að leita réttar okkar ef þessi kæra skilar engu.

Þar sem: formlegt samstarf Norðurlanda hefur verið við lýði í liðlega fimmtíu ár. Sem dæmi um árangur af samstarfinu má nefna sameiginlegan norrænan vinnumarkað, vegabréfasamning og samninga um félagsmál þar sem markmiðið er að tryggja norrænum borgurum sem dvelja í öðru norrænu landi sömu réttindi og þeir njóta í heimalandi sínu “(hallonorden.is). Við teljum að þar sem B-land neiti okkur um styrk eigi ég rétt á styrknum frá Tryggingastofnun ríkisins því varla stenst það lög að einstaklingur sé réttindalaus í báðum löndunum (Íslandi og B-landi)?

Reglugerð nr. 648/1995 2. gr. skattalaganna segir:

Maki námsmanns og börn hans eldri en 16 ára geta haldið sömu réttindum og námsmaður ef sýnt er fram á að dvöl þeirra erlendis sé bein afleiðing af námi hans, en ekki sérstaklega til tekjuöflunar eða öflunar sérþekkingar, sem ekki fellur undir ákvæði þessarar reglugerðar. Sama gildir um sambúðarfólk, sem uppfyllir skilyrði fyrir samsköttun, sbr. mgr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignaskatt.

Þessi málgrein stangast einnig á við fæðingarorlofslögin. Ég hef verið í fullu starfi á Íslandi síðan 2002 þar til við flytjum út í ágúst 2005 og alltaf greitt mína skatta og launatengd gjöld. Við munum sækja um skattalegt heimilisfesti í næsta skattframtali og halda áfram að telja fram á Íslandi. Okkar túlkun á þessari reglugerð er sú að réttindi okkar til fæðingarstyrks frá Íslandi ættu að vera þau sömu hvort eigi við um námsmann eða maka hans.

Fæðingarorlofslögin segja að einstaklingar þurfi að hafa lögheimili á Íslandi að jafnaði til þess að eiga rétt á fæðingarstyrk. Í breytingunni á lögum 2004/90 9. gr. kemur fram að: Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldrar flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Þessi undanþága á við í okkar tilfelli nema hvað við ákváðum að fresta námi mínu um 1 ár. Þessi ákvörðun um frestun hefði ekki verið tekin nema vegna rangra upplýsinga eins og áður hefur komið fram.“

 

Með bréfi, dagsettu 14. febrúar 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 6. mars 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 6. október 2005, sem móttekin var 12. október 2005, sótti kærandi um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar í þrjá mánuði frá fæðingardegi barns hennar sem fætt er 9. nóvember 2005. Í umsókn kæranda kom fram að hún hefði verið búsett í B-landi frá 2. ágúst 2005 og að hún stefndi á að hefja nám þar haustið 2006.

Umsókn kæranda fylgdu samnorræn flutningsstaðfesting, dags. 25. júlí 2005, vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 6. júlí 2005, auk hluta af mæðraeftirlitsskýrslu og gagna er varða meðgöngu kæranda, staðfesting G skóla, dags. 20. september 2005, um skólavist maka kæranda, staðfesting D sveitarfélags, dags. 6. október 2005, um réttleysi kæranda til fæðingarorlofsgreiðslna í B-landi, staðfesting frá leikskólanum H, dags. 15. júlí 2005, varðandi starf kæranda og launaseðlar fyrir júní og júlí 2005.

Auk framangreindra gagna lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda útprentun úr þjóðskrá Hagstofu Íslands og útprentun úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 11. nóvember 2005, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk synjað á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili á Íslandi.

Í 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar. Þar er í 2. málslið 2. mgr. sett það skilyrði fyrir fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar að foreldri skuli eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma.

Í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004 er framangreint lögheimilisskilyrði áréttað í 1. mgr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir síðan að til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins á þeim tíma sem tilgreindur er í 1. mgr. skuli foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu (E-104) sem sýni tryggingatímabil er foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir. Þá segir í 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nái til greiðslna vegna fæðingar barns skuli meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins.

Barn kæranda fæddist, eins og að framan greinir, þann 9. nóvember 2005. Kærandi var þá með lögheimili í B-landi og hafði haft þar lögheimili frá 2. ágúst 2005, sbr. upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands. Uppfyllti kærandi þar af leiðandi ekki framangreint skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks um lögheimili, sem sett er í fæðingar- og foreldraorlofslögunum og reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Vegna tilvísana í kæru kæranda til Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sem gerður var 18. ágúst 2003 og öðlast hefur lagagildi á Íslandi samkvæmt lögum nr. 66/2004, skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 66/2004 skulu einstaklingar utan vinnumarkaðar njóta almannatrygginga í því landi sem þeir búa í. Samkvæmt Norðurlandasamningnum átti kærandi því að vera tryggð í danska almannatryggingakerfinu vegna búsetu hennar þar við fæðingu barns hennar.

Ákvæði 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 9. gr. laga nr. 90/2004, varðar fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi. Þar er í 3. málslið 2. mgr. gert heimilt að veita undanþágu frá almenna lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Síðan segir í 4. málslið 2. mgr. 19. gr. laganna að njóti foreldri greiðslu vegna sömu fæðingar í búsetulandinu komi hún til frádráttar fæðingarstyrknum, sbr. 3. mgr. 33. gr. Samskonar undanþáguheimild frá lögheimilisskilyrðinu er að finna í V. kafla reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 1056/2004, sem varðar greiðslu fæðingarstyrks til foreldra í námi. Er námsmönnum þannig veittur rýmri réttur til fæðingarstyrks frá Íslandi heldur en felst í Norðurlandasamningum. Þessi rýmkun á rétti til fæðingarstyrks frá Íslandi á ekki við um foreldra utan vinnumarkaðar því undanþáguheimild sem þessa er ekki að finna í þeim laga- og reglugerðarákvæðum sem varða rétt foreldra utan vinnumarkaðar til fæðingarstyrks, sbr. ákvæði 18. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaganna, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004 og ákvæði IV. kafla reglugerðar nr. 1056/2004.

Með vísan til alls framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. mars 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Með bréfi dagsettu 10. maí 2006 óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir upplýsingum um afgreiðslu málsins hjá Tryggingastofnun ríkisins þegar kærandi leitaði í upphafi eftir upplýsingum um sinn rétt. Tryggingastofnun ríkisins svaraði með bréfi dagsettu 12. maí, þar segir m.a.: „Varðandi þær fullyrðingar kæranda, sem settar eru fram í bréfi úrskurðarnefndarinnar, skal tekið fram að ómögulegt er að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar henni voru veittar, við hvaða forsendur þær miðuðust eða hvaða skilningur var lagður í þær af hálfu kæranda. Engar upplýsingar um þessi meintu samskipti liggja fyrir hjá Tryggingastofnun ríkisins. Ekki verður heldur séð að gefnar upplýsingar, réttar eða rangar, hafi áhrif á réttindi kæranda til greiðslna. Réttindi og skilyrði þeirra eru bundin í lögum og lagatúlkun.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar.

Í rökstuðningi með kæru vísar kærandi m.a. til Norðurlandasamnings um almannatryggingar. Samningnum var veitt lagagildi með lögum nr. 66/2004 en í II. hluta samningsins eru lagaskilareglur. Í 5. gr. eru ákvæði um hvaða löggjöf skuli beita um einstaklinga utan vinnumarkaðar en samkvæmt 1. mgr. er meginreglan að beita skuli löggjöf búsetulandsins. Í 2. mgr. 5. gr. er sérákvæði um maka og börn undir 18 ára aldri, sem fylgja launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklingi frá einu norrænu landi til annars. Samsvarandi sérákvæði er ekki um maka og börn sem fylgja námsmanni frá einu norrænu landi til annars.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr.95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar barns eða töku barns í varanlegt fóstur. Auk þess eiga foreldrar sameiginlegan rétt á fæðingarstyrk í þrjá mánuði til viðbótar sem annað foreldri getur fengið í heild eða foreldrar skipt honum með sér. Foreldri skal eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma, sbr. 2. mgr. 18. gr. ffl. sbr. 8. gr. laga nr. 90/2004 sbr. og 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Skilyrði um lögheimili er í samræmi við búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Hafi verið gerður samningur við annað ríki sem nær til greiðslna vegna fæðingar barns, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta búsetu foreldris í því ríki samkvæmt ákvæðum samningsins sbr. 2. og 3. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar.

Kærandi ól barn 9. nóvember 2005. Á þeim tíma var kærandi með lögheimili í B-landi og hafði verið með lögheimili þar frá 2. ágúst 2005 samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Hún uppfyllir samkvæmt því ekki skilyrði 2. mgr. 18. gr. ffl. um lögheimili hér á landi við fæðingu barns.

Kærandi flutti til B-lands vegna náms maka. Undanþáguákvæði 17. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslu fæðingarstyrks til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis á eingöngu við um námsmenn. Engar undanþágur eru veittar í lögum nr. 95/2000 með síðari breytingum né reglugerð nr. 1056/2004 um að heimilt sé að greiða maka námsmanns fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar í þeim tilvikum sem hér um ræðir. Með hliðsjón af því er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

Kærandi telur sig hafa fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins sem hafi valdið því að hún hafi frestað fyrirhuguðu námi sínu erlendis.

Samkvæmt 32. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 skal Tryggingastofnun ríkisins sjá til þess að allar upplýsingar um réttindi foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og til greiðslu fæðingarstyrks verði aðgengilegar þeim sem á þurfa að halda. Þeirri lagaskyldu hefur stofnunin sinnt með upplýsingum á heimasíðu sinni og útgáfu upplýsingabæklings.

Á Tryggingastofnun ríkisins og starfsfólki stofnunarinnar hvílir leiðbeiningaskylda skv. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins 12. maí 2006 segir að ómögulegt sé að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar kæranda hafi verið veittar, við hvaða forsendur þær hafi miðast eða hvaða skilningur hafi verið lagður í þær af hálfu kæranda. Engar upplýsingar um samskiptin liggi fyrir hjá stofnuninni.

Valdsvið úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála er markað í 2. mgr. 5. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Þar segir að hlutverk úrskurðarnefndar sé að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Það er því ekki á valdsviði nefndarinnar að taka ákvörðun um hugsanlega bótaskyldu Tryggingastofnunar ríkisins gagnvart þeim sem telja sig hafa fengið rangar eða ófullnægjandi upplýsingar.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldris utan vinnumarkaðar er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta