Nr. 282/2018 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 12. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 282/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18050022
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 4. maí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 26. apríl 2018, um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar, þar sem ákvarðað var að honum skyldi vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár, verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að endurkomubanni verði markaður skemmri tími en tvö ár.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi hér á landi fyrir íþróttafólk þann 12. apríl 2015 með gildistíma til 1. nóvember 2015. Kærandi yfirgaf landið í október 2015 en kom aftur til landsins 22. janúar 2017 á grundvelli vegabréfsáritunar sem hann kveður hafa verið gilda til 11. mars 2017. Óljóst er hvort kærandi hafi dvalið hér á landi síðan en fyrir liggur að hann er staddur hér á landi núna. Kærandi sótti um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 11. maí 2017 en þeirri umsókn var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 21. júlí 2017. Þann 15. mars sl. var birt fyrir kæranda tilkynningu um hugsanlega brottvísun frá landinu. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 26. apríl 2018, var kæranda vísað brott frá landinu enda lægi fyrir að hann dveldist ólöglega á landinu, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 4. maí 2018. Kærunefnd hefur borist greinargerð kæranda, dags. 29. maí 2018.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi dvalið á landinu lengur en 90 daga auk þess sem hann hafi þegið laun frá nóvember 2017 til þess dags sem ákvörðun var rituð án þess þó að hafa atvinnu- eða dvalarleyfi hér á landi. Með bréfi Útlendingastofnunar til kæranda, dags. 22. febrúar 2018, hafi honum verið tilkynnt um hugsanlega brottvísun og endurkomubann og verið gefinn kostur á að andmæla ráðstöfuninni. Kærandi lagði ekki fram greinargerð til að mótmæla ráðstöfuninni. Að mati Útlendingastofnunar hafði ekkert komið fram við málsmeðferðina sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þar sem kærandi hafi dvalið á landinu lengur en honum hafi verið heimilt og starfað hér á landi án atvinnu- eða dvalarleyfis skyldi honum vísað brott frá landinu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og ákveðið endurkomubann í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi spilað sem atvinnumaður í knattspyrnu hér á landi á árinu 2015. Hann hafi yfirgefið landið þegar sá samningur hafi runnið út. Í janúar 2017 hafi kærandi komið til landsins á grundvelli vegabréfsáritunar sem hafi gilt til 11. mars 2017. Þann 2. mars s.á. hafi kærandi skrifað undir samning við knattspyrnufélagið [...] um að spila fyrir félagið. Félagið hafi átt að annast umsókn um dvalarleyfi fyrir kæranda en sökum kunnáttuleysis hafi félagið gert mistök við umsóknarferlið og ekki hafi tekist að ganga frá leyfinu í tíma. Kærandi hafi því ekki getað spilað með [...] það tímabil. Þar sem að ekki hafi orðið af þessum samningi hafi kæranda boðist vinna þangað til nýtt félagaskiptatímabil hæfist en þá myndi hann á ný fara að spila knattspyrnu. Hann hafi því sótt um dvalarleyfi vegna skorts á vinnuafli en ekki vitað að hann mætti ekki vera staddur á landinu á meðan sú umsókn væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Útlendingastofnun hafi synjað þeirri umsókn kæranda á grundvelli 51. gr. laga um útlendinga.
Kærandi byggir á því að skv. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga sé Útlendingastofnun aðeins heimilt en ekki skylt að vísa kæranda úr landi. Þá telur kærandi að brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi ekki haft ásetning til þess að dvelja ólöglega í landinu. Þegar fyrri dvöl hans hafi lokið hafi hann yfirgefið landið í samræmi við gildandi lög og núverandi dvöl kæranda hafi hafist með lögmætum hætti. Kærandi hafi ekki komist í kast við lögin hér á landi og hafi verið góður og gegn löghlýðinn borgari. Kærandi hafi ennfremur verið í góðri trú um að hann hafði heimild til að dvelja á landinu á meðan umsókn hans væri til meðferðar.
Varakröfu sína byggir kærandi á 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga en þar segi að endurkomubann skuli að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár. Samkvæmt því sé ljóst að tvö ár sé ekki fortakslaus lágmarkstími endurkomubanns og því sé heimilt að úrskurða um skemmra endurkomubann. Sjónarmið um meðalhóf og sanngirni leiði til þess að úrskurða eigi um skemmra endurkomubann kæranda. Kærandi sé atvinnumaður í knattspyrnu og tveggja ára brottvísun sé óhóflega löng í ljósi þess að starfsævi knattspyrnumanna sé almennt frekar stutt. Kærandi hafi umtalsverða hagsmuni af því að geta sótt aftur um dvalarleyfi fyrir íþróttafólk þegar hann hafi yfirgefið landið, komi til brottvísunar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Brottvísun og endurkomubann
Í máli þessu er til úrlausnar hvort brottvísa beri kæranda frá Íslandi, sbr. a-lið 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda endurkomubann til landsins í tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.
Samkvæmt 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga er útlendingi sem þarf vegabréfsáritun til landgöngu ekki heimilt að dveljast hér á landi lengur en áritunin segir til um nema sérstakt leyfi komi til. Í 1. mgr. 50. gr. laganna er kveðið á um að útlendingur sem hyggist dvelja hér á landi lengur en honum sé heimilt skv. 49. gr. þurfi að hafa dvalarleyfi.
Á grundvelli a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga er heimilt að vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann dvelst ólöglega í landinu. Í 102. gr. er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal brottvísun ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laganna felur brottvísun í sér bann við komu til landsins síðar. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.
Kærandi kveðst hafa komið hingað til lands þann 22. janúar 2017 á grundvelli vegabréfsáritunar sem var gild til 11. mars 2017. Í ákvörðun Útlendingastofnunar frá 21. júlí 2017 kemur fram að kærandi hafi ekki yfirgefið landið þrátt fyrir áskorun þar um. Í ákvörðun Útlendingastofnunar frá 26. apríl 2018 kemur fram að skv. staðgreiðsluskrá hafi kærandi unnið og fengið greidd laun hér á landi frá nóvember 2017 til þess dags. Af ofangreindu er ljóst að kærandi hefur dvalið hér á landi umfram þá 54 daga sem honum var heimilt skv. vegabréfsáritun frá janúar 2017.
Eins og fram hefur komið kvaðst kærandi hafa verið í góðri trú um það að hann hefði heimild til dvalar hér á landi á meðan umsókn hans um dvalarleyfi væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar leiðir vanþekking kæranda á reglum um heimild til dvalar hér á landi umfram þann tíma sem vegabréfsáritun hans hafi heimilað honum ekki til þess að ákvörðun um brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá er ljóst að Útlendingastofnun hefur ítrekað skorað á kæranda að yfirgefa landið af sjálfsdáðum til þess að komast hjá brottvísun. Verður því talið að kæranda hafi að minnsta kosti frá birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar dags. 21. júlí 2017 mátt vera ljóst að dvöl hans hér á landi væri ólögmæt.
Við birtingu tilkynningar Útlendingastofnunar um hugsanlega brottvísun og endurkomubann þann 15. mars 2018 var kæranda veittur 7 daga frestur til þess að yfirgefa landið sjálfviljugur. Kærandi mun hins vegar enn vera staddur hér á landi og dvelst því ólöglega í landinu. Atvik málsins gefa að öðru leyti ekki tilefni til að ætla að brottvísun kæranda geti falið í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi áréttar kærunefnd að kærandi hefur ekki heimild til dvalar hér á landi og hefur fengið nægt ráðrúm til að yfirgefa landið. Samkvæmt framansögðu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda með vísan til a-liðar 1. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.
Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. Endurkomubannið getur verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár. Að mati kærunefndar gefa atvik málsins ekki tilefni til að víkja frá fyrirmælum ákvæðisins um lágmarkslengd endurkomubanns og verður ákvörðun Útlendingastofnunar um tveggja ára endurkomubann staðfest.
Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Anna Tryggvadóttir Gunnar Páll Baldvinsson