Fyrstu 1000 dagar barnsins - ný norræn stöðugreining
Árið 2019 fór af stað nýtt umfangsmikið samnorrænt verkefni, Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndum. Félags- og barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra tóku frumkvæði að verkefninu, í tilefni formennskuárs Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019. Verkefnið beinist að því að skoða hvernig unnið er að því á Norðurlöndunum að efla vellíðan og geðheilsu á fyrstu æviárum barna og hvaða aðferðum er beitt til að finna og bregðast snemma við áhættuþáttum í lífum þeirra og foreldra þeirra. Nú er fyrsti hluti verkefnisins, stöðugreining, gefin út þar sem kortlagt er hvernig löndin standa að því að bæta vellíðan barna.
Mikilvægt að byggja á gagnreyndum aðferðum
Næsta skref í verkefninu er að yfirfara úrræðin sem nýtt eru innan Norðurlandanna á meðgöngu og fyrstu æviárunum til að efla tengsl foreldra og ungra barna, finna áhættuþætti o.fl. og skoða hversu vel þau eru studd rannsóknum, gagnreyndum aðferðum og vísindalegum grunni. Von er á þeirri matsskýrslu á næsta ári. Henni er ætlað nýtast við mótun stefnu og uppbyggingu þjónustu á þessu sviði.
Besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni
Norðurlöndin eiga að vera besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni, segir í áætlun Norrænu ráðherranefndarinnar í málefnum barna og ungmenna. Verkefnið beinist að því að undirbyggja það markmið. „Við vitum að fyrsta æviskeið barna er afar mikilvægt. Þá þarf að tryggja góða umönnun og þjónustu. Vegna þessa höfum við meðal annars lagt áherslu á nýja lagaumgjörð um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Meginmarkmiðið er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Vel hefur verið tekið í þá lagavinnu þvert á alla stjórnmálaflokka og meðal hagsmunaaðila og er frumvarpið nú komið til vinnslu á Alþingi. Norræna verkefnið er nátengt þeirri vinnu,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Snemmtækar forvarnir
„Efling heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar, með sérstakri áherslu á bætta geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar hefur verið eitt aðaláherslumála ríkisstjórnarinnar. Með því að styrkja geðheilbrigðisþjónustuna og efla forvarnir í nærumhverfi barna leggjum við grunn að góðri andlegri líðan allt frá barnæsku. Verkefnið Fyrstu 1000 dagar barnsins á Norðurlöndunum er gott innlegg í vinnu okkar við tryggja að Norðurlöndin séu besti staður í heimi fyrir börn og ungmenni," segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Hér má finna stöðugreininguna.
Verkefnisstjóri Fyrstu 1000 daga barnsins á Norðurlöndunum er Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar hjá Embætti landlæknis. Hún getur veitt frekari upplýsingar: sigrun att landlaeknir.is