Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Stofnanir móti sér umhverfis- og loftslagsstefnu

Loftslagsmál eru heilbrigðismál og lofslagsbreytingar ein af helstu áskorununum sem heimurinn stendur frammi fyrir, skrifar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í blaðagrein þar sem hún hvetur stofnanir sem heyra undir embætti hennar til fylgja fordæmi Landspítala og setja sér stefnu í umhverfis- og loftslagsmálum.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu í dag og er eftirfarandi:

Loftslagsmál eru heilbrigðismál

LandspítaliLandspítali hefur einsett sér að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum, og hefur í því skyni sett sér metnaðarfull loftslagsmarkmið fram til ársins 2020. Loftslagsmarkmiðin taka til alls spítalans og er ætlað að sporna við áhrifum loftslagsbreytinga og knýja á um mótvægisaðgerðir sem þjóðir heims, stjórnvöld, fyrirtæki og almenningur þurfa að grípa til. Landspítalinn stuðlar með setningu loftslagsstefnu að betra umhverfi og heilsu fyrir komandi kynslóðir.

Landspítalinn hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar á sviði umhverfismála. Spítalinn hlaut m.a. Samgönguverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2014 og Kuðunginn, umhverfisverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, árið 2014 fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum. Árið 2017 var Landspítali tilnefndur til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs, en tilnefningin felur í sér mikla viðurkenningu á störfum spítalans á sviði umhverfismála. Ljóst er að Landspítalinn er til fyrirmyndar í viðbrögðum við loftslagsvandanum og starf spítalans ætti að vera öðrum fyrirtækjum og stofnunum hvatning til þess að setja umhverfismál á dagskrá.

Loftslagsbreytingar eru ein af helstu áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag. Ísland hefur einsett sér að vera í fararbroddi í viðbrögðum við loftslagsvandanum og til þess að það takist þurfum við öll að leggjast á eitt. Af því tilefni langar mig að hvetja þær stofnanir sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið til þess að móta sér umhverfis- og loftslagsstefnur. Margt smátt gerir eitt stórt! Með setningu loftslagsstefnu er bæði mögulegt að hafa jákvæð áhrif á heilsumál starfsfólks, t.d. með samgöngusamningum, en ekki síst sporna gegn skaðlegum umhverfisáhrifum af völdum rekstrarins s.s. vegna orkunotkunar, innkaupa, matarsóunar og notkunar nauðsynlegra efna.

Loftslagsmál eru nefnilega heilbrigðismál. Með setningu árangursmiðaðrar loftslagsstefnu stuðla stofnanir bæði að bættri heilsu starfsfólks og bættri heilsu þjóðarinnar til framtíðar. Þrettánda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna kveður á um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Undir þessi markmið höfum við undirgengist og  því ber okkur í raun skylda til þess að leggja okkar af mörkum. Rétturinn til hreins loftslags og umhverfis er lýðheilsumál sem varðar okkur öll sem samfélag og í raun heiminn allan. Samhent verðum við að takast á við vandann af ábyrgð. Að draga úr loftslagsáhrifum með markvissum hætti með því að ástunda vistvænar samgöngur, skynsama orkunýtingu og skipuleggja innkaup á mat og vörum er ekki bara brýnt heldur nauðsynlegt. Það gerir Landspítalinn öðrum til fyrirmyndar.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta