JK - Ræður: Um lyfjamál utan dagskrár á Alþingi nóv. 2001
Utandagskrárumræður á Alþingi
miðvikudaginn 31. október 2001
Jón Kristjánsson:
Virðulegi forseti.
Ég fagna því að háttvirtur 3. þingmaður Suðurlands skuli taka hér upp málefni tengd vímuefnanotkun íslenskra ungmenna í framhaldi af rannsókn, sem kynnt var á vegum Áfengis-og vímuvarnarráðs fyrir skemmstu.
Ánægjulegustu tíðindin sem fram koma í niðurstöðum þeirrar könnunar sem gerð var fyrir ári meðal framhaldsskólanema í landinu eru þær að mjög hefur dregið úr áfengisneyslu ungmenna og nokkuð hefur dregið úr reykingum hópsins.
Það sem hins vegar er okkur öllum nokkuð áhyggjuefni er sú staðreynd að neysla ólöglegra vímuefna hefur aukist nokkuð, einkum hassneysla 16 til 19 ára ungmenna og það sem einnig kemur fram að kókaínneysla skuli þekkjast meðal þessara aldurshópa.
Fyrir tæpum áratug höfðu um 7% ungmenna á aldrinum 16 til 19 ára notað hass þrisvar sinnum eða oftar borið saman við 12% fyrir ári. Þetta er að mínum dómi algjörlega óviðunandi þróun og undirstrikar að baráttan gegn ólöglegri vímuefnaneyslu er verkefni sem ætíð þarf að vera efst á dagskrá.
Samkvæmt könnuninni sem er tilefni þessarar umræðu kemur fram að stórlega hefur dregið úr sniffi ungmenna, e- töflunotkun er ekki mikil og er það sérstakt fagnaðarefni.
Það sem hins vegar vekur óneitanlega nokkra athygli og háttvirtur þingmaður gerði að umtalsefni er sú niðurstaða að tíundi hver framhaldsskólanemi á Íslandi skuli segjast hafa notað svefntöflur eða róandi einu sinni eða oftar um ævina. Ég get tekið undir það að þessi niðurstaða þarfnast frekari skýringa.
Nú hef ég aflað mér upplýsinga um að spurt var um það hversu stór hópur hefði notað þessi lyf oftar en þrisvar sinnum og þá kemur í ljós að 4,6% hafa notað lyfin oftar en þrisvar sinnum. Það sem rannsóknin segir okkur hins vegar ekkert um er, hvernig ungmennin komust yfir þessi lyf, einfaldlega vegna þess að ekki var spurt um það.
Það hefur komið fram af hálfu Landlæknisembættisins að það hyggst kanna þetta mál sérstaklega og mér er kunnugt um að sú athugun er þegar hafin og ég vonast til að embættið efni til almennra umræðna um þessi mál á vettvangi lækna.
Í þessu sambandi er hins vegar rétt að benda á svefnlyf og róandi lyf eru ekki eftirritunarskyld, eins og t.d. rítalín eða hin sterkari efni sem ávísað er á og því er hægt að fá upplýsingar um ávísanavenjur lækna í sviphendingu.
Virðulegi forseti.
Ég geri ekki lítið úr því þegar 4,6% ungmenna á aldrinum 16 til 19 ára segist hafa notað róandi lyf og svefnlyf oftar en þrisvar sinnum, en ég bendi hins vegar á, að notkunin kann að eiga sér skýringar. Það er hugsanlegt að notkunin geti verið liður í læknismeðferð, þó ég vilji ekki fullyrða neitt í þeim efnum.
Almenn notkun róandi lyfja hefur nánast ekkert aukist síðustu tíu árin, en svefnlyfjanotkunin hefur hins vegar almennt séð aukist verulega og hljóta menn að skoða þessa aukningu og fá á henni skýringu. Á síðustu fimm árum hefur svefnlyfjanotkun Íslendinga aukist um tæplega 25 af hundraði, sem mér finnst sem heilbrigðisráðherra mjög alvarlegt mál. Ég tala hér um notkunina. Við vitum hins vegar ekki hvort þessi almenna aukning skýrir niðurstöðuna sem fram kemur í vímuefnakönnunina sem er tilefni þessarar umræðu.
Hin fjárhagslega hlið svefnlyfjamálsins er svo sú að á rlegur kostnaður við svefnlyfin hefur nánast tvöfaldast frá árinu 1995 og hefur farið úr rúmum 80 milljónum á ári og verður líkast til rétt innan við 160 milljónir í ár. Það hefur dregið úr ávísunum á og notkun á eldri lyf, en notkun nýrra og dýrra lyfja hefur margfaldast.
Virðulegi forseti.
Málshefjandi spyr um innflutning og eftirlit með þessum lyfjum og fyrirætlanir um að skoða innflutninginn sérstaklega. Það er fylgst nákvæmlega með notkun þessara lyfja hér. Þar fyrir utan er Ísland aðili að alþjóðasamningi sem felur í sér að alþjóðleg stofnun INCB (International Narcotics Control Board) fylgist líka með notkun þessara lyfja hér.
Ísland gefur upp árlega hver notkunin hefur verið og hver væntanleg notkun verði. Í ljósi þessara upplýsinga fær Ísland "kvóta" fyrir hvert efni. Innflytjendur verða að sækja um sérstakt innflutningsleyfi í hvert sinn er þeir hyggjast flytja þessi lyf til landsins. Hverri vörusendingu slíkra lyfja þarf einnig að fylgja útflutningsleyfi yfirvalda þess lands er lyfið kemur frá.
Ársfjórðungslega eru sendar skýrslur til INCB um innflutning og útflutning þessara lyfja.
Um ávísun og afhendingu ávana- og fíknilyfja í apótekum gilda ákveðnar reglur.
Læknum er einungis heimilt að ávísa takmörkuðu magni þessara lyfja á einum lyfseðli eða mest til 30 daga notkunar. Óheimilt er að mynd- eða símsenda lyfseðla þar sem ávísað er ávana- og fíknilyfjum. Slíkir lyfseðlar gilda aðeins fyrir eina afgreiðslu.
Sjúklingur þarf að kvitta fyrir móttöku lyfsins og sýna persónuskilríki.
Lyfseðlar er hljóða á eftirritunarskyld ávana- og fíknilyf eru send Lyfjastofnun, sem skráir notkun þessara lyfja sérstaklega. Það gildir ekki um svefnlyf og róandi lyf.
Til að koma í veg fyrir að unnt sé að fjölfalda lyfseðla með ljósritun eða skönnun var ákveðið að þeir skyldu prentaðir á pappír, er inniheldur sérstakt vatnsmerki þannig að þegar hefur verið gripið til ráðstafana til að hindra misnotkun á þessu sviði.
Það er afar ólíklegt, að þessum lyfjum sé ávísað unglingum og einnig að þeir séu afgreiddir í lyfjabúðum.
Það er spurt hvort Landlæknisembættið fái frekari fjárveitingar til að skoða þetta mál sérstaklega og ég get svarað því, að almennt er ég áhugasamur um að Landlæknisembættið hafi jafnan á hraðbergi skýringar á því sem er að gerast á sviði lyfjanotkunar og hafi um það samvinnu við Lyfjastofnun, Lyfjamáladeild heilbrigðisráðuneytisins og Tryggingastofnun, en það snýst að mínum dómi ekki um fjárveitingar á þessu stigi málsins.
(Talað orð gildir)