Hoppa yfir valmynd
25. október 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Grunnlyfjalisti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í 25 ár - Lækkum lyfjareikninginn

Grein Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
í Morgunblaðinu, október 2002


Þann 21. október var aldarfjórðungur liðinn frá því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin útbjó og setti opinberlega fram fyrsta grunnlyfjalistann (essential drug list). Á þessum lista eru lyf sem af virtustu vísindamönnum talin eru fullnægja þörfum þeirra sem á annað borð þurfa að nota lyf. Þetta eru því lyfin sem ávallt þurfa að vera tiltæk á hentugu formi og í nægilegu magni að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.

Viðurkennd lyf - betri stjórnun

Hugsunin að baki grunnlyfjalistanum er í stuttu máli sú að takmarkaður fjöldi vel valinna og viðurkenndra lyfja leiði til betri stýringar á lyfjanotkun, lægri kostnaðar og betri heilbrigðisþjónustu. Grunnlyfjalistinn og sú hugmyndafræði sem hann byggist á hefur á undanförnum 25 árum verið tekinn upp í 156 löndum. Í þessum löndum hefur heilbrigðisþjónustan að mestu byggst á grunnlyfjalistanum með þeim árangri að nú hafa tvöfalt fleiri einstaklingar en áður greiðan aðgang að þessum lyfjum. Framfarir í heilbrigðismálum viðkomandi landa má að verulegu leyti rekja til grunnlyfjalistans.

Fyrsti grunnlyfjalisti WHO birtist 21. október 1977 og tók þá til um 200 lyfja. Listinn hefur margsinnis verið endurskoðaður og nær nú til rúmlega þrjú hundruð lyfja. Í ár kom út nýjasta útgáfa grunnlyfjalistans með ítarlegum upplýsingum um viðkomandi lyf og er hann nú mun aðgengilegri fyrir lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn en áður og er bæði til á rafrænu formi og í aðgengilegri handbók.

Afrek í sögu læknisfræði

Virtir vísindamenn á sviði heilbrigðisvísinda og ráðamenn á þessu sviði víðs vegar um heim eru þeirrar skoðunar að gerð grunnlyfjalistans árið 1977 hafi verið meiri háttar afrek í sögu læknisfræði, lyfjafræði og lýðheilsu. Listinn er settur saman og þróaður á gagnsæjan hátt á grundvelli bestu þekkingar í lyfja- og læknisfræði. Við gerð grunnlyfjalistans eru hagsmunir sjúkra hafðir að leiðarljósi, en þeir sem gera listann eru óháðir öðrum hagsmunum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin beinir þeim tilmælum til allra þjóða, ekki bara til þriðja heims þjóða, heldur líka til þeirra iðnvæddu, að laga heilbrigðisþjónustuna sem mest að grunnlyfjalistanum. Með því telur stofnunin að það verði þjóðum ekki um megn að ná því takmarki að gera grunnheilbrigðisþjónustuna að þeim almennu mannréttindum sem hún er. Grunnlyfjalistinn er veigamikill þáttur í að ná því takmarki. Grunnlyfjalistinn ætti því eðli málsins samkvæmt að njóta frekari forgangs í okkar heilbrigðisþjónustu.

Ódýrari lyf - sama heilsufar

Á undanförnum árum hafa menn lagt kapp á notkun nýrra lyfja sem sannanlega hafa aukið mjög kostnað án þess að í öllum tilvikum sé hægt að koma auga á bætta heilsu, eins og Jóhann Ágúst Sigurðsson, prófessor í læknisfræði, benti á í Morgunblaðinu fyrir skemmstu svo eftir var tekið. Þá vekur það sérstaka athygli að á sama tíma og margar þjóðir reyna að tryggja aðgang að grunnlyfjum þá eru framleiðendur og innflytjendur hér á landi að afskrá og hætta framleiðslu sumra þessara lyfja, en bjóða sjúkum og stofnunum í staðinn mun dýrari lyf. Er svo komið að lyfjakostnaður á mann á Íslandi er hvað mestur í heimi. Þetta þýðir að vaxandi lyfjakostnaður gæti farið að bitna á þeim sem illa eru staddir fjárhagslega en þurfa á lyfjum að halda. Augljóst er því að í næstu framtíð þarf að leggja meiri áherslu á grunnheilbrigðisþjónustuna, eins og Jóhann Ágúst Sigurðsson bendir réttilega á. Grunnlyfjalistinn er hornsteinn bættrar almennrar heilbrigðisþjónustu, sem nauðsynlegt er að standa vörð um nú og í framtíðinni. Það er brýnt að læknar og heilbrigðisstofnanir leggi áherslu á að nýta sér grunnlyfjalistann og þá hugsun sem hann byggist á og sá sem þetta ritar hyggst láta skoða hvort ekki sé rétt að niðurgreiða frekar lyf á tilteknum grunnlyfjalista, en önnur lyf.

________



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta