Hoppa yfir valmynd
7. desember 2001 Heilbrigðisráðuneytið

JK - Ræður: Stefnumótun í heilsugæslunni - 2001

Ræða Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
flutt af aðstoðarmanni ráðherra, Elsu Friðfinnsdóttur á ráðstefnu um;
Stefnumótun í heilsugæslunni
Smárabíói 5. desember 2001



Ágætu fundarmenn.

Ég fagna því sérstaklega að þið skuluð hér í dag ætla að ræða hugmyndir, stefnu eða stefnumótun. Andartaks umhugsun er nefnilega það eina, sem sparar okkur vinnu.

Og einmitt það hugverk, sem er tilefni þessa fundar, Heilsugæsla til framtíðar, fær mig ósjálfrátt til að staldra við og reyna að hugsa þessi mál í samhengi við markmið og leiðir í heilsugæslunni.

Ég hef áður sagt að ég sé heilsugæslumaður. Ég er þeirrar skoðunar, að heilsugæsla sé grundvöllur góðrar heilbrigðisþjónustu.

Þetta er reynsla mín og raunar skoðun flestra sem láta sig málið varða af fullri alvöru.

Í stuttu máli: Sú þjóð sem byggir upp góða heilsugæslu býður borgurunum upp á góða þjónustu á heilbrigðissviði.

En hver eru þá megin markmið heilsugæslunnar?

Heilsugæslan á að stuðla að heilbrigði borgaranna, hún á að gera þetta með samfelldri þjónustu og hún á að tryggja almennan fyrirhafnarlausan aðgang að þjónustunni. Hún á að tryggja að allur almenningur hafi þar jafnan aðgang.

Heilsugæslan á líka að fræða og upplýsa almenning og þá sem til hennar leita, og hún á að kenna einstaklingunum að þeir bera nokkra ábyrgð á heilsu sinni.

Í heilsugæslunni eiga að starfa metnaðarfullir starfsmenn sem ávallt eru tilbúnir að leggja sig fram um að veita þeim sem þangað leita sem besta þjónustu.

Heilsugæslan á að vera sá staður þangað sem menn leita fyrst, þegar upp koma veikindi og/eða sjúkdómar.

Í öllum aðalatriðum stenst íslensk heilsugæsla þessa mælingu, en á þessu sviði eins og öðrum eigum við alltaf að vera tilbúin til að gera betur. Sú mikla vinna sem liggur í stefnumótuninni sem hér verður kynnt, er til marks um það, að menn vilja gera betur.


Ég loka hins vegar hvorki augum né eyrum fyrir því að það eru tilteknir hnökrar á þjónustunni í heilsugæslunni hér á höfuðborgarsvæðinu.

Aðgangurinn er ekki tafarlaus, eins og við Íslendingar, vildum helst hafa hann á þessu sviði sem mörgum öðrum, og nokkuð er um að menn hafi ekki fastan heilsugæslulækni. Ég segi að brögð séu að því, en vísa því á bug að tugir þúsunda séu án heilsugæslulækna, eins og haldið hefur verið fram.

Þegar ég ræði um hnökrana þá vil ég líka að menn hugsi um kröfurnar sem við gerum oftast á þessu sviði. Það er óhætt að fullyrða að borið saman við það sem við þekkjum frá nálægum löndum er aðgengi að heilsugæslunni hér alls ekki slæmt.

Ef við hins vegar gerum þær kröfur að geta náð í lækni þegar okkur dettur það í hug, hér og nú, - þá finnst okkur kannske súrt í broti að komast ekki til læknis fyrr en á morgun.

Og í þessu sambandi gleymum við því oftast að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu býður líka upp á sérstaka Læknavakt, sem er hérna í næsta húsi, og þeir sem ekki geta beðið til morguns þeir eiga þess alltaf kost að koma í Smárann og komast nánast strax undir læknis hendur.

Þessu megum við ekki gleyma.

Og við megum heldur ekki gleyma því að það hefur á umliðnum árum verið mikil uppbygging og gróska í heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, þótt fjölgun íbúa hér á þessu svæði valdi okkur tímabundnum erfiðleikum og eigi að hluta til þátt í útgjaldaaukningunni sem hér hefur orðið.
Það er stundum sagt að til að geta tekist á við framtíðina verði menn að þekkja fortíðina og þótt við séum einmitt að ræða framtíðina hér, þá ætla ég að bæta því við, að til að meta nútíðina þurfum við að þekkja það sem áður hefur verið gert.

Við skulum þess vegna skoða stuttlega hversu mjög forveri minn í embætti; fjárveitingavaldið, sem ég þekki meira en af afspurn; og ríkisstjórnin hafa borið hag heilsugæslunnar fyrir brjósti.

Ef við tökum heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu í heild og mælum gæðin, eða þjónustuna, í framlögum, þá fóru um 820 milljónir króna til rekstrar heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu á árinu 1997, sem vinsælt er að miða við.

Þessi tala var komin í 960 milljónir árið 1998, hún fór í 1630 milljónir 1999, þegar hluti kostnaðar var fluttur frá TR yfir til heilsugæslunnar, 1790 milljónir árið 2000, 1985 milljónir í ár og samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, eins og það liggur fyrir núna, verða framlögin rúmlega 2200 milljónir króna.

Framlögin til heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa sem sagt farið úr 820 milljónum króna í 2,2 milljarða á fimm árum. Að teknu tilliti til breytingarinnar sem varð á árinu 1998 með yfirfærslunni frá TR til heilsugæslunnar má segja að framlögin hafi meira en tvöfaldast.

Þetta er auðvitað allt á verðlagi hvers árs og vissulega hefur fólki fjölgað á þessu svæði, en við erum að tala um aukningu sem er ekki undir 165% á sama tíma og neysluverðsvísitalan hefur hækkað um 22 prósent.

Og þessi gríðarlega aukning segir meira að segja ekki alla söguna. Það er allur byggingakostnaður utan við þessar tölur. Glæsilegar nýjar heilsugæslustöðvar í Efstaleitinu í Reykjavík og hér utan við Smáralindina – stöðvar sem þykja á heimsmælikvarða – eru ekki taldar með í þessu reikningsdæmi.



Góðir fundarmenn.

Heilsugæsluþjónustan hefur haft forgang hjá heilbrigðisráðherra og þessari ríkisstjórn.

Á höfuðborgarsvæðinu eru starfandi 96 heimilis- og heilsugæslulæknar sem þýðir að hér eru tæplega 1800 manns um hvern lækni.

Nú hefur þjónusta heilsugæslunnar batnað mjög á síðari árum, en við skulum ekki gleyma að hér áður fyrr voru dæmi um að heilsugæslulæknar væru með allt að 3000 manns skráða hjá sér, og úrskurður kjaranefndar gerir ráð fyrir að þessi fjöldi geti farið í allt að 2400 manns.

Það er í ljósi þessara staðreynda sem ég fullyrði að þjónusta heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu stendur í öllum aðalatriðum þá vigt sem henni hefur verið gefin.

Stefnumótunin sem hér er kynnt – skýrslan um heilsugæslu til framtíðar - bendir til þess að stjórnendur heilsugæslunnar vilji gera enn betur og er það vel.

_ _ _ _ _ _

Þekktur hugmyndafræðingur á sviði heilbrigðismála hefur sagt að heilbrigðisþjónustunni megi í stórum dráttum skipta í tvennt:

Í fyrsta lagi að líkna þeim, sem sjúkir eru orðnir, og lækna þá sem unnt er að lækna, og í öðru lagi, að stuðla að því að menn verði sem allra minnst sjúkir, en njóti heilbrigði og óskertra starfskrafta sem lengst.

Það má færa rök fyrir því að meira hafi borið á hinu fyrrnefnda og jafnvel, að áherslur síðustu áratuga hafi ef til vill bitnað á því síðarnefnda, að koma almenningi í skilning um hvað hann getur gert til að forðast sjúkdóma og af hverju einstaklingarnir bera verulega ábyrgð á heilsufari sínu sjálfir.

Ég vona að í stefnumótuninni sem nú liggur fyrir sé gengið út frá þessum grundvallarþáttum heilbrigðisþjónustunnar og að hún verði til þess að rétta nokkuð hlut heilsugæslunnar í opinberri umræðu. Heilsugæslan og áherslan sem við höfum lagt á hana – þeir sem nota heilsugæsluna, eiga það skilið.

Þar sem þriðja umræða um fjárlög næsta árs er ekki hafin finnst mér ekki viðeigandi að útlista í smáatriðum þau auknu framlög sem koma í hlut heilsugæslunnar, en þegar tekið er tillit til allra þátta er það umtalsvert og kemur í ljós fljótlega. Hér vildu vafalaust allir að meira kæmi í þeirra hlut, en þá vísa ég aftur til talnanna sem ég drap á hér að framan: Framlögin hafa rúmlega tvöfaldast á nokkrum árum.

Ég nefndi í upphafi að andartaks umhugsun væri það eina sem gæti sparað okkur vinnu og fyrirhöfn og ég veit að í stefnumótunarvinnunni hafið þið staldrað við og hugsað.

Þið hafið stigið stórt fyrsta skref í þeirri viðleitni að bæta enn þá þjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins.

Verkefnið framundan er síðan að vinna saman að því að gera heilsugæslustöðvarnar að notalegum en látlausum stöðum, þangað sem gott er að leita og eftirsóknarvert að vinna.


_____________
Talað orð gildir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta