Nýjum styrkjaflokki fyrir barna- og unglingabækur verður bætt við styrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta frá og með næsta ári. Þetta liður í því að styðja við og efla útgáfu á efni fyrir yngri lesendur. „Eitt það mikilvægasta sem við getum gert til þess að efla læsi í landinu til framtíðar og standa vörð um tungumálið okkar er að tryggja aðgengi barna og ungmenna að bókum við þeirra hæfi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Ég finn fyrir vitundarvakningu og aukinni umræðu um mikilvægi lesturs og bóka – hjá foreldrum, skólafólki og ekki síst hjá krökkunum sjálfum. Það er okkar að skapa umhverfið og vera þeim góðar fyrirmyndir. Það er til dæmis hægt að gera í dag, á alþjóðlegum degi bókarinnar – með bók í hönd.“
Framtak þetta styður menningarstefnu stjórnvalda þar sem lögð er sérstök áhersla á að efla menningu barna og ungmenna á landinu öllu. Hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að efla bókmenningu á Íslandi, kynna íslenskar bókmenntir erlendis og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra. Fyrirkomulag styrkjanna og umsóknarferlið verður nánar kynnt síðar.