Nr. 123/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 17. mars 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 123/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21020040
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 12. febrúar 2021 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. janúar 2021. um brottvísun og endurkomubann til Íslands í tvö ár.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að endurkomubann verði fellt niður eða það stytt.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki þann 25. september 2018 með gildistíma til 16. september 2019. Þann 22. ágúst 2019 sótti kærandi um endurnýjun á því leyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. janúar 2020, var umsókninni synjað. Kærunefnd útlendingamála staðfesti þá ákvörðun með úrskurði nr. 119/2020, dags. 19. mars 2020. Var lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins og athygli hans vakin á því að yfirgæfi hann ekki landið innan veitts frests kynni að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 13. janúar 2021, var kæranda brottvísað og honum ákveðið endurkomubann til landsins í tvö ár. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 9. febrúar 2021 og þann 12. febrúar 2021 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar en meðfylgjandi kæru voru greinargerð og fylgigögn. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 18. febrúar 2021 féllst kærunefnd á þá beiðni. Með tölvupósti, dags. 19. febrúar 2021, óskaði kærunefnd eftir frekari upplýsingum frá kæranda um aðstæður hans í heimaríki. Þann 28. febrúar 2021 bárust frekari athugasemdir og gögn frá kæranda. Þann 3. mars 2021 aflaði kærunefnd upplýsinga frá Vinnumálastofnun.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að stofnunin hafi sent kæranda tilkynningu þann 11. nóvember 2020 þar sem fram kom að til skoðunar væri að brottvísa kæranda og ákvarða honum endurkomubann á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Hafi stofnunin sent lögreglu umrædda tilkynningu til birtingar fyrir kæranda. Samkvæmt skýrslu lögreglunnar, dags. 20. nóvember 2020, kæmi fram að lögregla hefði fyrst komið á aðsetur kæranda með það fyrir augum að birta fyrir honum umrædda tilkynningu þann 17. nóvember 2020 en þá hafi hann fallist á að mæta á lögreglustöð þann 19. nóvember 2020. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafi kæranda verið gert ljóst að til stæði að birta fyrir honum skjal með aðstoð túlks. Í samtali við lögreglu hafi kærandi kvaðst ekki geta mætt á umsömdum tíma og óskað eftir því við lögreglu að fá að mæta á öðrum tíma. Hafi lögregla haft samband við kæranda að nýju til að staðfesta komu hans en þá hafi kærandi ekki getað mætt vegna bakverkja. Hafi lögregla mætt ásamt túlk á heimili kæranda til að birta umrædda tilkynningu Útlendingastofnunar þann 18. nóvember 2020 og hafi tilkynningin verið túlkuð fyrir kæranda en hann neitað að hlusta og skrifa undir þar sem sá túlkur sem væri til staðar væri ekki hans túlkur. Samkvæmt skýrslu lögreglu hafi kæranda verið afhent tilkynningin þann 20. nóvember 2020 en í tilkynningunni kæmi m.a. fram að málið yrði fellt niður ef kærandi yfirgæfi landið innan sjö daga frá birtingu tilkynningar. Þá hafi kæranda einnig verið veittur sjö daga frestur til að skila inn andmælum með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga. Þann 27. nóvember 2020 hefði þáverandi umboðsmaður kæranda haft samband við Útlendingastofnun og óskað eftir frekari fresti til að skila inn andmælum. Hafi stofnunin fallist á þá beiðni og veitt kæranda frest til og með 9. desember 2020. Þann 7. desember 2020 hafi stofnuninni borist tölvupóstur frá sama umboðsmanni kæranda þar sem fram kom að hann væri ekki lengur með umboð til að annast hagsmunagæslu fyrir kæranda. Í kjölfarið hafi Útlendingastofnun borist tölvupóstur frá öðrum lögmanni sem kvaðst annast hagsmunagæslu fyrir hönd kæranda í málinu og hafi verið óskað eftir þriggja vikna fresti til að skila inn frekari andmælum. Engin gögn eða andmæli hefðu hins vegar verið lögð fram af lögmönnum fyrir hönd kæranda. Kærandi sjálfur hefði hins vegar lagt fram mynd af sjúkradagpeningavottorði, dags. 20. nóvember 2020, þar sem fram hafi komið að hann þjáist af bakverkjum og að hann hefði verið óvinnufær vegna umræddra verkja frá 16. nóvember 2020 til 31. desember 2020.
Komst Útlendingastofnun að þeirri niðurstöðu að brottvísun kæranda fæli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans. Bæri Útlendingastofnun að teknu tilliti til ákvæðis 102. gr. laga um útlendinga, að vísa kæranda á brott samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laganna. Var kæranda brottvísað og ákveðið endurkomubann til landsins í tvö ár.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að hann hafi dvalið hérlendis á grundvelli dvalar- og atvinnuleyfis, en hann hafi starfað hjá fyrirtækinu [...] frá mars 2018 og fram til júlí 2020. Í apríl 2019 hafi hann slasast í vinnuslysi og hafi glímt við miklar afleiðingar í kjölfar slyssins. Umræddar afleiðingar hafi leitt til þess að hann hafi orðið óvinnufær og hafi hann verið í mikilli læknismeðferð síðan líkt og gögn málsins beri með sér, en hann eigi tíma á ný hjá lækni þann 26. febrúar 2021. Eigi hann erfitt með gang og þjáist af svefnleysi vegna verkja. Þá óttist hann um afdrif sín verði hann sendur aftur til heimaríkis. Byggir kærandi á því að á meðan dvöl hans hérlendis hafi staðið hafi hann myndað góð tengsl við landið, hann eigi vini hér og þá séu stjúpbræður hans frá heimaríki búsettir hér ásamt fjölskyldum sínum. Hafi áform kæranda verið að dvelja hérlendis til frambúðar og snúa aftur á íslenskan vinnumarkað þegar hann nái sér af meiðslum sínum.
Kærandi byggir á því að ekki hafi farið fram fullnægjandi rannsókn á máli hans í upphafi og við tilkynningu um mögulega brottvísun úr landi hafi honum ekki verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar um réttarstöðu sína svo hann gæti nýtt sér andmælarétt sinn og gert grein fyrir dvöl sinni hér á landi. Á stjórnvöldum hvíli sérstök leiðbeiningarskylda og að mati kæranda hafi málsmeðferð Útlendingastofnunar ekki samrýmst þeirri skyldu. Hafi Útlendingastofnun þannig látið hjá líða að kanna með viðhlítandi hætti þá hættu sem steðji að kæranda í heimaríki hans, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 42. gr. laga um útlendinga, þar sem stofnunin hafi ekki gengið úr skugga um að Nígería sé öruggt og tryggt ríki. Þá byggir kærandi á því að fyrirhuguð brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, með vísan til veikinda hans, aðstæðna í heimaríki og tengsla hans við landið. Sé ljóst af læknisfræðilegum gögnum að hann glími við langvinn bakveikindi sem hafi hamlað honum að vinna og skert lífsgæði hans verulega. Ómannúðlegt sé að brottvísa honum undir slíkum kringumstæðum, einkum þegar litið sé til aðstæðna í heimaríki. Loks er byggt á því að endurkomubann samkvæmt hinni kærðu ákvörðun samræmist ekki meðalhófi og sé því í andstöðu við meginreglur stjórnsýsluréttar og mannréttindasjónarmið. Kærandi eigi fjölskyldumeðlimi í Finnlandi og því sé það harkalegt að endurkomubannið gildi í öllum Schengen-ríkjum sem komi þá í veg fyrir að hann geti sameinast fjölskyldu sinni í Finnlandi. Þar að auki verði að telja það ómannúðlegt að framkvæma brottvísun við þær aðstæður sem nú ríki í heiminum að teknu tilliti til heimsfaraldurs Covid-19, þannig hafi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin til að mynda lagst gegn fólksflutningum að óþörfu.
Í viðbótarathugasemdum kæranda, dags. 28. febrúar 2021, byggir kærandi á því að honum sé með öllu ómögulegt að snúa aftur til heimaríkis vegna aðstæðna þar í landi, þar ríki borgarastyrjöld auk þess sem fátækt sé mikil. Margvísleg og margþætt vandamál séu í landinu um þessar mundir, til að mynda sé lögregluofbeldi nýlegt vandamál og nýverið hafi verið mótmæli undir myllumerkinu „EndSars“ af því tilefni. Þá hafi almenningi líkt og kunnugt sé staðið gríðarleg ógn af starfsemi hryðjuverkasamtakanna Boko Haram auk þess sem nýleg ógn í landinu stafi frá hópi hirðingja í norðanverðu landinu sem hafi í hyggju að taka yfir stjórn landsins en hópurinn ferðist á milli sýslna og þorpa og drepi bændur og óbreytta borgara miskunnarlaust. Kærandi hafi upplýsingar um að þessi hryðjuverkahópur sé í Edo State um þessar mundir, heimasvæði kæranda. Þá hafi hann upplýsingar um að herarmur IPOB (e. Indigenous People of Biafra) og ESN (e. Eastern Security Network) séu nú að berjast á móti hryðjuverkahóp hirðingja. Að mati kæranda sé ljóst að borgarastyrjöld ríki í landinu og að landið sé því afar óöruggt svæði. Þá vekur kærandi athygli á því að hann hafi ekki búið í heimaríki í tíu ár og að hann hafi síðast verið þar í heimsókn árið 2011. Tengsl hans við heimaríki séu því mjög takmörkuð en hann hafi í yfir tvö ár búið og starfað á Íslandi, hann sé hér með þinglýstan húsaleigusamning og hafi verið í vinnu allt þar til hann slasaðist í vinnuslysi þar sem hann hafi hlotið slæm bakmeiðsli. Hafi kærandi verið svo til óvinnufær frá þeim tíma, sbr. gögn málsins. Í ljósi alls framangreinds ítrekar kærandi það að hann telji það með öllu óforsvaranlegt og ómannúðlegt að senda hann úr landi og til heimaríkis. Sé því um að ræða ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, með vísan til veikinda kæranda, aðstæðna í heimaríki hans og tengsla við Íslands.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga segir að svo framarlega sem 102. gr. eigi ekki við skuli vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Eins og áður er rakið var með úrskurði kærunefndar nr. 119/2020, dags. 19. mars 2020, lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins og athygli hans vakin á því að yfirgæfi hann ekki landið innan veitts frests kynni að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Kærandi móttók úrskurðinn þann 23. mars 2020.
Líkt og rakið er í III. kafla úrskurðarins voru nokkrar tilraunir gerðar til að birta fyrir kæranda tilkynningu um hugsanlega brottvísun. Í lögregluskýrslu, dags. 20. nóvember 2020, kemur fram að lögregla hafi farið að [...] þar sem kærandi dveldi hinn 7. nóvember 2020 og rætt við hann. Hafi kærandi fallist á að koma á lögreglustöðina við Hverfisgötu þann 19. nóvember 2020 kl. 13:00. Aðspurður um hvaða túlk hann vildi kvaðst hann vilja enskumælandi túlk. Síðar um daginn hafi kærandi komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu og óskað eftir því að mæta á öðrum tíma þar sem hann þyrfti að fara til læknis á umsömdum tíma. Hafi þá verið komist að þeirri niðurstöðu að hann myndi mæta daginn eftir, þ.e. 18. nóvember 2020, kl. 13:00. Hefði lögregla haft samband símleiðis við kæranda þann 18. nóvember 2020 til þess að minna á áðurnefndan tíma en hefði kærandi þá ekki getað komið á lögreglustöðina vegna bakverkja. Hafi hann þá verið spurður hvort lögregla gæti komið að heimili hans ásamt túlki og hafi hann samþykkt það. Þegar lögregla og túlkur hafi komið að heimili kæranda þann sama dag hefði kærandi hins vegar neitað að hlusta á efni bréfsins og hvorki viljað láta þýða það fyrir sig né undirrita. Þá hefði hann sagt að umræddur túlkur væri ekki „hans túlkur“ og ekkert viljað hlusta á hana. Hafi hann viljað fá bréfið afhent og láta þýða það sjálfur og að svo búnu mæta á lögreglustöðina. Þegar reynt hafi verið að útskýra efni bréfsins í stuttu máli fyrir honum hafi hann verið með háreysti og staðið upp til þess að fara. Hafi lögregla og túlkur þá yfirgefið vettvang án þess að kærandi fengi bréfið í hendurnar. Þann sama dag hafi SMS verið sent í farsíma kæranda þar sem hann hafi verið boðaður á lögreglustöðina en þeim skilaboðum hefði ekki verið svarað. Hafi lögregla hringt í kæranda hinn 20. nóvember 2020 og hann þá kveðist vera slæmur af verkjum og neitað að koma á lögreglustöðina og að hann vildi ekki fá lögreglu heim til sín. Hafi lögregla farið að heimili kæranda þann sama dag og afhent honum umslag með afriti af umræddu bréfi.
Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það mat kærunefndar að kæranda hafi verið með fullnægjandi hætti birt tilkynning hinn 20. nóvember 2020 um að til skoðunar væri að brottvísa kæranda og ákvarða honum endurkomubann á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Þá er ljóst af gögnum málsins að erfiðleikar við birtingu tilkynningarinnar urðu vegna háttsemi kæranda, sem ítrekað reyndi að koma sér hjá því að vera birt lögmælt fyrirmæli í samræmi við ákvæði laga um útlendinga. Þegar kæranda var birt framangreind tilkynning hafði hann samkvæmt fyrirliggjandi gögnum ekki yfirgefið landið og eru skilyrði a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga því uppfyllt, nema ákvæði 102. gr. sömu laga standi því í vegi.
Í 102. gr. laga um útlendinga er kveðið á um vernd gegn frávísun og brottvísun og takmarkanir á ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. skal ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Í greinargerð byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi látið hjá líða að kanna með viðhlítandi hætti þá hættu sem steðji að kæranda í heimaríki hans, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 42. gr. laga um útlendinga, þar sem stofnunin hafi ekki gengið úr skugga um að Nígería sé öruggt og tryggt ríki. Þá byggir kærandi á því að fyrirhuguð brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, með vísan til veikinda hans, aðstæðna í heimaríki og tengsla hans við landið.
Kærandi hefur við meðferð málsins hjá kærunefnd lagt fram læknisfræðileg gögn þar sem fram kemur m.a. að kærandi hafi lent í vinnuslysi þann [...] 2019, en hann hafi leitað á bráðamóttöku Landspítalans þann [...] 2019 vegna verkja í baki. Hafi verkirnir byrjað vegna atviks þann [...] 2019 þegar kærandi hafi verið að lyfta kassa þegar hann hafi fengið verk skyndilega hægra megin neðarlega í baki. Bera fyrirliggjandi gögn með sér að frá þeim tíma hafi kærandi með reglulegum hætti leitað sér læknisaðstoðar vegna þessa. Í áliti sérfræðilæknisins [...], dags. 7. desember 2020, kemur fram að mynd úr segulómskoðun sem gerð hafi verið þann 3. desember 2020 sýni ferskt brjósklos L4/L5 hægra megin sem fari upp eftir liðbolnum L4 og út í rótargöngin. Kemur fram að hann ráðlegði áframhaldandi concervatica meðferð með verkjastillingu í að minnsta kosti 6 til 8 vikur og að öllum líkindum myndi þetta ganga yfir smám saman. Þá kemur fram í framlögðum sjúkradagpeningavottorðum að kærandi hafi verið metinn óvinnufær með öllu frá 1. apríl 2020 en síðast dagsetta vottorðið er með áætlun um óvinnufærni til 25. mars 2021. Þann 21. desember 2020 hafnaði Sjóvár-Almennar tryggingar hf. beiðni kæranda um bætur á grundvelli slysatryggingar [...].
Þann 3. mars 2021 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun um grundvöll þess að kæranda var synjað um atvinnuleyfi hjá stofnuninni hinn 3. desember 2019 og hvort synjunin tengdist umræddu vinnuslysi. Í svari Vinnumálastofnunar, dags. 3. mars 2021, kemur fram að ákvörðun stofnunarinnar um synjun á tímabundnu atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki hafi grundvallast á mati hennar á framboði starfsfólks innanlands og innan Evrópska efnahagssvæðisins. Hafi það verið afstaða Vinnumálastofnunar að ekki væri skortur á starfsfólki til að gegna almennum lagerstörfum hér á landi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sú umsókn sem um ræðir hafi verið lögð fram af hálfu kæranda og atvinnurekanda hans þann 22. ágúst 2019 og í samskiptum kæranda við stofnunina hafi ekkert komið fram um umrætt vinnuslys og hafi stofnuninni því ekki verið kunnugt um það fyrr en nú. Að því sögðu hefði það ekki haft áhrif á synjun um atvinnuleyfi til kæranda enda byggði hún á öðrum grundvelli.
Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur dómstóllinn einkum talið ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmálans eiga við í tilvikum einstaklinga sem eru í yfirvofandi lífshættu. Þó hefur dómstóllinn jafnframt litið svo á að þrátt fyrir að einstaklingur sé ekki í slíkri hættu kunni 3. gr. sáttmálans að eiga við ef hann, vegna skorts á viðeigandi meðferð í viðtökuríki, er í raunverulegri hættu á að verða fyrir alvarlegri, hraðri og óafturkræfri hnignun á heilsufari sem leiðir til mikilla þjáninga eða verulegrar skerðingar á lífslíkum (sjá dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Paposhvili gegn Belgíu (mál nr. 41738/10) frá 13. desember 2016). Með vísan til þess sem að framan er rakið telur kærunefnd það ljóst að veikindi kæranda séu ekki slík að brottvísun sé ósanngjörn gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, eða að 3. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, eigi við í máli hans. Enn fremur bera gögn málsins ekki með sér að kærandi hafi eftir úrskurð kærunefndar í máli hans, þar sem lagt var fyrir hann að yfirgefa landið innan 15 daga frá móttöku úrskurðarins, lagt inn dvalarleyfisumsókn á nýjum grundvelli eða sýnt viðleitni til þess að dvelja hér á landi í lögmætri dvöl.
Koma þá til skoðunar aðstæður á heimasvæði kæranda, Edo State í Nígeríu sem er í syðsta hluta landsins. Í skýrslu EASO frá 2018 kemur fram að öryggisástand landsins sé hvað verst í norðurhlutanum þar sem hryðjuverkahópurinn Boko Haram beri ábyrgð á andláti mörg þúsund íbúa. Helstu átök í suðurhluta Nígeríu megi rekja til ágreinings í tengslum við olíuauðlindir á svæðinu. Samkvæmt skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá janúar 2019 hafi ríkisstjórn Nígeríu aukið öryggisaðgerðir og reynt að takast á við vandann sem fylgir árásum Boko Haram í Norðaustur-Nígeríu, m.a. með því að senda herafla til svæðisins og hafi tekist að minnka umsvif hópsins. Þá hafi ríkisstjórnin einnig handtekið og leitt fyrir dóm yfir 1.500 manns sem sakaðir hafi verið um tengsl við Boko Haram. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um trúfrelsi fyrir árið 2019 kemur fram að átök hafi verið viðvarandi árið 2019 milli Fulani Herdsmen, sem séu að mestu múslimar, og bænda, sem séu að mestu kristnir, í Norður og Mið- Nígeríu. Átökin hafi þó farið minnkandi frá árunum 2017/2018 vegna inngripa stjórnvalda og viðleitni íbúanna til að leysa deilurnar. Tala látinna almennra borgara hafi farið úr yfir 1.500 árið 2018 í u.þ.b. 350 árið 2019. Alþjóða- og félagssamtök hafi gagnrýnt stjórnvöld í Nígeríu fyrir getuleysi til að koma í veg fyrir eða draga úr ofbeldi milli kristinna og múslimskra samfélaga. Í skýrslu innanríkisráðuneytis Bretlands frá janúar 2020 og skýrslu International Crisis Group frá september 2017 kemur fram að þessi átök snúist fyrst og fremst um baráttu þessara tveggja hópa um landsvæði, þar sem að þurrkar hafi leitt til skorts á beitilandi í norðri og vaxandi landbúnaður hafi leitt til aukinnar þarfar á ræktarlandi í svokölluðu miðjubelti Nígeríu. Edo State, heimasvæði kæranda í Nígeríu, er talsvert fyrir utan þau átök sem að ofan eru reifuð en Edo State er í syðsta hluta Nígeríu. Þess utan eru aðstæður á ofangreindum átakasvæðum ekki þess eðlis að kærandi myndi eiga hættu á meðferð sem myndi brjóta í bága við 42. gr. laga um útlendinga, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 68. gr. stjórnarskrárinnar. Þá verður brottvísun kæranda ekki talin ósanngjörn ráðstöfun gagnvart honum, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga, á grundvelli aðstæðna í heimaríki eða tengsla við landið. Að öðru leyti telur kærunefnd ekki tilefni til að fjalla um aðrar málsástæður kæranda.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið eru skilyrði til brottvísunar á grundvelli a-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga uppfyllt. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Bjarnveig Eiríksdóttir