Opnun Nesvalla
Ný þjónustumiðstöð fyrir aldraða var formlega tekin í notkun á Nesvöllum í Reykjanesbæ 14. júní. Félagsþjónusta Reykjanesbæjar er þar til húsa, auk tómstundaaðstöðu, mötuneytis og dagvistar fyrir aldraða.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, starfandi félags- og tryggingamálaráðherra, flutti ávarp við opnunina og sagði meðal annars að tvö atriði þyrfti ávallt að hafa í huga þegar byggð væri upp þjónusta fyrir aldraða. „Í fyrsta lagi snýst þjónusta alltaf fyrst og fremst um fólk. Þjónusta er veitt af fólki fyrir fólk. Því er ekki nóg að byggja upp glæsilega aðstöðu og fjölbreyttan húsakost ef ekki er tryggt að gott starfsfólk fáist til að sinna þjónustunni. Og þar sem þjónustan er fyrir fólk verður hún að taka mið af ólíkum, einstaklingsbundnum þörfum hvers og eins eigi hún að standa undir nafni."