JK - Ræður: Ársfundur Tryggingastofnunar ríkisins 2001
Ársfundur Tryggingastofnunar ríkisins
Biðlistar - töfralausn eða tálsýn?
Ræða Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra
19. október 2001
Ágætu ársfundargestir.
Það er mér sérstakt ánægjuefni að fá tækifæri til þess að ávarpa ársfund Tryggingastofnunar ríkisins - þessarar mikilvægu stofnunar sem heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra hefur lögum samkvæmt verið falið að hafa umsjón með.
Tryggingastofnun ríkisins er sú opinbera stofnun sem hefur einna flesta viðskiptavini. Þjónusta TR er almennt afar mikilvæg, einkum og sér í lagi fyrir þá fjölmörgu sem þurfa að hafa bein samskipti við stofnunin og sækja til hennar þann rétt sem þeim er ákveðinn í lögum. Mér er kunnugt um að þjónusta TR hefur tekið stakkaskiptum hin síðari misseri og von mín er sú að þeir sem þar halda um stjórnvölinn beri gæfu til að halda áfram á sömu braut. Ekkert er mikilvægara þjónustustofnun eins og TR en að hafa í fyrirrúmi hagsmuni fólksins.
Ég sé á dagskrá ársfundarins að hér á eftir ætla tveir læknar að fjalla um biðlista og er yfirskriftin: Biðlistar - er einkavæðing tálsýn eða töfralausn?
Ég sá fyrir skemmstu að danski heilbrigðismálaráðherrann starfsbróðir minn, Arne Rolighed, fjallaði um sama eða svipað efni og hér er efst á dagskránni, og hann kallaði erindi sitt hins vegar Hagnaður í heilbrigðisþjónustunni.
Hann fjallaði þar af leiðandi ekki beint um biðlistana, sem menn nota oft sem röksemdir fyrir einkavæðingu - hann fór beint í að tala um hina hliðina eða tryggingaþáttinn. Ekki almannatryggingar, heldur einkatryggingar, sem eru sá hluti einkvæðingar heilbrigðisþjónustu sem talsmenn hennar tala síður um.
Á Íslandi hefur verið ríkjandi pólitískt samkomulag um að hér skuli tryggingar vera almennar - almannatryggingar. Þetta þýðir í stuttu máli að við fáum öll þjónustu, eins og til dæmis læknis- og sjúkrahúsþjónustu, sem að stærstu hluta er greidd af hinu opinbera með sköttum.
Í almannatryggingakerfinu felst, að þeir njóta forgangs sem mesta þörf hafa fyrir þjónustuna, og, að félagsleg staða manns ráði því ekki hvort viðkomandi á kost á þjónustunni eða ekki.
Í þessu felst að mínum dómi sá siðferðilegi grundvöllur sem heilbrigðisþjónustan og almannatryggingakerfið íslenska hvílir á. Þetta er sá siðferðilegi og flokkspólitíski grundvöllur sem ég stend á sem stjórnmálamaður fyrir hönd þess stjórnmálaflokks sem ég er í.
Þetta er í mínum huga að setja fólk í fyrirrúm.
Það er ýmislegt sem bendir til þess í augnablikinu að flokkspólitískar átakalínur séu að færast yfir í velferðar- og heilbrigðismál. Ég held að þetta séu tímabundnar hræringar vegna þess að þegar grannt eru skoðaðir almannahagsmunir og einkahagsmunir þá held ég, að áfram muni ríkja breið sátt um þann siðferðilega grundvöll sem velferðar-og heilbrigðiskerfið hvílir á. Þetta snýst um siferðilegar spurningar eins og sagði í ritstjórnargrein dagblaðs fyrir ekki mjög löngu, en þar sagði orðrétt:
" Einu raunverulegu rökin, sem færð hafa verið fram gegn einkarekstri sjúkrahúsa eru af siðferðilegum toga spunnin. Þar takast á sjónarmið um það, hvort fullkominn jöfnuður eigi að ríkja um aðgengi að heilbrigðisþjónustu eða hvort þeir sem það vilja eigi að hafa rétt til þess að greiða fyrir þá þjónustu."
Þetta er að mestu rétt: Rökin eru auðvitað af siðferðilegum toga og snúast um, hvort þeir sem það vilja eiga að hafa rétt til að greiða fyrir þjónustuna. Rökin eru líka af flokkspólitískum toga en þau snúast ekki bara um viljann til að greiða heldur líka getuna til að greiða og því megum aldrei gleyma.
Ég skil röksemdafærslu þeirra mætavel sem vilja slaka á siðferðisklónni og sumir trúa því vafalaust, að með því að úrvalsdeildarfólkið greiðir fyrir þjónustuna að þá komist neðri deildar menn frekar að.
Ágætu ársfundargestir.
Næsti þáttur umræðunnar um einkavæðingu og biðlista mun ekki snúast um almannatryggingar held ég heldur einkatryggingar ef umræðan hér þróast eins og í nálægum löndum.
Röksemdafærslan er þessi, og þannig er spurt: Það eru langir biðlistar eftir aðgerðum og af hverju getum við ekki þá ekki látið einstaklingana kaupa sér einkatryggingar, sem standa svo undir hluta kostnaðarins við aðgerðir á einkaspítala, eða einkastofum?
Svar mitt við þessari spurningu er einfalt: Það kemur ekki til greina vegna þess að með því erum við að leggja grunninn tvískiptu kerfi - að fyrstu og annarri deild í heilbrigðisþjónustunni.
Rúmlega helmingur þeirra sem lendir á spítala og rúmlega helmingur þeirra sem nú leitar til einkalæknastofa eru aldraðir, öryrkjar og börn. Halda menn að tryggingafélögin séu áfjáð í að tryggja þessa hópa? Það held ég ekki.
Á milli 70 og 90% þeirra sem eru á of löngum biðlista eftir mjaða-og hnéskiptaaðgerðum eru á aldrinum 60 til 90 ára. Þeir aldurshópar geta ekki keypt sér einkatryggingar í löndunum í kringum okkur.
Allar erfiðust og þyngstu aðgerðirnar, öll dýru lyfin, endurhæfingin, hin erfiðu og langvinn veikindi, sem oft eru samfara slæmri félagslegri stöðu, - halda menn að tryggingafélögin muni koma sterk inn gagnvart þeim hópum sem þjást af svona sjúkdómum?
Ég dreg það í efa af því ég hef fyrir mér dæmin erlendis frá. Tryggingafélögin í nágrannalöndunum bjóða ekki upp á heilsutryggingar fyrir þá sem eru 65 ára og eldri svo dæmi sé tekið, en er það ekki einmitt sá aldurshópur sem hefur hvað mest þörf fyrir heilbrigðisþjónustu? Ég veit ekki betur.
Tryggingar eru í þessu sambandi bara bissniss og því miður sýnist mér sumt í einkarekstri samfélagsþjónustunnar snúast um það sem kallað er á fagmálinu "cream-skimming", eða það sem á íslensku heitir, að fleyta rjómann af einhverju.
Ágætu ársfundargestir.
Heilbrigðismálaráðuneytið hefur til margra ára farið fram á að tekin verði upp flokkun biðlista, að biðlistar verði samræmdir, og þeir þannig úr garði gerðir að þeir geti orðið það tæki til forgangsröðunar sem breið pólitísk samstaða er um og fram kemur í forgangsröðunarskýrslu og nýsamþykktri heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Ég segi tæki heilbrigðisyfirvalda af því sjúklingabókhaldið snýst um, að hafa traustan grunn til að geta skipulagt og forgangsraðað í heilbrigðisþjónustunni. En þótt heilbrigðismálaráðuneytið hafi sett fram skýr markmið í þessum efnum þá hefur lítið þokast. Það hyllir undir breytingar en mér skilst að enn sé nokkuð í þær.
Það má nota tiltekin skilmerki og skipta sjúklingum gróflega í þrennt að mínum dómi. Í fyrsta lagi eru það þeir sem eru bráðveikir og þurfa á tafarlausri læknisþjónustu að halda. Í öðru lagi eru það þeir sem eru sjúkir og þurfa þjónustu innan tiltekins tíma og í þriðja lagi eru það sjúkir sem geta beðið, án þess að heilsu þeirra hraki, eða að þeir bíða eftir aðgerð og njóta annars konar tímabundinnar þjónustu á meðan beðið er.
Biðlistarnir eins og við heyrum af þeim endurspegla ekki þessa skiptingu, en þyrftu hins vegar að gera.
Almennt má segja að það bíður auðvitað enginn í fyrsta hópnum, hlutfall þeirra sem bíða í öðrum hópnum er ekki hátt, og hluti þeirra fjölmörgu sem bíða eftir aðgerð í þriðja og stærsta hópnum fær jafnan tímabundna úrlausn sinna mála áður en að aðgerð kemur. Þetta bið ég menn að hafa hugfast sem fjalla um biðlista.
Það er hins vegar ekki einhlítt að nota biðlista í heilbrigðisþjónustunni sem mælikvarða á gæði þjónustunnar eins og mér finnst of oft gert. Það er í þessu sambandi líka mikilvægt og oft nákvæmari mæling á gæði í þessu sambandi að velta fyrir sér spurningum eins og þessari: Hve margar aðgerðir gerum við á hverja 100 þúsund íbúa borið saman við aðrar þjóðir?
Hvaða aldurshópar fá þessa þjónustu? Gerum við hlutfallslega fleiri aðgerðir en aðrar þjóðir - gerum við færri aðgerðir? Hvaða lyf erum við að gefa? Erum við ekki yfirleitt fyrstir til að gefa bestu, dýrustu og áhrifaríkustu lyfin?
Tökum dæmi af 500 manna sjúklingahópi sem bíður eftir tiltekinni aðgerð á Íslandi að sagt er og spyrjum okkur. Bíður hann eftir rannsókn, eða bíður hann eftir aðgerðinni sjálfri. Er hann í brýnni þörf, eða getur hann beðið? Biðlistinn svarar ekki þessum spurningum eins og hann er settur fram í dag, þótt hann ætti að gera það.
Og hvað þýðir það svo ef í ljós kemur að við gerum tvöfalt eða þrefalt fleiri aðgerðir á hverja 100 þúsund íbúa í tiltekinni sérgrein en grannþjóðirnar þótt biðlistar séu hér mjög langir í viðkomandi grein?
Þýðir það ekki einfaldlega að við erum hér að bjóða upp á þjónustu sem betri en boðið er uppá annars staðar? Þýðir það ekki líka að við verðum að skilgreina og nota biðlista með öðrum hætti en nota hráar tölur um þá sem bíða.
Nú má enginn skilja mál mitt svo, að ég sé að gera lítið úr þeim óþægindum sem menn verða fyrir sem þurfa að bíða eftir læknisþjónustu. Það er brýnt að kafa ofan í biðlistatölurnar, það er brýnt að gera alla heilbrigðistölfræðina áreiðanlegri en hún er nú til þess einmitt að við getum forgangsraðað og veitt þeim þjónustuna sem mest þurfa á henni að halda.
Ég bendi aðeins á að ef menn nota biðlista sem röksemdir fyrir einkavæðingu, þá er líka hægt að tefla aðgerðafjölda á hverja 100 íbúa sem rökum fyrir hinni góðu, vönduðu og umfangsmiklu almennu opinberu þjónustu sem veitt er. Mér finnst við höfum kannske verið allt of feimin við að tefla fram þessum staðreyndum og hreykja okkur af því góða sem hið opinbera gerir hér.
Ágætu ársfundargestir.
Einkarekstur er talsverður í heilbrigðisþjónustunni og víða hafa menn þróað prýðilegar lausnir undir merkjum einkarekstrar og skila á því sviði góðu verki. Enginn skyldi þó skilja orð mín svo að ég vildi gera einhverja grundvallarbreytingar á því kerfi, sem við höfum þróað hér á Íslandi. Og ég get sagt það líka að ég útiloka ekkert í þessum efnum, svo lengi sem starfsemin byggist á þeim siðferðilegu áherslum sem ég gerði að umtalsefni hér á undan, og svo lengi sem rétturinn til heilbrigðisþjónustu er almennur. Ég leggst hins vegar gegn deildaskiptri velferðaþjónustu almennt og heilbrigðisþjónustu sérstaklega.
Ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að ávarpa ársfundinn. Ég saknaði þess að ekki skyldi leitað til fulltrúa þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda þegar Tryggingastofnun ákvað að setja á dagskrá spurninguna um tálsýn og töfralausn og þið fyrirgefið mér þótt ég hafi hér tekið að mér það hlutverk.
Talað orð gildir