Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2023 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 24. febrúar 2023

Heil og sæl. 

Enn er runninn upp föstudagur og hann ber í skauti sér föstudagspóst að vanda.

 

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er stödd í Strassborg þar sem hún stýrir formlegum fundi ráðherranefndar Evrópuráðsins um afleiðingar árásarstríðs Rússa í Úkraínu en í dag er ár liðið frá innrásinni. 

Í tilefni af tímamótunum er úkraínska fánanum flaggað víða og helstu byggingar og stofnanir lýstar í fánalitunum til að sýna samstöðu. 

 

 

Auk þess er úkraínska fánanum flaggað við flestar sendiskrifstofur Íslands. Myndir og myndskeið má finna á instagram síðu ráðuneytisins og samfélagsmiðlum sendiráðanna. Flestar sendiskrifstofur hafa einnig tekið þátt í ýmsum samstöðu viðburðum með Úkraínu sem greint er frá á sömu miðlum.

Heimsókn utanríkisráðherra til Strassborgar er önnur ferð hennar til Evrópuráðsins en sú fyrsta var í tilefni upphafs  formennsku Íslands í Evrópuráðinu í nóvember síðastliðnum. 

Að þessu sinni er tilefnið þríþætt. Að minnast þess að ár er liðið frá upphafi innrásar Rússlands á Úkraínu, ávarpa fund undirbúningsnefndar aðildarríkja Evrópuráðsins fyrir leiðtogafundinn sem Ísland stýrir og vera viðstödd sérstaka óperusýningu í Opera National du Rhin þar sem útsetning Önnu Þorvaldsdóttur á La Voix Humaine eftir franska tónskáldið Poulanc er sett á fjalirnar sem hluti af menningardagskrá formennsku Íslands í Evrópuráðinu.

Skammt er stórra högga á milli hjá utanríkisráðherra þessa dagana en síðastliðinn föstudag var hún stödd í München í Þýskalandi þar sem hún tók þátt í árlegri ráðstefnu um öryggismál. Á ráðstefnunni komu saman ríflega eitt þúsund þátttakendur, þar á meðal fjölmargir þjóðarleiðtogar, utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar ásamt fræðafólki og öðrum skoðanamótandi aðilum á sviði öryggis- og varnarmála. Á ráðstefnunni gafst utanríkisráðherra jafnframt tækifæri til að eiga tvíhliða fundi, þar á meðal með Riad Malki utanríkisráðherra Palestínu, Ilia Darchiashvili utanríkisráðherra Georgíu, Donika Gërvalla-Schwarz sem gegnir embætti utanríkisráðherra og er varaforsætisráðherra Kósovó auk óformlegs fundar með Sviatlöna Tsikhanouskayu leiðtoga lýðræðisafla Belarús.

Fraktflugvél á vegum íslenskra stjórnvalda flaug með 100 tonn af neyðarbirgðum til jarðskjálftasvæðanna í Tyrklandi þar sem milljónir manna eru húsnæðislausar. Þá hefur utanríkisráðherra ákveðið að veita 50 milljón króna neyðarframlagi til Sýrlands vegna ástandsins sem skapaðist þar í kjölfar skjálftanna fyrr í mánuðinum. Lesa má meira um málið í frétt á stjórnarráðsvefnum

Og þá að sendiskrifstofunum: 

Martin Eyjólfsson ráðuneytisstjóri heimsótti fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og tók þátt í viðburði sem fór fram í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í tilefni af því að ár er liðið frá innrás Rússlands í Úkraínu.


Í Peking tók Þórir Ibsen sendiherra þátt í opnun stærstu CO2-to-methanol verksmiðju í heimi í Kína. Tæknin sem notast er við kemur frá íslenska fyrirtækinu Carbon Recycling International.

 

Þá greindi sendiráðið einnig frá Norrænni kvikmyndaviku sem fer fram í borginni um helgina.

Berliner Zeitung fór í vikunni yfir kosti íslensku lopapeysunnar með Maríu Erlu Marelsdóttur sendiherra.

Sendiráð Íslands í Malawi birti á dögunum frábærlega framsett kort sem sýnir á skýran og aðgengilegan hátt uppbyggingu Íslands á svæðinu. Um er að ræða yfir 1200 staði þar sem Ísland hefur átt aðkomu að uppbyggingu sem gaman er að kynna sér nánar.

Í London var efnt til kynningar á EGF Power Serum, nýjustu vöru BIOEFFECT, í sendiherrabústaðnum.

Kristín Anna Tryggvadóttir ferðaðist á vegum sendiráðs Íslands í Nýju-Delí til Manipur til að taka þátt í "B20" þar sem yfir 200 þátttakendur frá öllum heimshornum hittust og deildu hugmyndum um tækifæri og samvinnu á sviði viðskipta. Viðburðurinn tengist formennsku Indlands á næsta G20 fundi.

Sendiráð Íslands í Ottawa tók þátt í viðburði með norrænum sendiráðum í Kanada um málefni norðurslóða. Viðburðurinn fór fram í Toronto þar sem fulltrúum sendiráðanna gafst færi á að ræða við nemendur í Munk School of Clobal Affairs and Public Policy. 

 

Sendiherrahjónin í Osló sóttu hádegisverðarfund í boði forstjóra UMAMI ARENA þar sem stórgott tækifæri gafst til tengslamyndunar um markaðssókn erlendis og alþjóðlegt samstarf á sviði matvæla og matarmenningar.

Í sendiráðinu í París var bolludagurinn haldinn heilagur.

Og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnu UNESCO um netöryggi. 

Í Stokkhólmi voru menningarmál í forgrunni í vikunni en þar var sagt frá heimsókn rithöfundarins Arnaldar Indriðasonar, sérstökum viðburði til minningar Burt Bacharach þar sem fram komu fjölmargir listamenn, þeirra á meðal íslensk söngkona að nafni Stina Ágústsdóttir og því að rithöfundurinn Sjón hefði hlotið norrænu verðlaun Sænsku akademíunnar 2023. 

Sendiráð Íslands í Tókýó segir frá Miyukino Film Festival sem fer fram nú um helgina, þar sem íslenskar stuttmyndir verða meðal dagskrárliða. 

Þar á bæ sló starfsfólk ekki slöku við í bollubakstri í vikunni. 

Í Varsjá var haldið upp á bolludag, sprengidag og öskudag og farið yfir sögu daganna í glæsilegum og læsilegum færslum á samfélagsmiðlum sendiráðsins.

Í Þórshöfn í Færeyjum fóru fram frábærir tónleikar í Løkshøll þar sem Andri Björn Róbertsson og Ástríður Alda Sigurðardóttir fluttu meistaraverk eftir ýmsa höfunda.

Í Genf var sagt frá því að Einar Gunnarsson sendiherra hefði nýlega tekið við formennsku í samningviðræðum um fiskveiðistyrki hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Í Bandaríkjunum bar bolludaginn upp á forsetadaginn, þar sem forsetar Bandaríkjanna frá upphafi eru heiðraðir. Sendiráð Íslands í Washington greindi frá því. 

Að lokum vekjum við athygli á áhugaverðri frétt í Heimsljósi þar sem sagt er frá nýjum gögnum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO, sem leiða í ljós þá sorglegu staðreynd að á degi hverjum deyja tæplega átta hundruð konur á meðgöngu eða við fæðingu. 

Föstudagspósturinn verður ekki lengri að sinni. 

Við biðjum ykkur lengst allra orða að njóta helgarinnar.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta