Hoppa yfir valmynd
25. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 25/2015

Kærunefnd útlendingamála


Þann 25. mars 2015 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 25/2015

Í stjórnsýslumáli nr. KNU15010026


 Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

 Með stjórnsýslukæru sem barst innanríkisráðuneytinu þann 28. ágúst 2013 kærði [...], f.h. [...], ríkisborgara [...], ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. ágúst 2013, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

 Kærunefndin telur að í kröfugerð kæranda felist að gerð sé krafa um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 2. mgr. 30. gr. sömu laga.

 

 

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik með þeim hætti að kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi hér á landi vegna náms þann 19. september 2007 með gildistíma til 1. febrúar 2008. Kærandi sótti um framlengingu á leyfinu en var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. apríl 2008, á grundvelli þess að hann uppfyllti hvorki skilyrði um fullnægjandi námsárangur né framfærslu. Þann 7. október 2009 var ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi með úrskurði innanríkisráðuneytisins. Kærandi sótti á ný um dvalarleyfi vegna námsdvalar þann 24. mars 2010 og var veitt leyfi með gildistíma frá 27. maí 2010 til 1. janúar 2011. Var beiðni kæranda frá 19. janúar 2011 um framlengingu leyfisins synjað þann 25. maí 2011 þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði um viðunandi námsárangur auk þess sem honum væri ekki heimil dvöl á Schengen-svæðinu sökum ólöglegrar komu til Noregs og ólöglegrar dvalar þar í landi. Kærandi lagði fram kæru á þeirri ákvörðun þann 16. júní 2011 en dró hana til baka með bréfi, dags. 8. ágúst 2012. Þann 12. október sótti kærandi um dvalar- og atvinnuleyfi vegna sérstakra tengsla við landið. Var þeirri ákvörðun synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. ágúst 2013, og er það sú ákvörðun sem nú er kærð.

 Framangreind ákvörðun var kærð til innanríkisráðuneytisins með bréfi, dags. 28. ágúst 2013. Þann 3. september 2013 óskaði innanríkisráðuneytið eftir afriti af öllum gögnum málsins frá Útlendingastofnun. Gögnin bárust innanríkisráðuneytinu þann 9. s.m. Meðal gagna voru ný gögn sem borist höfðu eftir að hin kærða ákvörðun var tekin hjá Útlendingastofnun.

 Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 11. desember 2013, var talsmanni kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari upplýsingum eða gögnum vegna kærumálsins. Bárust athugasemdir talsmanns kæranda þar að lútandi þann 22. janúar 2014.

Þann 1. janúar 2015 tók kærunefnd útlendingamála til starfa sbr. 3. gr. laga um útlendinga, með síðari breytingum. Allar kærur á ákvörðunum Útlendingastofnunar, sem enn biðu afgreiðslu hjá innanríkisráðuneytinu þann 1. janúar sl. og heyra til þeirra ákvarðana sem heimilt er að kæra til kærunefndar útlendingamála, verða afgreiddar hjá kærunefndinni, sem fer nú með úrskurðarvald í samræmi við 3. gr. a og 3. gr. b laga um útlendinga nr. 96/2002, sbr. 1. gr. laga nr. 64/2014.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

  

III.       Ákvörðun Útlendingastofnunar

 Ákvörðun Útlendingastofnunar byggir á því að kærandi hafi ekki sýnt fram á svo sérstök tengsl við landið að unnt hafi verið að verða við ósk hans um útgáfu dvalarleyfis á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga. Sá einstaklingur sem kærandi [...], tengist honum ekki að öðru leyti en því að hann býr hjá henni. Þá hafi kærandi ekki lagt fram gögn sem staðfesti að hann sé [...]. Var kæranda því synjað um útgáfu dvalarleyfis og gert að yfirgefa landið.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

 Svo sem fram hefur komið barst innanríkisráðuneytinu kæra frá talsmanni kæranda þann 28. ágúst 2013. Í kærunni er gagnrýnd sú fullyrðing Útlendingastofnunar að kærandi eigi ekki tengsl við landið. Í kærunni greinir að kærandi hafi dvalið hjá talsmanni og fjölskyldu hennar frá því hann var unglingur. Hafi hann búið við sömu aðstæður og aðrir drengir á heimilinu. Þá er bent á að röng sé fullyrðing Útlendingastofnunar um að fósturfaðir kæranda sé búsettur í Noregi, hann búi nú á Íslandi og hafi gert um nokkurt skeið. Ennfremur segir að kærandi hafi engin tengsl við heimaland sitt lengur önnur en að hafa fæðst þar en fjölskylda hans sé nú búsett í [...]. Hann hafi því ekki að neinu að hverfa á [...].

 Hvað varðar umfjöllun í ákvörðun Útlendingastofnunar um ólöglega komu kæranda til Noregs og ólöglega dvöl þar í landi, segir í kæru að kærandi hafi farið til Noregs til að heimsækja fósturfaðir sinn, en hann hafi dvalið þar um stuttan tíma í atvinnuleit. Kærandi hafi haft samráð við Útlendingastofnun áður en hann fór í ferðina og verið tjáð að „allt væri í lagi“ en til vara hafi hann haft samband við innanríkisráðuneytið og fengið þaðan bréf, undirritað og stimplað, þess efnis að „það væri allt í lagi“ og verið væri að vinna í vegabréfsmálum fyrir hann. Þetta bréf hafi kærandi átt að sýna ef hann yrði beðinn um skilríki. Það hafi síðan ekki komið til. Hálfu ári eftir að kærandi hafi komið aftur til Íslands hafi honum borist boðun frá ríkislögreglustjóra og kæranda birt kæra frá Noregi vegna hinnar ólöglegu komu þangað og dvalar í landinu.

Kærandi greinir frá því að mestu máli skipti að [...]

Í tölvupósti frá [...], sem barst innanríkisráðuneytinu þann 29. ágúst 2013, kemur fram að kærandi standi sig vel [...]

Í kjölfar þess að talsmanni kæranda voru kynnt málsgögn Útlendingastofnunar barst innanríkisráðuneytinu bréf hans, dags. 22. janúar 2014. Segir þar að kærandi sé [...]. Hann hafi aðlagast landinu vel, talið tungumálið og sé í stöðugri framför. Ennfremur hafi hann ekki komist í kast við lögin eða þurft að þiggja hjálp frá samfélaginu. Er ítrekað það sem áður hefur komið fram að [...]

 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið.

 Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 96/2002, með síðari breytingum og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum. Í 11. gr. útlendingalaga koma fram grunnskilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt ákvæðinu má veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi í samræmi við ákvæði 12. – 12. gr. e eða 13. gr., laganna að fenginni umsókn og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. ef framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði er tryggt. Samkvæmt 12. gr. f. er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið.

[...]

Kærunefnd útlendingamála telur að sú túlkun Útlendingastofnunar á sérstökum tengslum við landið sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun, að kærandi teljist ekki hafa getað myndað sérstök tengsl við landið með fimm og hálfs árs dvöl einni, þarfnist frekari rökstuðnings. Það eitt að kærandi hafi dvalist lengur í heimalandi sínu getur ekki talist fullnægjandi rökstuðningur fyrir því að sérstöktengsl hans við Ísland séu ekki til staðar.

Að mati kærunefndarinnar geta hin nýju gögn haft veruleg áhrif á niðurstöðu málsins og er því í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi eru, rétt að mál hans hljóti nýja umfjöllun hjá Útlendingastofnun í samræmi við meginregluna um að málsaðili eigi rétt á að mál hans hljóti umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum. Því er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar Útlendingastofnunar.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. ágúst 2013, um að synja [...], um útgáfu dvalarleyfis, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun.

The decision of the Directorate of Immigration, of 6 August 2013, in the case of [...], is annulled and referred back to the Directorate of Immigration for another review.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                         Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta