Loftslagsbreytingar og átök valda gríðarlegri mannúðarþörf
„Að vinna með fólki sem er á flótta innan eigin lands getur reynst töluverð áskorun í samanburði við að vinna með flóttafólki, þar sem umboð, lög og reglugerðir eru umtalsvert óskýrari. Fólk sem er á flótta innan eigin lands er eðli málsins samkvæmt innan landamæra síns eigin ríkis og lítur því að þeim stjórnvöldum sem eru þar við völd, sem þýðir að ríkið sjálft er ábyrgt fyrir velferð þeirra. Fólk á flótta innan eigin lands flytjast oft til svæða þar sem erfitt reynist fyrir okkur að veita mannúðaraðstoð og af því leiðir er þetta fólk á meðal viðkvæmustu hópa í heiminum,“ segir Kjartan Atli Óskarsson starfsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, í Juba, Suður-Súdan.
Í viðtali sem birtist á vef UNHCR segir Kjartan Atli að honum hafi fundist spennandi að fá tækifæri til að vinna í mannúðarmálum, sérstaklega á stað eins og Suður-Súdan. „Ástandið í Suður-Súdan er töluvert frábrugðið því sem maður er vanur frá Íslandi – sem dæmi má nefna að það ríkir útgöngubann á starfsfólk Sameinuðu þjóðanna á kvöldin – og það má því með sanni segja að með því að koma hingað hafi ég stígið stórt skref út fyrir þægindaramann.“
- Hvers vegna valdir þú að vinna fyrir UNHCR?
„Það sem mér fannst áhugavert við að vinna fyrir UNHCR var að stofnunin vinnur með málaflokk sem fer aðeins vaxandi. Ef litið er til fjölgunar flóttafólks og fólks sem er á flótta innan eigin lands á heimvísu, er ljóst að þarfir þessa fólks munu aðeins halda áfram að aukast. Staðan í málefnum flóttafólks er krefjandi og tel ég mig geta lagt mitt af mörkum í því mikilvæga starfi sem unnið er á vegum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Það sem mér þótti enn fremur áhugavert var að fá frekari innsýn í hvernig viðbrögð við mannlegri neyð virka – sér í lagi þegar að kemur að fólki sem er á flótta innan eigin lands (Internally Displaced Persons) eða IDPs eins og þetta er kallað í daglegu tali. IDPs er fjarlægt hugtak fyrir einstakling frá Íslandi og því er það mikil áskorun að vinna í kringum þann málaflokk.“
Áður en Kjartan Atli hóf störf hjá UNHCR starfaði hann í áritunardeild og borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, meðal annars við að aðstoða íslenska ríkisborgara í neyð erlendis. „Sú reynsla hefur eflaust kveikt þennan neista hjá mér að fara að starfa hjá UNHCR og hjálpa þeim sem eru í neyð,“ segir Kjartan í viðtalinu sem má lesa í heild á vef UNHCR – á íslensku. Viðtalið tók Aðalsteinn Halldórsson.