Nýtt samræmt námsmat í þróun
Nemendur í 4., 7. og 9. bekk í grunnskólum geta tekið ný hæfnimiðuð samræmd könnunarpróf næsta vor. Hefðbundin samræmd könnunarpróf verða því ekki lögð fyrir í haust. Fyrirlögn þessi verður fyrsta skrefið í átt að nýju fyrirkomulagi samræmds námsmats fyrir nemendur í grunnskólum. Meginmarkmið þess er að veita nemendum gagnlegar upplýsingar um námslega stöðu þeirra og vera kennurum, nemendum og foreldrum til leiðsagnar um áherslur í námi. Unnið er að þróun nýs námsmats á grundvelli skýrslu sem fjölmennur starfshópur skipaður fulltrúum skólasamfélagsins vann með tillögum um framtíðarsýn fyrir samræmt námsmat. Þar er meðal annars lagt til að þróað verði heildstætt safn matstækja í mörgum námsgreinum með áherslu á fjölbreytt og hnitmiðuð verkefni sem lögð verða fyrir á sveigjanlegri hátt en verið hefur. Slíku námsmati er ætlað að vera leiðbeinandi og koma sem best til móts við fjölbreytta kennsluhætti.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Það eru spennandi tímar framundan og hér er stigið mikilvægt skref fyrir skólasamfélagið sem lengi hefur kallað eftir breytingum á fyrirkomulagi samræmdra prófa. Mikilvægast í þessu samhengi er að við færum áhersluna skýrar á þarfir nemendanna og þá endurgjöf sem gagnast þeim best til að bæta sinn árangur í námi.“
Verkefnastjórn á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Menntamálastofnunar stýrir þróun nýs matsferils í samráði við fulltrúa skólasamfélagsins. Nánari upplýsingar má nálgast hjá Menntamálastofnun.