Hoppa yfir valmynd
13. júní 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Yfirlýsing um félagslegt réttlæti

Þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) samþykkti 10. júní síðastliðinn yfirlýsingu um félagslegst réttlæti á alþjóðavettvangi og hvernig mæta megi mögulegum neikvæðum áhrifum alþjóðavæðingar efnahagslífsins á félags- og vinnumál í heiminum.

Þingið hófst 28. maí og lýkur í dag. Meginviðfangsefni þess var umfjöllun um það hvernig stofnunin geti liðsinnt aðildarríkjunum við að vinna gegn mögulegum neikvæðum áhrifum alþjóðavæðingar efnahagslífsins á framvindu félags- og vinnumála hjá þjóðum heims.

Samstaða tókst um afgreiðslu yfirlýsingar um þetta efni. Með henni er mótuð stefna fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina og aðildarríki hennar til næstu ára um það hvernig tekið skuli á þessum málum. Samþykktin þykir marka tímamót og er gert ráð fyrir að hún hafi áhrif á stefnu annarra alþjóðastofnana.

Annað aðalmál þingsins var atvinnusköpun í dreifibýli. Þingið afgreiddi þingsályktun um þetta efni þar sem settar eru fram tillögur um stefnumótun til að fjölga störfum í dreifbýli og hvernig skuli stuðlað að stofnun sjálfbærra fyrirtækja sem skapi forsendur fyrir tekjuöflun og dragi úr fátækt í dreifbýli.

Þriðja sérhæfða málefni Alþjóðavinnumálaþingsins var efling starfsmenntunar í atvinnulífinu. Um þetta efni var fjallað í einni af nefndum þingsins sem lagði fram tillögu til þingsályktunar sem þingið samþykkti einróma. Í henni felast tilmæli til ríkisstjórna og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir til að bæta starfshæfni sem stuðli að mannsæmandi vinnuskilyrðum, auki framleiðni og verði hvati efnahagsþróunar.

Samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar ber aðildarríkjum að senda á Alþjóðavinnumálaþingið a.m.k. fjögurra manna sendinefnd þar sem tveir eru fulltrúar hlutaðeigandi ríkisstjórnar og hinir tveir eru fulltrúar annars vegar samtaka atvinnurekenda og hins vegar samtaka launafólks. Samtals sóttu þingið 4.212 fulltrúar frá 180 aðildarríkjum. Fulltrúar Íslands voru Magnús M. Norðdahl og Georg Páll Skúlason, frá Alþýðusambandi Íslands; Hrafnhildur Stefánsdóttir og Jón H. Magnússon, frá Samtökum atvinnulífins; Kristinn F. Árnason sendiherra og Ragnar G. Kristjánsson sendifulltrúi, frá fastnefnd Íslands í Genf og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri, frá félags- og tryggingamálaráðuneyti. Gylfi var endurkjörinn formaður fjárhagsnefndar Alþjóðavinnumálaþingsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta