Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál 536/2020-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 536/2020

Fimmtudaginn 25. febrúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. október 2020, kærðu A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. október 2020, um að synja umsókn fyrirtækisins um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 13. október 2020, sótti kærandi um greiðslur frá Vinnumálastofnun á grundvelli laga nr. 24/2020, um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, vegna starfsmanns sem sætti sóttkví. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. október 2020, á þeirri forsendu að starfsmaðurinn hafi farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. október 2020. Með bréfi, dags. 27. október 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. nóvember 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. nóvember 2020, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á endurskoðun hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að ákvörðun starfsmanns um brottför af landinu hafi verið tekin fyrir ákvörðun ríkisstjórnar um breytingu á reglum um sóttkví komufarþega til landsins. Þá hafi starfsmaðurinn ekki haft val um brottför þar sem viðkomandi hafi verið að ganga frá búferlaflutningum til Íslands og það hafi þurft að gerast fyrir 31. ágúst 2020.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir taki til greiðslna til atvinnurekanda sem greitt hafa launamönnum, sem sæta sóttkví, laun. Enn fremur gildi lögin um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá gildi lögin um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví. Markmið laga nr. 24/2020 sé að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eigi ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Starfsmaður kæranda hafi farið í svokallaða skimunarsóttkví á tímabilinu 23. ágúst 2020 til 28. ágúst 2020. Farþegar sem hafi komið til Íslands frá og með 19. ágúst 2020 hafi getað valið á milli þess að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með fimm daga sóttkví (öðru nafni skimunarsóttkví) á milli þar til niðurstaða seinni sýnatöku lægi fyrir eða sleppa sýnatöku og sæta 14 daga sóttkví frá komunni til landsins. Krafa um skimun og sóttkví hafi náð til þeirra sem höfðu dvalið í meira en sólarhring síðastliðna 14 daga í löndum sem skilgreind voru af sóttvarnalækni sem áhættusvæði. Þegar kærandi hafi farið í skimunarsóttkví í kjölfar ferðar sinnar hafi öll lönd verið skilgreind af sóttvarnalækni sem áhættusvæði. Það sé síðan á valdi sóttvarnalæknis að endurmeta hvaða lönd og svæði teljist áhættusvæði hverju sinni. Um skimunarsóttkví gildi sömu reglur og um heimasóttkví, þ.e. þeim sem hafi verið gert að sæta sóttkví sé skylt að halda sig heima við eða á þeim stað þar sem þeir séu í sóttkví og hafa bein samskipti við sem fæsta einstaklinga, sbr. leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Í því felist meðal annars að einstaklingur megi ekki fara út af heimili sínu nema brýna nauðsyn beri til, svo sem til að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.

Af ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 24/2020 sé ljóst að ekki komi til greiðslna samkvæmt lögunum hafi einstaklingur farið til útlanda ef honum hafi mátt vera það ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomu að sæta sóttkví eða öðrum sóttvarnaráðstöfunum, enda hafi heilbrigðisyfirvöld ákveðið að þeir sem dvelji í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví eða öðrum álíka ráðstöfunum við heimkomu. Þann 14. ágúst 2020 hafi stjórnvöld tilkynnt formlega um þá ákvörðun að frá og með 19. ágúst 2020 myndu allir þeir sem kæmu til landsins, þ.e. komufarþegar, fara í fimm til sex daga sóttkví. Samkvæmt tölvupósti frá kæranda 19. október 2020 hafi starfsmaður fyrirtækisins flogið til Danmerkur þann 15. ágúst 2020. Starfsmanni kæranda hafi því mátt vera ljóst að hann þyrfti við heimkomu að sæta sóttkví. Lögum nr. 24/2020 sé ekki ætlað að ná til þeirra einstaklinga sem fari til útlanda vitandi það að við heimkomu þurfi þeir að sæta sóttkví. Á þessum grundvelli hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að hafna umsókn kæranda um greiðslur í sóttkví vegna starfsmanns sem hafi misst þrjá daga í vinnu vegna þess að hann hafi sætt skimunarsóttkví samkvæmt fyrirmælum stjórnvalda.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum á grundvelli laga nr. 24/2020 þar sem skilyrði 2. mgr. 1. gr. séu ekki uppfyllt.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir. 

Í 1. gr. laga nr. 24/2020 kemur fram að lögin taki til greiðslna til atvinnurekenda sem greitt hafa launamönnum sem sæta sóttkví laun á tímabilinu frá 1. febrúar 2020 til og með 31. desember 2021. Enn fremur kemur fram að lögin gildi um greiðslur til launamanna sem sæta sóttkví á sama tímabili en fá ekki greidd laun frá atvinnurekanda. Þá kemur fram að lögin gildi um greiðslur til sjálfstætt starfandi einstaklinga sem sæta sóttkví á sama tímabili. Í 2. mgr. 1. gr. laganna kemur fram að ekki komi til greiðslna samkvæmt lögunum hafi launamaður eða sjálfstætt starfandi einstaklingur farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst þegar hann fór að hann þyrfti við heimkomuna að sæta sóttkví, enda hafi heilbrigðisyfirvöld ákveðið að þeir sem dvelji í viðkomandi landi þurfi að sæta sóttkví við heimkomu.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 24/2020 er markmið laganna að styðja atvinnurekendur sem greiða launamönnum sem sæta sóttkví laun þegar önnur réttindi, svo sem veikindaréttur samkvæmt kjarasamningum, eiga ekki við. Með því sé stefnt að því að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að sæta sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Umsókn kæranda um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020 var synjað á þeirri forsendu að starfsmaður fyrirtækisins hafi farið til útlanda þrátt fyrir að honum hafi mátt vera ljóst að hann þyrfti að sæta sóttkví við heimkomu, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt gögnum málsins fór starfsmaður kæranda til Danmerkur 15. ágúst 2020 og var skráður í skimunarsóttkví á tímabilinu 23. til 28. ágúst 2020. Þann 14. ágúst 2020 tilkynnti ríkisstjórnin að eigi síðar en frá og með 19. ágúst 2020 yrðu allir komufarþegar skimaðir tvisvar við komuna til Íslands. Fyrri sýnataka yrði á landamærum og að því búnu bæri komufarþegum að fara í sóttkví í fimm til sex daga þangað til niðurstaða væri fengin úr seinni sýnatöku. Samkvæmt því mátti starfsmanni kæranda vera það ljóst að honum bæri að sæta sóttkví við komuna til landsins. Skilyrði til greiðslna á grundvelli laga nr. 24/2020 eru því ekki uppfyllt. Með vísan til þess er hin ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. október 2020, um að synja umsókn A, um greiðslur á grundvelli laga nr. 24/2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta