Hoppa yfir valmynd
1. október 2021

Samkomulag í höfn um víðtækar samstarfsáætlanir

Að þessu sinni er fjallað um:
 
aðild að samstarfsáætlunum ESB
langþráða lausn varðandi BEREC – samstarfsvettvang stjórnvalda í fjarskiptum
aðild Íslands að EGNOS – sem styður við leiðsögu- og staðsetningarkerfi
ráðherrafundi um samgöngumál, orkumál og neytendavernd

Samið um þátttöku EFTA-ríkjanna í samstarfsáætlunum ESB 

Ísland verður með í 10 samstarfsáætlunum ESB á tímabilinu 2021-2027. Formlega var gengið frá samningum um þetta efni á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar 24. september sl. Framlag Íslands verður rúmlega 30 milljarðar kr. á tímabilinu og er það umtalsverð aukning frá síðasta tímabili. Í staðinn njóta íslenskir aðilar góðs af fjölþættu vísinda-, nýsköpunar-, mennta- og menningarsamstarfi (Horizon Europe, Erasmus+ og Creative Europe) auk áætlana á sviði umhverfismála, stafrænnar umbyltingar, heilbrigðismála o.fl. Sjá nánar 

Fjarskiptaregluverk ESB, kóðinn, tekið upp í EES samninginn

Með ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar 24. september sl. um að taka fjarskiptaregluverk ESB, sk. Kóða-tilskipun og BEREC-reglugerð, inn í EES samninginn lauk ágreiningi EES EFTA ríkjanna og ESB um upptöku á fjarskiptapakkanum frá 2009 í EES samninginn. Upptaka pakkans frá 2009 strandaði á reglugerð um BEREC sem er samstarfsvettvangur eftirlitsstofnana aðildarríkjanna. BEREC hefur samkvæmt ákvæðum regluverksins hlutverk við að framfylgja löggjöfinni.  Regluverkið, sem er bæði frá 2009 og 2018 þegar því var breytt, kveður á um að BEREC skuli við ákveðin skilyrði gefa út álit um markaðsráðstafanir sem framkvæmdastjórninni beri að hafa til hliðsjónar við stjórnvaldsákvarðanir. Ákvæði reglugerðarinnar um BEREC frá 2009 tók ekki viðeigandi tillit til tveggja stoða fyrirkomulags EES samningsins því eftirlitsstofnanir EES EFTA ríkjanna höfðu ekki rétt til aðkomu að mótun álita BEREC með viðeigandi hætti að því að gat varðað hagsmuni EES EFTA ríkjanna. Ágreiningurinn leiddi til þess að fjarskiptapakkinn frá 2009 beið upptöku í EES samninginn.  Í fjarskiptapakka frá 2018, s.k. kóða, er ný reglugerð um BEREC án ákvæða í andstöðu við tveggja stoða kerfið. Þar er opnað á aðild EFTA-ríkjanna þriggja að BEREC án atkvæðisréttar.

Ísland gerist aðili að EGNOS áætluninni

Framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt aðild Íslands að EGNOS hluta Galileo áætlunar sambandsins. EGNOS er stuðningskerfi við GPS og Galileo staðsetningar- og leiðsögukerfin sem gerir kleift að nýta þessi kerfi við verkefni sem krefjast mikillar nákvæmni og áreiðanleika, s.s. við að stýra flugvél til lendingar á flugvelli.

Í tilefni aðildar Íslands fær Ísland rétt til setu á fundum stjórnarnefndar EGNOS verkefnisins og var fulltrúa Íslands boðið í fyrsta fundinn í vikunni. Sigurbergur Björnsson, fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í Brussel, sótti fundinn fyrir hönd ráðuneytisins. Undir sérstökum dagskrárlið í tilefni af nýtilkominni þátttöku í EGNOS áætluninni var Ísland boðið velkomið í samstarfið.  Fulltrúi Íslands tók til máls og sagði að forsendur og markmið fyrir þátttöku Íslands og framlagi til verkefnisins væri að tryggja að þjónusta EGNOS kerfisins væri aðgengileg um allt yfirráðasvæði Íslands. Í dag er þjónustan eingöngu í boði um austurhluta landsins. Ísland væri reiðubúið að vinna með stofnuninni eins og þyrfti til að stuðla að slíkri uppbyggingu.

Fulltrúi Íslands átti í framhaldi af stjórnarnefndarfundinum fund með Matthias Petschke framkvæmdastjóra geimvísindaáætlunar ESB og Jean-Marc Pieplu verkefnastjóra EGNOS þar sem m.a. farið var yfir aðstæður á Íslandi. Á fundinum rætt um stækkun þjónustusvæðis EGNOS svo það næði yfir allt yfirráðasvæði Íslands, hvernig væri best að standa að málum og hver næstu skref þyrftu að vera.  Verkefninu er stýrt frá Toulouse í Frakklandi auk þess sem helstu verktakar í verkefninu hafa þar aðsetur.

Sjálfbærar og snjallar samgöngur til umræðu

Á óformlegum fundi í Brdo pri Kranju í vikunni ræddu samgönguráðherrar ESB tillögu framkvæmdastjórnarinnar að reglugerð um uppbyggingu orkustöðva, en hún er hluti af löggjafarpakkanum "Fit for 55". Ráðherrarnir hvöttu til skýrra markmiða, uppbyggingar á neti hleðslustöðva og stöðva fyrir aðra vistvæna orkugjafa fyrir samgöngur.

Spáð er að eftirspurn eftir samgöngum muni áfram vaxa á næstu áratugum. Að mati samgönguráðherranna vísar stefnumörkun sambandsins um sjálfbærar og snjallar samgöngur veginn um hvernig megi ná þessu markmiði og tryggja sveigjanlegt, samkeppnishæft, öruggt, aðgengilegt og hagkvæmt samgöngukerfi.

Samgöngur hafa dregist mjög saman vegna COVID-19 faraldursins, en fundurinn mat það svo að við endurreisn hagkerfisins ætti að vinna að grænni og snjallari samgöngum sem væru sveigjanlegar  gagnvart mögulegri vá. Liður í því er tillaga um uppbyggingu innviða fyrir vistvænt eldsneyti og um bindandi markmið í því efni fyrir alla samgöngumáta til að tryggja lágmarks aðgengi að vistvænu eldsneyti.

Samgönguráðherrarnir voru sammála um þörfina á metnaðarfullri og samræmdri skipulagningu innviða í aðildarríkjunum sem stuðli að markmiðum sambandsins um samdrátt í losun fyrir árið 2030. Ráðherrarnir lögðu áherslu á að farsæl umbreyting yfir í vistvænt eldsneyti krefðist uppbyggingar á orkustöðvum sem væru aðgengilegar fyrir allan almenning og fyrirtæki í samgöngu- og flutningsþjónustu. Tillagan að reglugerð um uppbyggingu orkustöðva myndi tryggja nauðsynlega útfærslu á stöðluðum og notendavænum orkustöðvum fyrir hrein ökutæki um allt EES. Á sama tíma stuðlar þessi nálgun að notkun vistvænna farartækja og opnar ný tækifæri fyrir ESB iðnaðinn.

Ráðherrarnir mátu mikilvægt að flýta uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum fyrir notendur vistvænnar orku svo þeir gætu ferðast greiðlega um Evrópu.  Skilyrði þess að notendur færðu sig yfir í vistvæn ökutæki væri greiður aðgangur að vistvænu og hagkvæmu eldsneyti sem væri einfalt í notkun. Þannig væri hægt að flýta fyrir vexti markaðarins fyrir vistvæn farartæki og taka mikilvægt skref fram á við í átt að 55% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Loks væri það stór áskorun að samræma aðgerðir framleiðenda vistvænna bifreiða og þeirra sem rækju stöðvar fyrir vistvæna orkugjafa.

Óformlegur fundur orkumálaráðherra

Fundurinn var haldinn í Ljubliana en eins og kunnugt er fer Slóvenía með formennsku í ESB á seinna tímabili þessa árs. Jernej Vrtovec, innanríkisráðherra Slóveníu, stýrði fundinum. Kadri Simson, framkvæmastjóri (e. Commissioner) orkumála hjá ESB sat einnig fundinn og tók þátt í umræðum.

Áhersla ráðherranna var sem fyrr á orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum og orkunýtingu. Þá var farið yfir rafvæðingu samgangna á stórum skala á sameiginlegum fundi orkumála- og samgönguráðherra sem haldinn var við sama tækifæri.

Orkuframleiðsla og orkunotkun valda 75% af kolefnisútblæstri í ESB og voru ráðherrarnir sammála um að hraða þyrfti skiptum yfir í græna orku. Fóru þeir yfir uppfærð lagafrumvörp sem heyra undir svokallaðan Fit for 55 pakka, annars vegar varðandi innspýtingu í upptöku endurnýjanlegra orkugjafa og hins vegar um orkunýtingu (energy efficiency).

Sem fyrr eru aðildarríkin misjafnlega í stakk búin til að takast á við markmið um aukinn samdrátt í losun fyrir 2030. Því héldu áfram umræður um hvað skuli liggja til grundvallar útreikningum á aðstæðum og kostnaði hvers ríkis og í framhaldinu óhjákvæmilegum fjárhagsstuðningi.

Ráðherrarnir beindu einnig sjónum að hækkandi orkuverði innan ESB sem er m.a. vegna veðurfars (kuldar/hitar) og þróunar verðs á heimsmarkaði en ESB  hefur ekki ekki tæki til að hafa áhrif á markaðsverðið. Einstök ríki hafi hins vegar gripið til ráðstafana til að milda áhrifin. Í máli sínu við lok fundarins sagði Hr. Vrtovec að draga mætti mjög úr frávikum á markaðsverði ef ríki drægju úr hæði (dependancy) á innflutt jarðefnaeldsneyti og settu þungann á innlenda og kolefnisminni orkugjafa.

Á sameiginlega fundinum með samgönguráðherrunum var áherslan á náið samstarf á milli þessara málaflokka til að takast á við áskoranir varðandi rafvæðingu samgangna; regluverk, tækni og framkvæmd. Þverlæg nálgun sé nauðsynleg, hvort tveggja er varðar hleðsluinnviði og raforkukerfi. Það myndi einnig stuðla að rafvæðingu á stærri skala (þungaflutningar, almenningssamgöngur o.s.frv.).

Risafjárfestingar í hleðsluinnviðum eru framundan og í þessu sambandi var sem fyrr bent á aðstöðumun aðildarríkjanna sem mörg hver eru mjög dreifbýl og markaðslausnir freisti því ekki. Þar til einkaaðilar/markaðurinn er reiðubúinn þarf fyrsta kastið að treysta á sjóði á borð við Endurreisnaráætlun Evrópu (Recovery and Resilience Plan) og orkutengingasjóðinn CEF (Connecting Europe Facility).

Þá var kallað eftir áherslu á stafrænar lausnir, aðgang að upplýsingum, gagnsæi í verðlagningu og einfaldar greiðsluaðferðir.

Neytendavernd og fjármálaþjónusta netinu

Óformlegur fundur ráðherra neytendamála var haldinn í lok september. Fundurinn var hvort tveggja fjarfundur og staðfundur sem stýrt var frá Ljubliana. Auk ráðherranna var umboðsmönnum neytenda (e. Consumer Protection Commissioner) og helstu sérfræðingum á þessu sviði boðið til fundarins. Alls voru fulltrúar á fundinum því um sextíu talsins.

Zdravko Počivalšek ráðherra efnahags- og tækniþróunar í Slóveníu stýrði fundinum. Didier Reynders, framkvæmdastjóri DG-Just, sem neytendavernd heyrir undir hjá ESB, tók einnig þátt í fundinum.

Áherslan var á þá þrjá málaflokka þar sem mjög hefur reynt á neytendavernd síðasta hálft annað árið eða svo; netverslun, fjármálaþjónustu á netinu og ferðaþjónustu. Á meðan heimsfaraldurinn hefur valdið gríðarlegri uppsveiflu í verslun og fjármálaþjónustu á netinu hefur ferðaþjónustan hins vegar átt verulega undir högg að sækja. Í ávarpi sínu við upphaf fundarins benti Hr. Počivalšek því á mikilvægi þess að taka þessi mál sérstaklega til umræðu.

Undanfarin tvö ár hefur veitendum fjármálaþjónustu á netinu fjölgað mjög. Vanþekking margra á því hvernig netvangar (e. online platforms) virka og einnig samningar sem þar eru gerðir getur leitt til verulegra skakkafalla fyrir neytendur. Þar sem yfir 70% neytenda versla nú á netinu þarfnast tilskipun um öryggi vöru (General Product Safety Directive) endurskoðunar þar sem hún hentar ekki stafrænum heimi. Því hefur framkvæmdastjórnin nú birt tvær tillögur á sviði neytendaverndar, annars vegar tilskipun um neytendalán (Consumer Credit) og hins vegar reglugerð um almennt öryggi vöru. TiIlögurnar eru hluti af Neytendadagskrá ESB (New Consumer Agenda).

Ráðherrarnir fögnuðu þessum tillögum að regluverki um öryggi vöru (matvara heyrir þó ekki hér undir) á innri markaði Evrópska efnahagsvæðisins, hvort sem hún er til sölu á netinu eða í hefðbundnum verslunum, eða þegar um áþreifanlega vöru eða þjónustu er að ræða.

Hvað ferðaþjónustuna varðar sammæltust ráðherrarnir um nauðsyn þess að kanna og leggja mat á pakkferðatilskipunina (e. Package Travel Directive) sem nú er í gildi. Öfgakenndar aðstæður sem faraldurinn olli hafi sýnt fram á vankanta hennar fyrir hvort tveggja neytendur og fyrirtæki.

Didier Reynders sagði frá yfirstandandi endurskoðun á pakkaferðatilskipuninni (sem Ísland hefur fylgst vel með). Endurskoðunin beinist að raunhæfum dæmum varðandi gjaldþrot ferðaskrifstofa en einnig hvernig standa skuli að endurgreiðslu á pakkaferðum til viðskiptavina

Í lok fundarins sagði Počivalšek, ráðherra og fundarstjóri, það hafið yfir vafa að snöggar, farsælar og samstíga aðgerðir ESB séu aðildarríkjunum í hag. Á herðum allra ríkjanna hvíli sú lykilábyrgð að vernda neytendur og með réttri löggjöf verði neytendur framtíðarinnar enn betur varðir.

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta