Hoppa yfir valmynd
23. janúar 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Framsöguræða heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra vegna frumvarps til laga um Lýðheilsustöð.


Hæstvirtur forseti.

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um Lýðheilsustöð.

Í heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sem samþykkt var samhljóða á Alþingi í maí 2001 er lögð áhersla á langtíma heilbrigðismarkmið sem miða að því að bæta heilsufar þjóðarinnar. Ég lét á síðasta vetri vinna frumvarp um Lýðheilsustöð með það í huga að fylgja eftir markmiðum heilbrigðisáætlunar um forvarnir en meginmarkmið frumvarpsins er að samræma og efla forvarnir á öllum sviðum. Við samningu frumvarpsins var haft samráð við landlækni og fulltrúar ýmissa aðila sem nú starfa að forvörnum í landinu hafa verið kallaðir til funda í ráðuneytinu, svo sem tóbaksvarnanefndar, áfengisvarnaráðs og manneldisráðs og var hugmyndum um stofnun Lýðheilsustöðvar almennt vel tekið.

Frumvarpið var lagt fram á Alþingi í mars sl. og var því vísað til háttvirtrar heilbrigðis- og trygginganefndar án umræðu. Nefndin sendi frumvarpið út til umsagnar 13. maí sl. Umsagnir bárust frá 37 aðilum og voru þær almennt jákvæðar. Nokkrir töldu þó að þessi starfsemi væri betur komin innan embættis landlæknis, en einnig kom fram sú skoðun að slík starfsemi færi ekki vel saman við eftirlitshlutverk landlæknis. Þá komu fram athugasemdir við nokkur atriði frumvarpsins og nokkrar tillögur um breytingar og viðbætur. Farið hefur verið yfir umsagnirnar og gerðar nokkrar breytingar á frumvarpinu með hliðsjón af þeim. Þar er fyrst og fremst um að ræða lagfæringar á orðalagi og áherslum.

Eins og ég gat um í upphafi máls míns var heilbrigðisáætlun til ársins 2010 samþykkt samhljóða á Alþingi vorið 2001 og er þar lögð áhersla á heilbrigðismarkmið til langs tíma.

Mig minnir að það hafi verið Vilmundur Jónsson, landlæknir, sem sagði fyrir hálfri öld að mesta bylting í heilbrigðismálum hverrar þjóðar fælist í að opna augu hennar fyrir því hversu mikið hún getur sjálf lagt af mörkum til að bæta heilbrigði sitt. Þetta á ekki síður við nú í upphafi nýrrar aldar.

Það heyrist stundum að lítil áhersla sé lögð á forvarnir hér á landi. Menn líta þá gjarnan til þess fjár sem varið er til forvarna í þrengsta skilningi orðsins, án þess að reikna með þeim gríðarlegu fjármunum sem renna til beinna og óbeinna forvarna á öllum sviðum, allt frá smærri forvarnaverkefnum og upp í krabbameinsleit, að ekki sé minnst á veigamikil verkefni heilsugæslunnar á sviði forvarna.

Ég held með öðrum orðum að við stöndum okkur ágætlega á sviði forvarna. Ég er hins vegar sannfærður um að við getum gert enn betur. Við ættum hér í okkar litla landi að hafa alla burði til að geta skipað okkur í framvarðasveit á þessu sviði. Við ættum að geta bætt heilbrigði, lengt líf, bætt lífsgæði, og náð árangri, sem eftir yrði tekið í alþjóðlegum samanburði, með því að leggja frekari rækt við þá hugsun sem felst í lýðheilsuhugtakinu.

Ég tel skipta afar miklu máli að sameina krafta þeirra sem nú vinna að forvörnum og veita í einn farveg því fé sem varið er til forvarnaverkefna. Því sé mikilvægt fyrir okkur - fyrir almenning og fyrir heilbrigðisþjónustuna í bráð og lengd, að koma á fót sérstakri forvarnamiðstöð eða Lýðheilsustöð.

Helsta markmið heilbrigðisyfirvalda á hverjum tíma er að stuðla að heilbrigði allra landsmanna. Þetta markmið er m.a. að finna í 1. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Hlutverk heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana er þó ekki einskorðað við að veita þjónustu þegar eftir henni er leitað, oftast vegna heilsuvanda, heldur er það miklu víðtækara. Þótt aldrei verði lögð nógu mikil áhersla á ábyrgð fólks á eigin heilbrigði er ljóst að samfélagið og stofnanir þess bera einnig ábyrgð og hafa víðtæk áhrif á heilsufar þjóðarinnar og einstakra hópa á hverjum tíma. Þannig hafa ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda bein og óbein áhrif á líf þegnanna og heilbrigði þeirra þótt áhrifin séu ekki alltaf ljós þegar ákvörðun er tekin.

Þrátt fyrir öflugt og árangursríkt heilsuverndarstarf um margra áratuga skeið er ljóst að breytingar kalla á endurskoðun. Þau heilbrigðisvandamál sem nú ber hæst eru önnur en áður. Lífslíkur Íslendinga hafa aukist jafnt og þétt og eru með þeim mestu sem þekkjast, en á sama tíma hafa bæði dánarorsakir og sjúkdómatíðni breyst þannig að vægi svokallaðra langvinnra sjúkdóma hefur aukist verulega. Orsaka langvinnra sjúkdóma er oftast að leita í samspili áhættuþátta eins og reykinga, offitu, kyrrsetu, ofneyslu áfengis og neyslu annarra vímuefna og streitu. Samspil áhættuþátta og áhrif lífsstíls á þróun lýðheilsunnar kallar á nýjar aðferðir þar sem áhersla er lögð á samræmdar aðgerðir, samþættingu og samvinnu.

Með frumvarpi þessu er lagt til að komið verði á fót stofnun, Lýðheilsustöð, til að vinna að eflingu lýðheilsu. Henni er m.a. ætlað að samræma lýðheilsustarf, annast fræðslu til almennings, styðja starfsemi þeirra sem vinna að eflingu lýðheilsu, stuðla að rannsóknum og fylgjast með árangri heilsueflingar, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að Lýðheilsustöð þjóni fyrst og fremst þeim tilgangi að vera frumkvöðull og samræmingarafl. Eftir sem áður verður þungamiðja heilsuverndar- og forvarnastarfs annars vegar hjá heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki og hins vegar hjá frjálsum félagasamtökum eins og verið hefur. Lýðheilsustöð er hins vegar ætlað að veita hvers konar lýðheilsustarfi öflugan stuðning, eiga frumkvæði að samstarfi og samvinnu við þá fjölmörgu aðila sem starfa á þessum vettvangi og samræma og samhæfa lýðheilsustarfið.

Gert er ráð fyrir að Lýðheilsustöð verði ríkisstofnun undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, en henni verði að öðru leyti stjórnað af forstjóra sem skipaður verði af ráðherra.

Eins og fram kemur í 1. og 3. gr. frumvarpsins er Lýðheilsustöð ætlað að sinna heilsueflingu á öllum sviðum. Í frumvarpinu eru þó ekki sérstök ákvæði um starfsemi sem tengist öðru en áfengis- og vímuvörnum, manneldi, slysavörnum og tóbaksvörnum. Ástæður þess eru þær að forvarnir á þessum sviðum eru þegar bundnar í lög og ekki þótti fært að fella ákvæði um fyrrgreinda starfsemi alfarið úr lögum. Hins vegar þótti ekki heppilegt að binda í lög ákvæði um heilsueflingu og forvarnir á öðrum sviðum, enda gæti verið erfitt að ákveða hvaða svið ætti að taka með. Þá eru þarfir fyrir forvarnir síbreytilegar og ástæða getur verið til að gera sérstakt tímabundið átak á tilteknum sviðum. Því var ákveðið að leggja til að Lýðheilsustöð verði ekki bundin við að sinna tilteknum sviðum, öðrum en þeim sem getið er um í frumvarpinu, heldur geti hún sinnt heilsueflingu og forvörnum á öllum sviðum í samræmi við stefnu ráðherra um forgangsröðun verkefna á sviði heilsueflingar á hverjum tíma.

Lagt er til að núgildandi lög um áfengis- og vímuvarnaráð, lög um manneldisráð, lög um slysavarnaráð og þau ákvæði laga um tóbaksvarnir sem varða tóbaksvarnanefnd, verði felld úr gildi, en ráðin starfi áfram innan Lýðheilsustöðvar. Fyrrgreind ráð og tóbaksvarnaráð verði svonefnd sérfræðiráð, sbr. 5. gr. frumvarpsins, og verði Lýðheilsustöð og öðrum til ráðgjafar hvert á sínu sviði. Kveðið er á um að ráðherra skuli setja reglugerð um skipan og hlutverk annarra sérfræðiráða, en gert er ráð fyrir að eðlilegt og nauðsynlegt sé að setja á laggirnar sérfræðiráð á fleiri sviðum en að framan greinir, til dæmis sérfræðiráð um hreyfingu, um geðvernd og varnir gegn sjálfsvígum, fræðslu um kynlíf og varnir gegn ótímabærri þungun ungra stúlkna, krabbameinsvarnir o.fl.

Í frumvarpinu eru ákvæði um helstu verkefni áfengis- og vímuvarnaráðs, manneldisráðs, slysavarnaráðs og tóbaksvarnaráðs, en gert er ráð fyrir að nánari ákvæði um skipan þeirra og hlutverk verði í reglugerðum. Þá er gert ráð fyrir að annað heilsueflingar- og forvarnastarf á vegum ríkisins verði flutt til Lýðheilsustöðvar, t.d. starf tannverndarráðs, gigtarráðs og starf Árvekni að slysavörnum barna. Fjórar þessara nefnda og ráða hafa sjálfstætt starfsmannahald og skrifstofur og eru því í raun litlar ríkisstofnanir. Ég legg áherslu á að verði þetta frumvarp að lögum mun ríkisstofnunum því fækka um þrjár og aukin hagkvæmni nást hvað varðar húsnæði, starfsmenn og verkefni.


Gert er ráð fyrir að það fé sem nú er veitt til ráðanna verði framvegis veitt til Lýðheilsustöðvar, en þó er tekið fram að fé samkvæmt sérmerktum tekjustofni til tóbaksvarna, verði ráðstafað til tóbaksvarnastarfs og fé úr Forvarnasjóði verði varið til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna. Fyrirhugað er að starfsmönnum sem greidd eru laun af fyrrgreindum liðum verði boðið starf hjá Lýðheilsustöð, en auk þess er gert ráð fyrir að skipaður verði forstjóri og fjármálastjóri. Gert er ráð fyrir að samþykkt frumvarpsins auki útgjöld ríkissjóðs varanlega um 18 m. kr. á ári.


Virðulegi forseti.


Fullyrða má að heilbrigðisþjónusta á Íslandi sé almennt góð, en rétt er að leggja áherslu á að hlutverk heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna er ekki aðeins að veita þjónustu þegar eftir henni er leitað, heldur er hlutverk þeirra miklu víðtækara. Þó við berum öll fyrst og síðast ábyrgð á eigin heilsu er ljóst að nær allar samfélagslegar ákvarðanir og stjórnvaldsaðgerðir hafa bein eða óbein áhrif á líf og heilbrigði þegnanna. Menn hafa spurt sem svo hvort það góða starf sem landlæknisembættið, heilsugæslustöðvar, félagasamtök og nefndir og ráð á sviði forvarna hafa unnið á sviði heilsueflingar og forvarna sé ekki fullnægjandi, hvort ekki væri nægilegt að styrkja þá aðila. Það má til sanns vegar færa, en hitt er einnig ljóst að með aukinni samhæfingu má efla þetta starf enn frekar til bættrar heilsu landsmanna.

Lýðheilsustarf er í eðli sínu teymisvinna fjölmargra aðila; sérfróðra jafnt sem leikmanna og sjálfboðaliða. Bestur árangur næst er saman fer skýr stefnumörkun og markmið, vandað val viðfangsefna, náið samráð og samstarf við þá sem starfa að forvörnum, jafnt opinberra sem einkaaðila, félagasamtök og fjölmiðla. Lýðheilsustöð er fyrst og fremst ætlað að vera frumkvöðull og samræmingarafl í þessari teymisvinnu.

Eins og fram hefur komið er helsta markmið heilbrigðisyfirvalda á hverjum tíma að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar og þar eru forvarnir einn mikilvægasti þátturinn. Ég tel að stofnun Lýðheilsustöðvar sé tvímælalaust mikilvægt framlag til að styrkja, samræma og efla það starf sem nú er unnið á sviði forvarna.

Ég leyfi mér því virðulegi forseti að leggja til að frumvarpinu verði vísað til 2. umræðu og háttvirtrar heilbrigðis- og trygginganefndar.

_____________
Talað orð gildir







Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta