Hoppa yfir valmynd
11. október 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Ræða heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ársfundi TR 2002

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra
Ræða á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins 11.10.2002


Ágætu ársfundargestir.
Það eru tvær stofnanir, tvenns konar starfsemi, sem heyra undir heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytið, sem hvor með sínum hætti eru andlit hins opinbera gagnvart almenningi. Báðar eru þungamiðja þjónustunnar við almenning á sínu sviði. Þetta er Landspítali – háskólasjúkrahús, sem er kjölfestan í íslensku heilbrigðisþjónustunni, og svo sú stofnun, sem heldur þennan ársfund sinni, Tryggingastofnun ríkisins.

Tryggingastofnun ríkisins hefur á umliðnum árum oftsinnis orðið fyrir gagnrýni. Stundum hefur sú gagnrýni átt rétt á sér og sýnist mér að menn hafi tekið hana til sín og breytt samkvæmt henni, en miklum mun oftar hefur stofnunin orðið fyrir gagnrýni sem ætti ef til vill að beinast annað. Það er staðreynd að þeim sem stjórna Tryggingastofnun hefur tekist á síðustu misserum að gera umtalsverðar breytingar á rekstrinum og gera með því stofnunina aðgengilegri fyrir þá sem hún þjónar. Fyrir þeim hópi stjórnenda og starfsmanna hefur farið gamall kollegi minn, Karl Steinar Guðnason, og auðvitað stjórn stofnunarinnar. Ber að þakka framlag til stefnumótunar í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins.

Þema ársfundarins er helgað fjölskyldumálum að þessu sinni, sem ekki er óeðlilegt fyrir stofnun á borð við TR því fjölskyldan er sú grunneining í samfélagsbyggingunni, sem skiptir einstaklingana mestu þegar allt kemur til alls. Fjölskyldan er auðvitað það öryggisnet einstaklinganna sem þéttriðnast er, en því má halda fram með rökum að starfsemi TR skarist að einhverju leyti við hlutverk fjölskyldunnar.

Fjölskyldumálin eða staða fjölskyldunnar er jafn áhugavert viðfangsefni og þau eru flókin. Það merkasta sem gert hefur verið af hálfu opinberra aðilja á þessu sviði síðustu árin eru þær grundvallarbreytingar sem gerðar voru á rétti karla, og kvenna til töku fæðingarorlofs. Hugsunin sem liggur í fæðingarorlofslögunum er nýmæli og rétturinn ríkur. Nú eiga foreldrar sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur og er hann ekki framseljanlegur milli foreldra. Lögin tryggja þess utan sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar, sem annað foreldra getur tekið í heild, eða foreldrar skipt með sér. Þess utan tryggja lögin sjálfstæðan rétt foreldra til foreldraorlofs í allt að 13 vikur hvort um sig og er þessi réttur ekki framseljanlegur milli þeirra.

Þessi bylting í réttindum foreldra – og raunar barnanna sjálfra – ætti að verða okkur leiðsögn í frekara umbótastarfi á þessu sviði því þó við höfum með fæðingarorlofslögunum gengið að sumu leyti lengra en þær þjóðir sem við miðum okkur oft við, þá eru þau svið til þar sem við þurfum að bæta okkur.

Þegar við ræðum um almennar réttarbætur sem byggjast í grunninn á sameiginlegum útgjöldum okkar allra, þá verðum við ávalt að hugsa um það gagnvart okkur sjálfum sem skattgreiðendum, en ekki síður gagnvart börnum okkar og framtíðinni – að til að standa straum af kostnaðinum þá verður að vera til öflugt atvinnulíf. Án öflugrar atvinnuppbyggingar og framsóknar á því sviði getur svo farið að hinn félagslegi réttur verði innantóm orð. Sá réttur er ekki mikils virði.

Baráttan fyrir umbótum á tryggingasviðinu tekur eðli máls aldrei enda og við samþykkjum ekki árlega réttarbætur á borð við fæðingarorlofslögin eins og við helst vildum. Það liggur í hlutarins eðli, en ýmislegt af því sem við erum að hrinda í framkvæmd daglega, vikulega eða mánaðarlega hefur oft sama gildi fyrir þá sem njóta og stóru málin hafa fyrir heildina. Ég nefni í þessu sambandi:

  • Hækkun greiðslna vegna þungrar umönnunar fatlaðra og langveikra barna
  • Rýmri rétt til handa þeim fjölskyldum sem verða fyrir miklum útgjöldum vegna lyfja og lækniskostnaðar

Og ég nefni nýja barnaspítalann, sem senn verður tekinn í notkun og verður bylting í allri aðstöðu fyrir fjölskyldur með veik börn, og ég nefni stóraukin framlög til lífeyrisþega, sem komu fyrst til framkvæmda á liðnu ári.

Ágætu ársfundarfulltrúar.
Á heilbrigðissviði hafa orðið til fyrirtæki sem hefur tekist að nýta sér þá reynslu og þekkingu sem orðið hefur til í heilbrigðisþjónustunni. Mörg þessarar fyrirtækja eru að gera mjög góða hluti. Ég nefni þetta hér vegna þess að í stofnun eins og Tryggingastofnun ríkisins er samankomin mikli þekking og reynsla og hér eru til gögn sem gætu verið ómetanleg í rannsóknaskyni. Tryggingastofnun ríkisins átti þátt í að sett var saman félagsfræðileg úttekt á tilteknum þáttum íslenska velferðarkerfisins sem bar heitið Íslenska leiðin. Það voru ekki allir jafn ánægðir með allar niðurstöður samfélagsfræðinganna sem skrifuðu bókin, en hún varð hins vegar tilefni lýðræðislegrar umræðu um velferðarmálin sem er nauðsynleg í þjóðfélagi eins og okkar og hún setti að sumu leyti tiltekin velferðarmál í brennipunkt.

Félagsfræðilegar rannsóknir á sviðum sem tengjast ýmsum þáttum í starfssemi Tryggingastofnunar ríkisins eru ekki aðeins nauðsynlegar til að efla umræður á opinberum vettvangi. Rannsóknirnar eru til dæmis líka nauðsynlegar til geta lagt drög að fyrirbyggjandi aðgerðum á sviði heilbrigðis-og tryggingamála. Ég er eindreginn hvatamaður þess að samfélagslegar rannsóknir, sem Tryggingastofnun ríkisins gæti þess vegna verið aðili að, til dæmis í þríhliða samstarfi TR, fyrirtækja og félagsvísindamanna, verði efldar. Og ég er raunar líka þeirrar skoðunar að TR gæti haft ákveðið frumkvæði að því að leiða saman þessa aðila til hagsbótar fyrir alla. Rannsóknir á sviði fjölskyldumála sýnist mér tilvalið verkefni og upplagt til þess í framhaldinu að geta tekið pólitískar ákvarðanir á grundvelli staðreynda eða rannsóknaniðurstaðna.

_____________
Talað orð gildir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta