Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2018 Forsætisráðuneytið

737/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018

Úrskurður

Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 737/2018 í máli ÚNU 17110001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 1. nóvember 2017, kærði fréttastofa Ríkisútvarpsins ohf. ákvörðun Samgöngustofu um að synja beiðni félagsins um aðgang að upplýsingum um hergagnaflutninga á tímabilinu frá árinu 2011. Í beiðni kæranda, dags. 22. september 2017, var óskað eftir yfirlitum yfir flugferðir þar sem sótt var um heimild fyrir slíka flutninga, upplýsingum um flugfélögin sem um ræðir og upphafs- og áfangastað flugferðanna og dagsetningar þeirra. Eftir nokkur samskipti kæranda og Samgöngustofu var tekin ákvörðun, dags. 16. október 2017, um synjun beiðninnar.

Í hinni kærðu ákvörðun segir að Samgöngustofa hafi veitt þær upplýsingar að frá miðju ári 2013 hafi Air Atlanta verið veittar heimildir til flutnings hergagna í nokkur skipti. Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga sé óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem á í hlut. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þá er vísað til 8. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála nr. 119/2012, en í 2. mgr. ákvæðisins segir að með gögn og aðrar upplýsingar sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi eða af öðrum ástæðum skuli fara sem trúnaðarmál. Sama gildi um gögn sem rekstrarleyfishafar afhenda stofnuninni og varða rekstrarleyfi þeirra. Þá segir í 19. gr. laganna að starfsmenn Samgöngustofu séu bundnir þagnarskyldu.

Samgöngustofa óskaði afstöðu Air Atlanta til veitingar upplýsinga um upphafs- og áfangastað hverrar ferðar. Félagið lagðist gegn því að þær yrðu veittar þar sem um væri að ræða mikilvæga viðskiptahagsmuni félagsins. Upplýsingarnar geti verið hernaðarlega mikilvægar fyrir viðskiptavini félagsins, eiganda farms eða móttakanda hans. Afhending upplýsinga vegna lagaskyldu megi ekki verða til þess að þær rati til almennings.

Í kæru kemur fram að kærandi sé fjölmiðill og starfi á grundvelli laga nr. 38/2011 um fjölmiðla og sérlaga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Við úrlausn málsins þurfi að gæta að markmiðum upplýsingalaga og hlutverki fjölmiðla í því samhengi.

Af hálfu kæranda kemur fram að ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 119/2012 sé almennt þagnarskylduákvæði og takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Um þetta er vísað til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 626/2016. Því verði að meta hvort umbeðin gögn hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Ekki verði séð að umbeðnar upplýsingar uppfylli áskilnað ákvæðisins, enda hafi kærandi eingöngu óskað upplýsinga um hvaða flugfélög væri að ræða, hvaða flugferðir, dagsetningar þeirra og upphafs- og áfangastaði.

Um 2. mgr. 8. gr. laga nr. 119/2012 segir kærandi að einnig sé um að ræða almennt ákvæði um þagnarskyldu þar sem ákvæðið tilgreini ekki með nákvæmum hætti þær upplýsingar sem gæta beri trúnaðar um. Ef komist verði að þeirri niðurstöðu að um sérstakt þagnarskylduákvæði sé að ræða verði það ekki skýrt öðruvísi en í fyrirliggjandi samhengi, en í lögskýringargögnum komi fram að ákvæðið sé sambærilegt eldra ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands. Ekki verði séð að ákvæðið hafi aðra og sérstaka merkingu umfram þá reglu sem nú gefi að líta í 19. gr. laga nr. 119/2012. Önnur niðurstaða gæti falið í sér að 19. gr. laga nr. 119/2012 væri orðin tóm, þar sem allar upplýsingar væru undanþegnar aðgangi á grundvelli 2. mgr. 8. gr., sbr. orðalagið: „sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi eða af öðrum ástæðum“.

Til vara er þess krafist að kæranda verði veittur aðgangur að hluta umbeðinna gagna þannig að afmáður verði sá hluti sem heimilt telst að takmarka aðgang að, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2017, var Samgöngustofu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Samgöngustofu, dags. 1. desember 2017, er aðallega vísað til rökstuðnings sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun. Bent er á að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að upplýsingum um það hvaða flugrekendur hefðu sótt um og fengið heimildir til hergagnaflutninga á því tímabili sem beiðni kæranda tekur til. Ákvörðunin hafi því varðað yfirlit um flugferðir, upphafs- og áfangastað þeirra auk dagsetninga.

Í umsögninni eru að öðru leyti endurtekin þau sjónarmið sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun en til viðbótar kemur fram það mat Samgöngustofu að 2. mgr. 8. gr. laga nr. 119/2012 feli í sér sérstakt þagnarskylduákvæði er lúti að verkefnum stofnunarinnar tengdum loftferðum.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um aðgang kæranda, sem er fjölmiðill, að upplýsingum í vörslum Samgöngustofu um hergagnaflutninga frá árinu 2011, nánar tiltekið um:

  1. Yfirlit um flugferðir þar sem heimild var veitt til hergagnaflutninga
  2. Flugfélögin sem um ræðir
  3. Upphafs- og áfangastaður flugferða
  4. Dagsetningar flugferða

Samgöngustofa hefur afmarkað beiðnina við bréf frá flugfélögum á tímabilinu þar sem óskað er heimildar fyrir hergagnaflutningum. Þar er ekki að finna upplýsingar um það hvort eða hvenær hver beiðni var samþykkt af hálfu Samgöngustofu.

Af hálfu Samgöngustofu hefur komið fram að kærandi hafi þegar fengið upplýsingar um það hvaða flugfélag um ræðir, þ.e. Air Atlanta. Af þessu tilefni er athygli stofnunarinnar vakin á því að fleiri flugfélög koma fyrir í þeim gögnum sem úrskurðarnefndin fékk afhent á grundvelli 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga.

Ákvörðun Samgöngustofu um synjun beiðni kæranda byggist á því að stofnuninni sé óheimilt að veita aðgang að umbeðnum gögnum annars vegar á grundvelli 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 119/2012 en hins vegar með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í fyrrnefnda ákvæðinu segir orðrétt:

Með gögn og aðrar upplýsingar, sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi eða af öðrum ástæðum, skal fara sem trúnaðarmál. Það sama gildir um gögn sem rekstrarleyfishafar afhenda stofnuninni og varða rekstrarleyfi þeirra.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 119/2012 segir:

Starfsmenn Samgöngustofu eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki, að viðlagðri ábyrgð, skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara, þar á meðal um rekstur eða viðskipti aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um sjálfstæða sérfræðinga þegar þeir starfa á vegum Samgöngustofu]. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum eða verksamningi ljúki.

Í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 626/2016 var komist að þeirri niðurstöðu að ákvæðið feli í sér sérstakt þagnarskylduákvæði að því er varðar viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila. Að því leyti sem ákvæðið tilgreinir ekki með nákvæmum hætti þær upplýsingar sem beri að gæta trúnaðar um felur það hins vegar í sér almenna reglu um þagnarskyldu sem takmarkar ekki rétt til aðgangs samkvæmt upplýsingalögum eins og fram kemur í 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Í þeim tilvikum verður þó að hafa hliðsjón af 2. málsl. 9. gr. laganna þar sem m.a. er kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sambærileg sjónarmið gilda um beitingu 2. mgr. 8. gr. laganna, sem felur að mati úrskurðarnefndarinnar í sér sérstakt þagnarskylduákvæði um gögn sem Samgöngustofa aflar við eftirlit með flugstarfsemi, sbr. 1. mgr. ákvæðisins.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að, sem eru eins og áður segir bréf frá flugrekendum þar sem óskað er heimildar Samgöngustofu fyrir hergagnaflutningum. Í hverri beiðni er að finna upplýsingar um gerð loftfars, flugdag, brottfarar- og áfangastað, brottfarar- og lendingartíma og einkennisstafi viðkomandi flugvalla. Þá er jafnan að finna upplýsingar um fyrirhugaðan farm og bæði sendanda hans og viðtakanda. Að mati úrskurðarnefndarinnar leikur enginn vafi á því að um er að ræða upplýsingar sem falla undir þagnarskylduákvæði 2. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 119/2012 og lúta bæði að rekstri og viðskiptum viðkomandi flugrekenda og eftirliti Samgöngustofu með starfsemi þeirra.

Þótt fallist sé á það með kæranda að hann gegni sem fjölmiðill mikilvægu hlutverki til að veita stjórnvöldum aðhald, og þurfi þar af leiðandi að eiga ríka möguleika til að miðla upplýsingum um opinber málefni, sbr. 1. gr. upplýsingalaga, er ekki unnt að líta framhjá því að umbeðnar upplýsingar eru undirorpnar sérstökum þagnarskylduákvæðum sem takmarka upplýsingarétt almennings umfram fyrirmæli upplýsingalaga, sbr. gagnályktun frá 3. mgr. 4. gr. laganna. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun um synjun beiðni kæranda um aðgang að þeim.

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu, dags. 16. október 2017, um synjun beiðni fréttastofu Ríkisútvarpsins ohf. um aðgang að gögnum um hergagnaflutninga frá árinu 2011.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                      Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta