Nr. 275/2020 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 13. ágúst 2020 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 275/2020
í stjórnsýslumáli nr. KNU20050024
Beiðni [...] um endurupptöku
I. Málsatvik
Þann 30. apríl 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 17. janúar 2020 um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Albaníu (hér eftir nefndur kærandi), og börnum hennar [...], fd. [...] (hér eftir A) og [...], fd. [...] (hér eftir B), ríkisborgurum Albaníu um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 11. maí 2020. Þann 18. maí 2020 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Jafnframt var óskað eftir frestun réttaráhrifa. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 13. júlí 2020.
Kærunefnd veitti lögmanni kæranda frest til 26. maí 2020 til að skila frekari gögnum í málinu. Þann 20. maí 2020 barst kærunefnd tölvubréf frá lögmanni kæranda þess efnis að lögmannsstofan Réttur væri ekki lengur með umboð fyrir hana í málinu. Engin frekari gögn voru lögð fram af hálfu kæranda.
Beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar og barna hennar byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hennar og barna hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Reynt var að afla upplýsinga frá aðila með aðstoð túlks og með hjálp Rauða kross Íslands en hvorki greinargerð né ný gögn bárust kærunefnd í málinu.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 30. apríl 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda og barna hennar í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærandi lagði hvorki fram greinargerð né ný gögn til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku og dregur kærunefnd því þá ályktun að kærandi byggi beiðni um endurupptöku á máli sínu og barna sinna á sömu málsatvikum og málsástæðum sem hún byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu fyrir kærunefnd. Eins og áður segir tók kærunefnd afstöðu til þeirra málsástæðna í úrskurði kveðnum upp 30. apríl sl.
Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar frá 30. apríl 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsvik eða atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kæruefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.
Úrskurðarorð
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellant to re-examine the case is denied.
Jóna Aðalheiður Pálmadóttir
Bjarnveig Eiríksdóttir Þorbjörg Inga Jónsdóttir