Mál nr. 16/1999
Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 16/1999
A
gegn
dóms- og kirkjumálaráðuneytinu
--------------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála 28. febrúar 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu.
I
Með bréfi dags. 1. september 1999 óskaði A, sóknarprestur, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort val á sóknarpresti í Grenjaðarstaðarprestakalli bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.
Erindið var kynnt dóms- og kirkjumálaráðherra með bréfi dags. 9. september 1999 og óskað upplýsinga um:
1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna.
2. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans umfram kæranda, sbr. 8. gr. laga nr. 28/1991. Óskað var eftir afriti af umsókn þessa umsækjanda.
3. Hvað ráðið hafi vali á umsækjendum.
4. Fjölda og kyn starfsmanna Grenjaðarstaðarprestakalls.
5. Afrit af auglýsingu um starfið.
6. Afrit af umsögn valnefndar.
7. Starfslýsingu, ef til er.
8. Afrit af reglum um val á sóknarpresti.
9. Afstöðu kirkjumálaráðuneytisins til erindis kæranda.
10. Annað það sem telja má til upplýsinga fyrir málið í heild.
Eftirtalin gögn liggja frammi í málinu:
1. Erindi kæranda dags. 1. september 1999 ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins dags. 30. september 1999, ásamt fylgigögnum.
Kærandi mætti á fund kærunefndar jafnréttismála 9. febrúar 2000 og gerði grein fyrir helstu rökum sínum. Ekki var mætt af hálfu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.
II
Málavextir
Staða sóknarprests í Grenjaðarstaðarprestakalli var auglýst laus til umsóknar í Lögbirtingablaðinu hinn 3. febrúar 1999. Fram kom í auglýsingu að umsóknarfrestur væri til 26. febrúar 1999 og að embætti sóknarprests í Grenjaðarstaðarprestakalli fylgdi ábyrgð á og tilsjón með starfsemi kirkjumiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn. Í auglýsingunni voru konur sérstaklega hvattar til að sækja um embættið, með vísan til 5. gr. jafnréttislaga.
Í starfsreglum um presta nr. 735/1998 (starfsreglur), sbr. 39. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar (kirkjulög) er kveðið á um hvernig með skuli fara við val sóknarprests. Samkvæmt 15. gr. starfsreglnanna skal valnefnd velja presta og skal hún skipuð viðkomandi vígslubiskupi, prófasti og fimm fulltrúum prestakalls.
Valnefndin skal við mat á hæfi umsækjenda líta til menntunar, starfsaldurs, starfsreynslu og starfsferils. Sé í auglýsingu um laust embætti áskilin sérstök þekking eða reynsla eða starf er mjög sérhæft, skal meta umsækjendur eftir því hvernig þeir uppfylla þau sérstöku skilyrði. Við val samkvæmt ofanskráðu skal gæta ákvæða jafnréttislaga, sbr. 17. gr. starfsreglnanna.
Valnefnd í Grenjaðarstaðarprestakalli í Þingeyjarprófastsdæmi kom saman til fundar 17. mars 1999. Samkvæmt fundargerð voru sex karlar og ein kona í valnefndinni.
Biskup Íslands gaf út hinn 9. mars 1999 leiðbeinandi reglur um málsmeðferð fyrir valnefnd á grundvelli 18. gr. starfsreglna um presta (málsmeðferðarreglur). Samkvæmt 3. gr. málsmeðferðarreglnanna skal vígslubiskup afla upplýsinga hjá yfirmönnum/ samstarfsfólki/ kennurum, einkum síðustu fimm ára, um það orðspor sem fer af umsækjanda, starfi hans, samskiptum og hæfi. Einnig er í 7. gr. málsmeðferðarreglnanna nánari útlistun á þeim atriðum sem valnefnd skal líta til við mat á hæfi umsækjenda. Með menntun er að jafnaði átt við guðfræðimenntun frá háskóla en einnig er litið til annarrar menntunar sem þykir geta nýst í þjónustunni; með starfsaldri er átt við starfsaldur innan kirkjunnar, ber að líta til þess að miklu máli skipti fyrir söfnuði og presta að tekið sé tillit til starfsaldurs, stuðli það að því að prestar geti færst til í starfi; starfsreynsla skal að öllu jöfnu metin eftir starfsaldri innan kirkjunnar en einnig skal líta til annarrar starfsreynslu sem telja má að komi að gagni í þjónustunni; varðandi starfsferil skal gæta þess að umsækjandi njóti sannmælis og gjalda skal varhug við sögusögnum. Að því er varðar starfsvettvang skal hafa til hliðsjónar sérkenni prestakallsins, umsækjandi þarf að vera fús til og fær um að halda prestssetur prestakallsins og lýsa sig fúsan í samræmi við aðrar reglur að búa í prestakallinu. Að endingu skal valnefnd gæta jafnréttis og fylgja jafnréttisáætlun þjóðkirkjunnar og vinna til samræmis við jafnréttislöggjöf hverju sinni.
Umsækjendur um starfið voru fjórir, ein kona og þrír karlar. Allir umsækjendur voru boðaðir í viðtal. Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem starfið fékk.
Kærandi er fædd árið 1943. Hún lauk kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands 1964, BA-prófi í dönsku og landafræði frá Háskóla Íslands 1969, uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands 1970, guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1987. Hún stundaði framhaldsnám við Prestaháskólann og Fræðslumiðstöð dönsku kirkjunnar í Lögumkloster í Danmörku febrúar-júlí 1998 (sálgæsla, fermingarfræðsla, skóla-kirkju-samstarf, fræðsla í guðþjónustum, aðferðir, viðhorf). Einnig framhaldsnám í sálgæslu (Pastoral - Klinisk - Utdanning) í Drammen í Noregi september-nóvember 1998. Hún hefur sótt námskeið í kennslu-, æskulýðs- og kirkjustarfsmálum, biblíufræðum og leiðtogastörfum. Kærandi starfaði sem kennari við Öldutúnsskóla í Hafnarfirði 1964-1970, 1971-1976. Var kennari við grunnskóla í Kerteminde, Danmörku 1970-1971 og stundakennari í dönsku við Æfingadeild Kennaraháskóla Íslands 1972-1973. Hún var kristnifræðikennari á Siglufirði 1988-1989, aðstoðaræskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar 1976-1982. Var farprestur á Blönduósi í Þingeyrarklaustursprestakalli og hluta Bólstaðarhlíðarprestakall febrúar-september 1988, farprestur á Siglufirði september 1988-júní 1989 og sóknarprestur Bólstaðarhlíðarprestakalls frá júlí 1989. Hún kenndi á námskeiðum fyrir dönskukennara 1972-1976. Var trúnaðarmaður fatlaðra á Norðurlandi vestra frá 1993. Leiðtogi í barnastarfi KFUK í Reykjavík og Hafnarfirði frá 14 ára aldri - og í unglingastarfi frá 16 ára aldri. Hún tók þátt í stjórnar- og félagsstörfum í Kristilegum skólasamtökum á menntaskólaárum (fyrir unglinga 14-20 ára). Var aðstoðarmaður í barnastarfi Fríkirkjunnar í Hafnarfirði í nokkur ár. Fræddi tímabundið fermingarbörn í forföllum presta í Reykjavík og Hafnarfirði áður en hún varð prestur. Hún var sumarbúðastjóri í Kaldárseli við Hafnarfjörð nokkur sumur. Tók þátt í að skipuleggja og standa fyrir fjölbreyttu félagsstarfi og námskeiðum í sumarbúðum í Vindáshlíð, Vatnaskógi, Ölveri, Skálholti og við Vestmannsvatn.
Sá sem starfið fékk, B, er fæddur árið 1964, hann lauk kandidatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands í febrúar 1993. Endurmenntun og námskeið sem hann hefur sótt eftir prestvígslu eru: allmörg mörg námskeið og fyrirlestrar um sorg og sorgarviðbrögð, allmörg námskeið um kristilegt barna- og unglingastarf, námskeið um sjálfsvíg ungs fólks á vegum Prestafélags Austurlands 1997, námskeið um áfallahjálp á vegum Rauða kross Íslands 1997, námskeið um áfallahjálp á vegum Landsbjargar 1998, ýmis námskeið í tilbeiðslufræðum (liturgíu) á vegum Vígslubiskupsins í Skálholti, söngnámskeið hjá Ingveldi Hjaltesteð 1997, söngnám við tónskólann í Neskaupstað 1993-1999, námstefna um Guðfræði Austurkirkjunnar á vegum Alkirkjuráðsins 1998. B var bóndi á Tannastöðum í Hrútafirði 1988-1992 og hafði áður búið félagsbúi með foreldrum sínum. Á háskólaárunum starfaði hann við öryggisvörslu í Reykjavík og kom að kirkjustarfi við Hjallakirkju í Kópavogi, og vann eitt sumar á Arnarholti á Kjalarnesi, sem þá var útibú frá geðdeild Borgarspítalans. Hann var sumarbúðastjóri við Vestmannsvatn í afleysingum í um þrjár vikur sumarið 1993. Hann kenndi trúarbragðafræði við Verkmenntaskóla Austurlands á vorönn 1998. Hann var sóknarprestur í Norðfjarðarprestakalli frá ágúst 1993. Hann tók þátt í félagsstörfum í menntaskóla. Var ritari prestafélags Austurlands 1994-1997. Í stjórn samtaka um sorg og sorgarviðbrögð í Norðfirði frá stofnun 1994 og hefur tekið þátt í leiklistarstarfi.
Eftir að valnefnd hafði rætt við umsækjendur komust nefndarmenn að sameiginlegri niðurstöðu. Fengu allir umsækjendurnir fjórir góða umsögn en þeim var ekki hæfnisraðað. Valnefndin taldi sig hafa gætt þeirra reglna, sem gilda um val á sóknarpresti, um að meta beri menntun, starfsaldur, starfsreynslu og starfsferil og aðra þætti, sem varða viðkomandi prestakall sérstaklega. Þar er átt við fjölskylduaðstæður, mögulegan þjónustutíma og hvernig prestur og fjölskylda hans falla inn í samfélagið. Valnefndin lagði áherslu á að um væri að ræða dreifbýlisprestakall, þar sem verulegt rót hefði verið á prestþjónustu í mörg ár. Því var lagt mikið upp úr því að fá prest sem kæmi til með að þjóna um lengra tímabil. B hefur fjölskyldutengsl inn á svæðið þannig að með hliðsjón af því taldi nefndin að meiri líkur væru á því að festa kæmist á prestsþjónustuna. Einnig var litið sérstaklega til þess að sóknarprestinum var ætlað verulegt hlutverk við kirkjumiðstöðina við Vestmannsvatn og æskilegt að presturinn beitti sér fyrir auknum vexti hennar og viðgangi. B þótti hafa mjög framsæknar og áhugaverðar hugmyndir um starfsemi kirkjumiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn. Valnefndin komst að þeirri niðurstöðu að B væri hæfastur til þess að þjóna Grenjaðarstaðarprestakalli.
Hinn 18. mars 1999 ritaði kærandi valnefnd Grenjaðarstaðarprestakalls bréf þar sem farið er fram á rökstuðning nefndarinnar fyrir valinu. Sigurður Guðmundsson, vígslubiskup sendi kæranda bréf hinn 21. mars 1999 þar sem val nefndarinnar er rökstutt. Kveður hann valnefndina hafa lagt heildarmat á þá þætti sem henni bar. Slíkt málefnalegt heildarmat sé sérstaklega erfitt ef umsækjendur eru svipað hæfir. Inn í það komi auk hinna faglegu sjónarmiða allir þættir sem varða umsækjendur og þarfir prestakallsins. Sé því ekki sjálfgefið að sá umsækjandi sem hafi mesta menntun og lengstan starfsaldur fái embættið. Nefndin hafi náð samstöðu um að sá sem stöðuna fékk væri sá hæfasti til að gegna þjónustunni í Grenjaðarstaðarprestakalli. Hann hafi sótt fjölmörg námskeið eftir vígslu, sem nýtist þjónustunni vel, hann hafi fimm til sex ára starfsreynslu í fjölmennu prestakalli, þar sem bæði sé þéttbýli og deifbýli og hann hafi fengið ágætar umsagnir samstarfsmanna. B hafði að mati valnefndar afar framsæknar og áhugaverðar hugmyndir um starfsemi kirkjumiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn og augljóslega mikinn áhuga á henni. Fram kom athugasemd við búsetu kæranda utan núverandi prestakalls. Taldi vígslubiskup slíka búsetu jafngilda því að presturinn væri ávallt gestkomandi þegar hann kæmi í prestakallið en ekki einn af íbúum þess eins og lögskylt væri. "Sumum sóknarbörnum kynni jafnvel að þykja það niðurlægjandi að prestur treysti sér ekki til að búa í prestakalli þar sem prestsetur stendur til boða." Vegna búsetu kæranda á Blönduósi taldi vígslubiskup hana ekki hafa tekið beinan þátt í daglegu lífi fólksins og ekki hafa verið þá kjölfestu í lífi þess sem henni bar. Niðurstaða nefndarinnar var að vegna þessa hefði kærandi "ekki reynslu af því að deila kjörum með sóknarbörnum [sínum] sem einn af íbúum samfélagsins í prestakallinu."
Kærandi ritaði hinn 7. apríl 1999 bréf til kirkjuráðs svo og til jafnréttisnefndar kirkjunnar, þar sem óskað var eftir svörum við ákveðnum álitaefnum, sem varða niðurstöðu valnefndar við val á sóknarpresti í Grenjaðarstaðarprestakalli. Kirkjuráð svaraði fyrirspurnum kæranda á þann veg að það væri ekki á starfssviði þess að fjalla um mál er varði skipun ráðherra í einstök prestsembætti. Jafnréttisnefnd kirkjunnar svaraði kæranda með bréfi hinn 2. júní 1999. Niðurstaða hennar er að flest bendi til þess að hvorki ákvæði jafnréttislaga né jafnréttisáætlun kirkjunnar hafi verið virt við val í embætti sóknarprests í Grenjaðarstaðarprestakalli.
III
Rök kæranda
Kærandi rökstyður erindi sitt með því að hún sé betur að embættinu komin en B þegar litið sé til menntunar, starfsreynslu, starfsferils og annarra atriða sem máli skipta fyrir embættið.
Kærandi kveðst hafa meiri menntun og lengri starfsaldur en sá sem embættið hlaut. Kærandi telur óeðlilegt að dregið sé í efa að starfsreynsla hennar sé í samræmi við starfsaldur, á þeirri forsendu að fámenni sé í núverandi prestakalli hennar. Sóknir kæranda eru fimm með tæplega 300 íbúum. Hún bendir á að hún hafi ekki eingöngu starfað í dreifbýlisprestakalli, heldur einnig starfað sem prestur á Blönduósi, Siglufirði og Skagaströnd og jafnframt starfað sem sveitaprestur í allri Austur-Húnavatnssýslu. Kærandi fellst á að starfsreynsla í fámennu prestakalli sé önnur en í fjölmennu, en telur hana ekki minna virði. Auk þess sem það prestakall sem sótt var um, Grenjaðastaðarprestakall sé dreifbýlisprestakall, þar sem enginn bæjarkjarni sé og því sömu aðstæður og í Bólstaðarhlíðarprestakalli.
Kærandi segir að þegar hún hafi farið í viðtal hjá valnefndinni, hafi ekkert verið um það spurt hvort hún hygðist búa á Grenjaðarstað eður ei. Í hennar huga hafi aldrei annað komið til greina en að búa á prestssetrinu. Hafi það verið mjög óeðlilegt af hálfu valnefndar að draga þá ályktun út frá núverandi heimilisaðstæðum hennar, að hún myndi halda áfram að búa utan prestakallsins, fengi hún annað prestakall til þess að þjóna. Kærandi kveðst hafa fengið leyfi biskups og ráðuneytis til að búa utan Bólstaðarhlíðarprestakallsins, að undangengnu samþykki allra fimm sóknarnefndanna og prófastsins. Kærandi kveður prestbústað Bólstaðarhlíðarprestakalls þykja dýran í rekstri og þar séu engin útihús. Jörð fylgi ekki prestsbústaðnum og því engin aðstaða til að halda skepnur. Engin kirkja sé á staðnum. Einnig hafi sú ástæða vegið þungt við þessa ákvörðun um búsetu, að maður kæranda starfaði við vöruflutningar og gat vinnu sinnar vegna ekki búið 30 km frammi í sveit. Kærandi tekur fram að það séu einungis u.þ.b. 2 km til fyrsta sóknarbarns frá Blönduósi og mörg sóknarbörn eigi erindi þangað og geti þá leitað til hennar. Kærandi telur sig hafa þjónað sóknarbörnum sínum eins og best verði á kosið með helgihaldi, fræðslustarfi, húsvitjunum og persónulegri sálgæslu. Einnig kveðst hún hafa, vegna mikilla fjarvista fyrrum Blönduósprests, sinnt erfiðum tilfellum á Blönduósi. Kærandi kveðst myndu hafa viljað búa í prestakallinu ef aðstæður hefðu verið aðrar. Það að halda því fram að kærandi hafi ekki tekið þátt í samfélagi og daglegu lífi sóknarbarnanna, heldur hafi hún verið gestkomandi þegar hún hafi komið í prestakallið, telur kærandi ómaklega gagnrýni. Hún kveðst hafa lagt sig vel fram í starfi sínu og skilji ekki þá fullyrðingu að hún hafi ekki reynslu af að deila kjörum með sóknarbörnum sínum.
Varðandi þau rök valnefndar að vænlegra væri að fá yngri manneskju til starfsins í ljósi þess að mikið rót hafi verið á þjónustunni vegna tíðra mannaskipta, telur kærandi sig hafa sýnt mikla festu í stafi. Hún hafi þjónað sinni sókn í nær 10 ár, í sókn þar sem erfitt hafi verið að fá prest til starfa og hafi þeir verið þar í stuttan tíma. Hún geti aldursins vegna ekki starfað í marga tugi ára til viðbótar, en líta beri til þess að prestur sá sem síðast þjónaði Grenjaðarstaðarsókn hafi verið ungur að árum en hafi engu að síður ekki setið þar lengi, þannig að ljóst sé að ekki sé allt fengið með ungum aldri.
Kærandi segir að henni hafi ekki verið gefinn kostur á að lýsa sérstaklega hugmyndum sínum varðandi kirkjumiðstöðina við Vestmannsvatn, það komi því á óvart að sá er starfið fékk hafi fengið tækifæri til þess og að það hafi síðan verið lagt til grundvallar við heildarmat valnefndar við stöðuveitinguna. Telur hún hvern umsækjanda hafa fengið um 30 mínútur og hafi verið spurt spurninga í þulu eins og um próf væri að ræða, engin umræða hafi átt sér stað.
Kærandi segir að sér virðist að valnefndin hafi lagt megin áherslu á að samstaða næðist um prestsefnið á kostnað sjálfstæðra, faglegra og lagalegra sjónarmiða og eigin samvisku. Kveðst hún í kynningarferð sinni í prestakallið hafa orðið vör við fordóma í sinn garð sem konu.
Loks bendir kærandi á að í auglýsingu um embættið hafi konur verið sérstaklega hvattar til að sækja um það. Hljóti slíkri hvatningu jafnframt að fylgja sú ábyrgð að virða og meta konur til jafns við karla. Jafnréttisnefnd kirkjunnar hafi talið flest benda til þess að hvorki ákvæði jafnréttislaga né jafnréttisáætlun kirkjunnar hafi verið virt.
IV
Rök kærða
Í bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 30. september s.l. er vísað til þess að kirkjumálaráðherra skipi í embætti sóknarpresta, sbr. 37. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Að mati ráðuneytisins var orðalag 40. gr. sömu laga mjög afdráttarlaust, en þar segir: "Ráðherra veitir þeim embætti sóknarprests, sem hlotið hefur bindandi val..." Hendur ráðherra séu því bundnar hafi valnefnd orðið sammála um tiltekinn umsækjanda. Ráðuneytið vísar hins vegar til jafnréttisáætlunar kirkjunnar og áréttar að í leiðbeinandi reglum um málsmeðferð fyrir valnefnd sé rækilega rakið að um störf nefndarinnar gildi ákvæði stjórnsýslulaga, og að meðal þeirra sex atriða sem skoða þurfi við mat á hæfi umsækjenda sé jafnrétti. Að öðru leyti er ekki um varnir af hálfu kærða að ræða og ekki var mætt af hálfu ráðuneytisins á fund kærunefndar.
Rök valnefndar koma fram í bréfi formanns hennar, Sigurðar Guðmundssonar vígslubiskups, til kæranda, dagsett 21. mars s.l. og hafa þau verið rakin hér að framan. Einkum var lögð áhersla á eðli prestakallsins og að koma þar á festu, reynslu þess sem ráðinn var, kirkjumiðstöðina við Vestmannsvatn og búsetu á staðnum. Í bréfinu segir síðan: "Hvað varðar búsetu þína utan prestakalls er það svo að þér hlýtur að vera það ljóst að reginmunur er á því hvort prestur sem þjónar fámennri dreifbýlissókn býr þar meðal sóknarbarna sinna á prestsetrinu eða hvort hann býr lengra frá sóknarbörnum sínum í næsta þéttbýliskjarna. Það gefur auga leið að þátttaka í samfélagi og daglegu lífi sóknarbarnanna í dreifbýlisprestakalli þar sem munar um hvern og einn einstakling er með allt öðrum hætti ef prestur býr utan prestakallsins eða í því. Prestur sem býr utan prestakalls er ávallt gestkomandi þegar hann kemur í prestakallið í stað þess að vera einn af íbúum þess eins og lögskylt er. Sumum sóknarbörnum kynni jafnvel að þykja það niðurlægjandi að prestur treysti sér ekki til að búa í prestakalli þar sem prestsetur stendur til boða. Fá dæmi munu vera um það að sóknarprestur búi árum saman annars staðar en á prestsetri nema sérstakar aðstæður réttlæti það. Þau sjónarmið eru oft nefnd að það gefur prestakalli - eða sveitinni - vissa reisn og staðfestu að hafa sóknarprest búandi á prestsetri og sitja staðinn. Sóknarprestur í slíkum tilvikum er oft ákveðin kjölfesta í lífi fólks og myndar vissa festu í samfélaginu. Þannig væri ólíkt minni reisn yfir Grenjaðarstað ef sóknarprestur þar kysi t.d. að búa á Húsavík og samfélagið yrði óneitanlega fátæklegra. Þú hefur ekki haft fasta búsetu á prestsetrinu Bólstað í Bólstaðarhlíðarprestakalli fram að þessu og þar af leiðandi hefur þú ekki tekið beinan þátt sem einn af íbúum samfélagsins þar í daglegu lífi fólksins. Því telur nefndin, að þú hafir ekki reynslu af því að deila kjörum að því leyti með sóknarbörnum þínum sem einn af íbúum samfélagsins í prestakallinu. Nefndin efast ekki um að þú hafir að öðru leyti tekið þátt í samfélaginu í prestakalli þínu og deilt kjörum með fólkinu að öðru leyti."
V
Niðurstaða
Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 5. gr. jafnréttislaga. Hið opinberra ber hér sem annars staðar aukna ábyrgð.
Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.
Embætti sóknarprests í Grenjaðarstaðarprestakalli var auglýst laust til umsóknar hinn 3. febrúar 1999. Viðkomandi embætti er sérstakt að því leyti að því fylgir ábyrgð á og tilsjón með starfsemi kirkjumiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn í samvinnu við stjórn miðstöðvarinnar. Þegar staðan var auglýst voru konur sérstaklega hvattar til að sækja um embættið með vísan til 5. gr. jafnréttislaga, er þetta í samræmi við jafnréttisáætlun kirkjunnar.
Valnefnd er skipuð til að velja sóknarprest úr hópi umsækjenda samkvæmt 15. gr. starfsreglanna, sbr. 39. gr. kirkjulaga og ber henni að gæta ákveðinna viðmiða við val sitt. Samkvæmt 17. gr. starfsreglnanna og nánar í 7. gr. málsmeðferðarreglna þeirra sem henni eru settar af biskupi er þar einkum um að ræða menntun, starfsaldur, starfsreynslu og starfsferil. Einnig skal hún líta til starfsvettvangs og gæta jafnréttisreglna.
Í jafnréttisáætlun kirkjunnar er kveðið á um að við skipan í nefndir og ráð á vegum kirkjunnar skuli leitast við að hlutföll kynja séu sem jöfnust og að stefnt skuli að því að bæði kynin eigi a.m.k. einn af þremur fulltrúum eða tvo af fimm í nefndum og ráðum kirkjunnar. Valnefnd í Grenjaðarstaðarprestakalli í Þingeyjarprófastsdæmi kom saman til fundar 17. mars 1999. Í valnefndinni voru sex karlar og ein kona. Vakin er athygli á því að hlutföll kynja í valnefndinni voru ekki í samræmi við jafnréttisáætlunina. Hún hæfnisraðaði ekki umsækjendum eins og kveðið er á um í e-lið 5. gr., sbr. j-lið 8. gr. málsmeðferðarreglnanna.
Samkvæmt því sem fram hefur komið, hefur kærandi meiri menntun en sá sem embættið hlaut séra B. Hún hefur einnig lengri starfsaldur og fjölbreyttari starfsferil. Bæði hafa þau sótt námskeið sem nýtast í prestsþjónustu. Valnefndin vísar til þess að B hafi fimm til sex ára starfsreynslu í fjölmennu prestakalli, þar sem hvort tveggja hafi verið þéttbýli og dreifbýli. Um kæranda er sagt: "vegna fámennis í núverandi prestakalli er starfseynsla e.t.v. ekki í samræmi við starfsaldur." Kærandi hafði á þessum tíma sinnt preststörfum í ellefu ár bæði í þéttbýli og dreifbýli og þykir hún að þessu leyti ekki hafa notið sannmælis af hálfu valnefndar. Að því er varðar hin almennu viðmið er leggja ber til grundvallar við val telur kærunefnd jafnréttismála að kærandi hafi verið hæfari.
Ber þá að skoða hvort einhver sérstök sjónarmið séu til staðar sem réttlæti niðurstöðu valnefndarinnar. Valnefndin taldi að svo væri og kvaðst horfa til "persónu og persónulegra haga umsækjenda, sérstaklega með hliðsjón af sérkennum prestakallsins og þeim viðfangsefnum sem sóknarpresti er ætlað að sinna í prestakallinu." Lagði nefndin sérstaka áherslu á verkefni kirkjumiðstöðvarinnar við Vestmannsvatn, að um dreifbýlisprestakall væri að ræða og þýðingarmikið að prestur sæti staðinn, og að vegna tíðra mannskipta væri nú lögð áhersla á að koma festu á þjónustuna.
Að því er kirkjumiðstöðina við Vestmannsvatn varðar taldi nefndin B hafa haft framsæknar og áhugaverðar hugmyndir um starfsemina þar. Kærunefnd jafnréttismála virðist, samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hefur, að valnefndin hafi ekki gætt fyllsta jafnræðis með umsækjendum varðandi það að leita eftir hugmyndum þeirra um þennan þátt starfsins. Það bar henni þó að gera þar sem hún taldi það vera ákvörðunaratriði varðandi valið. Þar sem hún gaf umsækjendum ekki jafnt tækifæri til að gera grein fyrir hugmyndum sínum getur hlutlægt mat ekki grundvallast á þessu atriði.
Valnefndin virðist hafa dregið þá ályktun að kærandi ætlaði ekki að búa á prestsetrinu á Grenjaðarstað. Forsenda þessarar ályktunar virðist eingöngu vera sú að hún býr ekki á prestsetri í núverandi prestakalli. Hefur hér að framan verið gerð grein fyrir rökum kæranda fyrir því. Kærandi kveðst aldrei hafa gefið í skyn að hún ætlaði ekki að búa á prestsetrinu fengi hún embættið og kveðst hún einmitt hafa horft til búsetu þar með tilhlökkun. Valnefndin virðist því staðhæfa um þetta atriði án þess að hafa rannsakað málið. Var kæranda ekki gefinn kostur á að tjá sig um afstöðu sína til búsetu. Geta slíkar óstaðfestar ályktanir ekki verið rök gegn vali á umsækjanda. Kærunefndin telur þessa forsendu valnefndarinnar því vera ómálefnalega og ekki tæka sem rök fyrir niðurstöðu nefndarinnar.
Loks rökstyður valnefndin val sitt á B með því að með ráðninu á ungri manneskju, sem hafi fjölskyldutengsl inn á svæðið, séu meiri líkur á því að festa komist á þjónustu prestsembættisins, en talsverð mannaskipti munu hafa verið þar undanfarin ár. Kærandi er fædd árið 1943 og á því eftir 13 ár af starfsaldri sínum. Hún hefur sýnt meiri staðfestu í núverandi prestakalli en margir fyrirrennarar hennar þar. Þá ber að líta til þess að samkvæmt nýjum reglum eru prestar aðeins skipaðir til fimm ára í senn. Kærunefnd jafnréttismála fellst á það að vissulega gæti yngri manneskja setið í fleiri ár sem prestur á Grenjaðarstað. Engin trygging þykir þó vera fyrir því að svo verði og þykir þessi forsenda byggð á getsökum. Fjölskyldutengsl í prestakallinu þykja vart vera rök fyrir hlutlægu mati. Kærunefndin telur því að hér sé ekki um sérstaka ástæðu að ræða sem réttlætt geti niðurstöðu valnefndar.
Í jafnréttisáætlun kirkjunnar er kveðið á um að jafnréttis skuli gæta þegar ráðið er í störf innan kirkjunnar. "Það kynið sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein skal að öðru jöfnu ganga fyrir við ráðningar í störf þegar umsækjendur eru taldir jafnhæfir" segir þar. Mun færri konur gegna embættum presta á Íslandi en karlar. Þeir umsækjendur sem hér um ræðir voru samkvæmt mati valnefndarinnar bæði talin vel hæf til að gegna stöðunni, val nefndarinnar er því ekki samrýmanlegt jafnréttsáætlun krikjunnar.
Með vísan til þeirra atriða sem valnefnd bar að leggja til grundvallar við mat sitt og þeirra sérstöku þátta sem hún kaus að leggja áherslu á og rökstuðnings hennar fyrir þeim, þá er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að valnefnd hafi brotið þær reglur sem henni eru settar er hún valdi prest í embætti sóknarprests í Grenjaðarstaðarprestakalli í Þingeyjarprófastsdæmi, og að hún hafi brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, sbr. 1. gr., 3. gr. og 5. gr. sömu laga. Samkvæmt 40. gr. kirkjulaga veitir ráðherra þeim embætti sóknarprests sem hlotið hefur bindandi val en ákvarðar að öðrum kosti veitingu, að fenginni tillögu biskups. Þar sem dóms- og kirkjumálaráðherra hefur hið formlega skipunarvald ber ráðherra endanlega ábyrgð á því að gætt sé réttrar málsmeðferðar og efnisatriða við val á prestsefni og að farið sé að jafnréttislögum.
Þeim tilmælum er beint til dóms- og kirkjumálaráðherra að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi getur sætt sig við.
Sigurður Tómas Magnússon
Hjördís Hákonardóttir
Helga Jónsdóttir