Fundur fjármálastöðugleikaráðs og endurskoðuð stefna um fjármálastöðugleika
Fjármálastöðugleikaráð hélt þriðja fund ársins 2022 þriðjudaginn 18. október. Seðlabankinn kynnti þætti sem kunna að hafa áhrif á fjármálastöðugleika. Þar var vikið að versnandi alþjóðlegum efnahagshorfum og mögulegum áhrifum þeirra á endurfjármögnun fjármálafyrirtækja. Eiginfjárstaða bankanna er áfram sterk og afkoma af reglulegum rekstri hefur aukist.
Fjallað var um þróun á fasteignamarkaði og viðnámsþrótt heimilanna í kjölfar hækkandi vaxtastigs. Athygli var vakin á netöryggismálum og mikilvægi rekstrarsamfellu innlendra fjármálainnviða. Seðlabankinn upplýsti ráðið um framvindu innleiðingar á innlendri, óháðri smágreiðslulausn.
Í kynningunni var gerð grein fyrir meginatriðum í viðvörun evrópska kerfisáhætturáðsins (ESRB) um fjármálastöðugleika frá september 2022.
Fjármálastöðugleikaráð samþykkti endurskoðaða opinbera stefnu um fjármálastöðugleika sem tekur mið af breyttu hlutverki ráðsins í kjölfar sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Stefnan hefur verið birt á vef fjármálastöðugleikaráðs.