Innanríkisráðherra heimsótti lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti í dag Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, og nánustu samstarfsmenn hans greindu frá starfseminni og sýndu ráðherra og fylgdarliði aðsetur lögreglustöðvarinnar við Hverfisgötu.
Fram kom í máli Stefáns að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rekur fimm fullmannaðar lögreglustöðvar sem sinna öllum venjulegum verkefnum og útköllum. Auk stöðvarinnar á Hverfisgötu eru stöðvar í Grafarholti, við Grensásveg, í Kópavogi og í Hafnarfirði. Stefán og samstarfsmenn hans sögðu að á síðustu árum hefði tekist að sinna öllum verkefnum þrátt fyrir að hefði verið gripið til margs konar aðhaldsaðgerða vegna minnkandi fjárveitinga.
Hanna Birna Kristjánsdóttir þakkaði lögreglunni fyrir störf hennar á síðustu árum og þá ábyrgð og það traust sem hún hefði auðsýnt við erfiðar aðstæður í kjölfar hrunsins. Því hefði hún meðal annars kynnst vel árin sem hún gegndi embætti borgarstjóra í Reykjavík árin 2008 til 2010. Ráðherra minnti á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar væru ákvæði um að efla löggæsluna meðal annars með því að hrinda í framkvæmd tillögum nefndar um löggæslumál um forgangsröðun verkefna á næstu árum.
Eftir stuttan kynningarfund og samræður var farið um stöðina við Hverfisgötu og heilsað uppá starfsmenn í hinum ýmsu deildum þar.