Hoppa yfir valmynd
12. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 3/2015

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. mars 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 3/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010028


Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.             Kröfur, kærufrestur og kæruheimild

Þann 5. nóvember 2013 barst innanríkisráðuneytinu kæra [...]hdl., f.h. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. ágúst 2013, um að synja kæranda um dvalarleyfi hér á landi.

Þess er krafist að ógild verði ákvörðun Útlendingastofnunar og stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga.


II.            Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik með þeim hætti að kærandi sótti fyrst um dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar þann 5. desember 2006. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags, 21. maí 2007, var umsækjanda synjað um útgáfu leyfisins þar sem hún uppfyllti ekki aldursskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á þeim grundvelli. Þann 25. maí 2013 sótti kærandi aftur um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar og var synjað um leyfið með ákvörðun Útlendingastofnunar þann 7. ágúst 2013, þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 13. gr. útlendingalaga til að fá dvalarleyfi á grundvelli þess ákvæðis þar sem hún var ekki orðin 67 ára. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

Þann 27. ágúst 2013 barst innanríkisráðuneytinu kæra í málinu. Ráðuneytið óskaði eftir gögnum málsins frá Útlendingastofnun og bárust þau þann 27. september 2013. Gögn málsins voru send kæranda þann 3. október og kæranda boðið að koma á framfæri frekari upplýsingum eða gögnum vegna málsins. Greinargerð kæranda, dags. 30. október 2013, barst þann 5. nóvember 2013.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.


III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Útlendingastofnun byggir ákvörðun sína á því að kærandi falli ekki undir skilgreiningu 13. gr. útlendingalaga á aðstandanda þar sem hún uppfylli ekki aldursskilyrði greinarinnar og stofnuninni sé því ekki heimilt að gefa út dvalarleyfi henni til handa á grundvelli fjölskyldusameiningar. Jafnframt taldi stofnunin kæranda ekki uppfylla skilyrði þess að fá útgefið dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga, hvorki vegna mannúðarsjónarmiða né á grundvelli sérstakra tengsla við landið.


IV.          Málsástæður kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún sé […] ríkisborgari og [...]. Kærandi sé hætt að starfa utan heimilis og langi að eyða æviárum sínum með sinni nánustu fjölskyldu, börnum og barnabörnum. Kærandi hafi ekki hitt sum barnabarna sinna sem hér búi vegna þess hve kostnaðarsamt það er fyrir barnmargar fjölskyldur að ferðast svo langa leið. [...].[...] sökum fjarlægðar við heimili kæranda er samgangur ekki mikill [...]. Undanfarið hafi íslensk börn kæranda [...]. Kærandi búi við bágar félagslegar aðstæður í heimalandi sínu og því hafi verið tekin ákvörðun um það af kæranda og börnum hennar að hún flytti til þeirra á Íslandi svo fjölskyldan gæti verið sameinuð að nýju og börnin gætu annast hana í elli hennar.

Þá byggir kærandi á því að lögmætisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin sem og leiðbeiningarskylda stjórnvalda.


V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002 og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003 með áorðnum breytingum.

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar og jafnframt að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

Í 12. gr. f útlendingalaga er fjallað um heimild til að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt ekki sé fullnægt öllum skilyrðum 11. gr., ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Um aðskilin atriði er að ræða þegar annars vegar er metið hvort rík mannúðarsjónarmið standi til þess að veita dvalarleyfi og hins vegar hvort rétt sé að veita útlendingi dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið.

Í 2. mgr. 12. gr. f eru lögfest helstu sjónarmið sem leggja ber til grundvallar við veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Veita má slíkt leyfi ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra aðstæðna almennt í heimaríki eða vegna annara atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á.

Með 12. gr. f útlendingalaga er stjórnvöldum veitt ákveðið svigrúm til að bregðast við sérstökum aðstæðum, en gæta þarf að jafnræði í framkvæmd og hafa í huga að ákvæðið er undanþáguákvæði sem ber að túlka þröngt. Við mat á því hvort veita skuli dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða geta ýmsir þættir komið til skoðunar og ávallt þarf að fara fram heildarmat á öllum þáttum máls áður en dvalarleyfi á þeim grundvelli er veitt.

Hins vegar kemur til skoðunar hvort veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Undir sérstök tengsl í skilningi 12. gr. f útlendingalaga geta fallið tilvik þar sem útlendingur hefur dvalið áður í landinu eða þar sem um er að ræða nákomna ættingja sem falla undir skilgreiningu á hugtakinu aðstandandi skv. 13. gr. laganna.

Í leiðbeinandi sjónarmiðum við veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sem innanríkisráðuneytið birti þann 10. mars 2014, eru nefnd  dæmi um tilvik þar sem til greina kann að koma að veita dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Tilvik sem kunna að falla þar undir er þegar umsækjandi er einstætt foreldri eldri en 55 ára, eigi barn eldra en 18 ára sem býr á Íslandi og er íslenskur ríkisborgari eða hefur búsetuleyfi eða dvalarleyfi sem myndar grundvöll fyrir búsetu hér á landi. Í þeim tilvikum ráði umönnunarsjónarmið miklu, þ.e. að viðkomandi eigi engan annan að í heimalandi til að annast sig og uppfylli ekki aldursskilyrði 13. gr. útlendingalaga.

Fyrir liggur að kærandi hefur búið alla ævi á […] og á þar uppkominn son. Kærunefnd útlendingamála tekur því undir það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda séu ekki með þeim hætti að kærandi teljist hafa sérstök tengsl hér á landi og eigi rétt á dvalarleyfi á þeim grundvelli.

Með hliðsjón af öllu framansögðu, forsendum hins kærða úrskurðar, og með vísan til gagna málsins þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. ágúst 2013 um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga.

Við mat á því hvort að kærandi uppfylli skilyrði um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar skal líta til þeirra skilyrða sem fram koma í 11. og 13. gr. laganna.

Í 2. mgr. 13. gr. er hugtakið nánustu aðstandendur skv. 1. mgr. sömu greinar skilgreint svo: „...börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri.“ Það er mat kærunefndar að nokkuð skorti á skýrleika ákvæðisins og það krefjist ekki berlega að viðkomandi sé fullra 67 ára til að aldursskilyrði 2. mgr. 13. gr. megi teljast uppfyllt. Telur kærunefndin að óskýrleika ákvæðisins beri  að túlka kæranda í hag. Fyrir liggur að kærandi varð 66 ára aldri hinn 13. júní 2014. Með vísan til framangreinds er það því mat kærunefndar að uppfyllt séu aldursskilyrði 2. mgr. 13. gr. laganna. Því er lagt fyrir Útlendingastofnun að taka að nýju til meðferðar umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar og kanna hvort uppfyllt séu skilyrði 11. og 13. gr. útlendingalaga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar frá 7. ágúst 2013 í máli [...]um synjun dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga er staðfest. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka að nýju fyrir umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 13. gr. útlendingalaga.

The decision of the Directorate of Immigration, of 7 August 2013, in the case of [...], regarding the denial of residence permit on the grounds of article 12 f of the Act on Foreigners, No. 96/2002 is affirmed. The Immigration and Asylum Appeals Board instructs the Directorate of Immigration to process again the complainant's application on the grounds of article 13 of the Act on Foreigners, No. 96/2002.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

  Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                          Oddný Mjöll Arnardóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta