Sextán lögreglumenn útskrifast úr Lögregluskólanum
Sextán lögreglumenn voru útskrifaðir úr Lögregluskóla ríkisins í dag. Ellefu konur eru í hópnum og er hlutfall kvenna í lögreglu nú kringum 13%. Nýju lögregluþjónarnir hafa flestir þegar fengið störf sem lögreglumenn eða eru að sækja um stöður og einn hefur ráðið sig til Landhelgisgæslunnar.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra flutti ávarp við útskriftarathöfnina og sagði meðal annars ánægjulegt hversu margar konur væru í hópnum. Sagði hún hópinn eiga í vændum vandasamt og mikilvægt starf sem væri líka þakklátt. Ráðherra minntist á tillögur starfshóps um breytingu á menntun lögreglumanna þar sem gert væri ráð fyrir að námið yrði þriggja ára nám á háskólastigi. Sagði hún það grundvallarbreytingu á menntun lögreglumanna enda væri það stefna stjórnvalda að efla löggæsluna og að lögreglan væri ávallt sem hæfust til að takast á við fjölbreytt verkefni. Fram kom í máli hennar að hún myndi meta tillögurnar á næstunni.
,,Við þurfum ávallt að eiga lögreglulið sem getur mætt nýjum verkefnum, lögreglulið sem er tilbúið að setja sig inn í nýjar aðstæður og lögreglulið á sterkum grunni sem getur lagt á sig stöðugt nýjar áskoranir. Liður í því er í fyrsta lagi grunnmenntunin, í öðru lagi reynslan og hæfnin og í þriðja lagi símenntun sem viðheldur þessum grunni,“ sagði ráðherra meðal annars.
Karl Gauti Hjaltason, skólastjóri Lögregluskólans, flutti einnig ávarp og sagði að námið hefði breyst mikið gegnum árin og verið lagað að kröfum tímans. Hann sagði hlutverk skólans þýðingarmikið í endurmenntun lögreglumanna og nefndi sem dæmi að á árinu hefðu kringum 700 lögreglumenn setið 20 námskeið í því skyni bæði hérlendis og erlendis. Skólastjórinn sagði breytingar á náminu í farvatninu í kjölfar tillagna starfshóps ráðherra um framtíðarskipan grunnmenntunar lögreglumanna. Í lokin sagði hann lögregluna ítrekað hafa mælst með eitt mesta traust allra stofnana landsins og mikilvægt væri að varðveita það fjöregg sem slíkt traust væri.
Við útskriftina voru nemendum afhent verðlaun fyrir góðan námsárangur, hljómsveit lögreglumanna lék fyrir gesti og tveir nemar fluttu annál ársins. Einnig flutti ávarp Páley Borgþórsdóttir sem tekur um áramótin við embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum.