Velferðarvaktin varar við áformuðum breytingum á fyrirkomulagi fæðingar- og foreldraorlofs.
Velferðarvaktin hefur sent félags- og tryggingamálaráðherra og félags- og tryggingamálanefnd Alþingis ályktun þar sem varað er við áformuðum breytingum á fyrirkomulagi fæðingar- og foreldraorlofs. Ályktunin var samþykkt á fundi Velferðarvaktarinnar 8. desember og er svohljóðandi:
Velferðarvaktin varar við áformum stjórnvalda um að fresta greiðslu foreldra- og fæðingarorlofs að hluta til, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi til breytinga á lögum um þetta efni. Velferðarvaktin telur að með þessu sé alvarlega gengið á rétt barna til samvista með foreldrum sínum á mikilvægum tíma í mótunarskeiði þeirra. Þessi áform eru sérstaklega alvarleg gagnvart börnum einstæðra mæðra í þeim tilvikum sem feðurnir nýta að engu leyti rétt sinn til fæðingarorlofs þar sem þeim börnum yrðu einungis tryggðir fimm mánuðir með móður á fyrsta æviári í stað sex mánaða.
Fæðingarorlof hér á landi er með því stysta sem gerist hjá Norðurlandaþjóðum, þrátt fyrir miklar réttarbætur í þágu barna með nýrri löggjöf um foreldra- og fæðingarorlof sem samþykkt var á Alþingi árið 2000.
Stýrihópur Velferðarvaktarinnar hefur áður bent á mikilvægi þess að gæta sérstaklega að þörfum barna og ungmenna í öllum aðgerðum vegna efnahagskreppunnar.