Utanríkisráðherra sótti ráðstefnu um stríðsglæpi í Úkraínu
Í dag var haldin í Haag ráðstefna um hvernig tryggt verði að þeir sæti ábyrgð sem fremja stríðsglæpi og brjóta á mannréttinda- og mannúðarlögum í Úkraínu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra sótti ráðstefnuna ásamt utanríkisráðherrum og öðrum fulltrúum um 50 ríkja. Aðstandendur ráðstefnunnar voru auk Hollands, Alþjóðasakamáladómstóllinn í Haag og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
Markmið ráðstefnunnar var að styrkja og samhæfa viðbrögð alþjóðasamfélagsins gagnvart þeim glæpum sem framdir hafa verið í Úkraínu. Algjör samstaða var um að draga Rússa til ábyrgðar og styðja við öflun sönnunargagna í því skyni. Í ályktun ráðstefnunnar voru kynbundnir glæpir og glæpir gegn börnum sérstaklega fordæmdir og sérstök áhersla lögð á stuðning við fórnarlömb þeirra.
Forseti og utanríkisráðherra Úkraínu ávörpuðu ráðstefnuna um fjarfundabúnað en Iryna Venediktova ríkissaksóknari Úkraínu sótti ráðstefnuna. Lýsti hún þeim áskorunum sem embætti hennar stendur frammi fyrir gagnvart þeim margháttuðu glæpum sem framdir hafa verið og öflun sönnunargagna um þá. Sagði hún að vonlítið sé að ná fram ábyrgð og stöðva stríðsreksturinn nema til komi samhæfð viðbrögð alþjóðasamfélagsins. Það hafi ekki aðeins þýðingu fyrir Úkraínu og þær hörmungar sem þar dynja yfir heldur fyrir heimsbyggðina alla. Til þess verði horft um allan heim hvernig tekið verði á þessum hluta stríðsins og uppgjöri á því. Af þessum sökum sé einnig mikilvægt að brugðist verði við voðaverkum af fullum þunga og þeir sem þeim valda verði látnir sæta ábyrgð.
Í ávarpi sínu lagði utanríkisráðherra áherslu á stuðning við Alþjóðsakamáladómstólinn og þá rannsókn sem hafin er á hans vegum og áréttaði mikilvægi þess að berjast gegn kynferðislegum og kynbundnum glæpum. Hún nefndi að tryggja þurfi þolendum réttláta málsmeðferð og skaðabætur sem taka mið af þörfum, óskum og velferð þeirra. Þá tók ráðherra sérstaklega undir nálgun ríkissaksóknara Úkraínu.
„Alþjóðasamfélagið hefur komið sér saman um það að veita alþjóðlegum sakamáladómstólum lögsögu yfir ákveðnum glæpum sökum þess hve alvarlegir og hryllilegir þeir eru og vegna þess að þeir ógna grunngildum alþjóðasamfélagsins. Stofnun Alþjóðlega sakamáladómstólsins fyrir tuttugu árum var mikilvægt skref í þeirri vegferð að binda enda á refsileysi vegna slíkra glæpa,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Ísland mun veita um 14 milljóna króna viðbótarframlagi til Alþjóðlega sakamáladómstólsins á þessu ári. Um er að ræða tvöföldun á árlegu framlagi Íslands vegna ákalls saksóknara ICC um aukinn stuðning.
Í tengslum við ráðstefnuna átti utanríkisráðherra einnig tvíhliða fundi með utanríkisráðherrum Hollands, Danmerkur og Grikklands. Utanríkisráðherra fundaði einnig sérstaklega með Uzra Zeya aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, en hún hefur m.a. beitt sér fyrir stofnun alþjóðlegs samstarfsvettvangs í baráttunni gegn kynbundnu áreiti og einelti á netinu.