Hoppa yfir valmynd
15. mars 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Úttekt á gæðum náms við Listaháskóla Íslands

Gæðaráð íslenskra háskóla hefur nú birt niðurstöður úttektar á gæðum náms við Listaháskóla Íslands. Úttektin er liður í skipulegu eftirliti ráðsins með gæðum íslenskra háskóla með áherslu á nemendur, námsumhverfi og prófgráður.

Meðal niðurstaðna úttektarinnar er að helstu styrkleikar Listaháskóla Íslands séu sterk óformleg gæðamenning í stöðugri þróun; sameiginleg sýn stjórnenda á þróun og eflingu skólans; nemendur sýna góða samstöðu í verki og nemendur og kennarar upplifa sig sem samstarfsaðila í námsferlinu. Rannsóknaráætlun skólans sé metnaðarfull og skólinn er öflugur þrátt fyrir smæð og í góðum tengslum við samfélagið. Starfsmenn skólans helga sig sérfræðigreinum sínum og búa stúdentum námsumhverfi sem mætir ströngustu kröfum, þrátt fyrir ýmsar og margvíslegar hindranir. Þá þykir stoðþjónusta skólans bæði öflug og skilvirk.

Í úttekt gæðaráðsins eru gerðar athugasemdir við ýmsa þætti sem skólinn þarf að vinna að umbótum á. Hann þarf að bæta aðstöðu til kennslu í ákveðnum rýmum; bæta innri samskipti til að ná fram framtíðarsýn skólans og tryggja betri tengsl stjórnar við starfsemi hans. Bæta þarf gagnaöflun um samfélagsleg áhrif skólans þ.m.t. árangur útskrifaðra nemenda, og nota gögn og kannanir til stuðnings breytingum og umbótum í starfinu, með bættri upplýsingamiðlun þar um. Mælst var til að skólinn auðveldaði þverfaglegt nám með sameiginlegri stundaskrá, og endurskoðaði tímabundna ráðningarsamninga akademísks starfsfólks til að styðja við sjálfbæra rannsóknarmenningu. Þá þarf framgangsferli að vera gagnsætt og rökstutt á skýran og uppbyggilegan hátt. Sérstaklega er tekið fram að skólinn þurfi að fylgja vel eftir málstefnu sinni svo samskipti séu tvítyngd þar sem það á við og leiði ekki til mismununar.

Listaháskóli Íslands mun í framhaldinu skila umbótaáætlun til gæðaráðs íslenskra háskóla sem verður fylgt eftir af hálfu ráðsins og í reglulegu samráði skólans við ráðuneytið.

Gæðaráð íslenskra háskóla starfar fyrir Háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneyti en markmið eftirlits þess er m.a. að bæta kennslu og rannsóknir á vettvangi íslenskra háskóla, tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu ráðherra á fræðasviðum háskóla séu uppfyllt og tryggja samkeppnishæfni íslenskra háskóla á alþjóðavettvangi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta