Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Berglind Ásgeirsdóttir fylgir eftir stefnu ráðherra um alþjóðlega sérfræðinga

Berglind Ásgeirsdóttir - mynd

Berglind Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu til 6 mánaða og mun hún hafa starfsstöð í Reykjavík og á Akureyri. Berglind kemur til með að fylgja eftir stefnu ráðherra um alþjóðlega sérfræðinga en hún hefur víðtæka þekkingu á sviði innflytjendamála.

Berglind starfaði sem ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu frá 1988 til 2002. Árið 2002 tók hún við stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) þar sem vinna sneri m.a. að innflytjendamálum. Berglind var ráðuneytisstjóri heilbrigðisráðuneytisins frá 2007-2010 og 2011-2016 gegndi hún embætti sendiherra Íslands í Frakklandi, Ítalíu, Spáni og norður Afríku og þar á eftir til ársins 2020 embætti sendiherra Íslands í Rússlandi. Berglind gerði nýverið rannsóknir og samdi í kjölfarið skýrslusem ber heitið Nýr mannauður og fjallar um nýja sýn á innflytjendastefnu með áherslu á tengslum málaflokksins við aukna nýsköpun og fjölgun starfa í hugverkageiranum hér á landi, einkum þegar kemur að útflutningi afurða. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, stóð í liðinni viku fyrir vinnustofu um stöðu alþjóðlega sérfræðinga á Íslandi og hvar tækifæri liggja til að gera betur í þeim málum. Í kjölfar vinnustofunnar liggja fyrir áherslumál sem ber að setja í forgang nú þegar aðgerðir til að liðka fyrir komu alþjóðlegra sérfræðinga til Íslands hefjast, en fyrr í haust voru fjórar aðgerðir kynntar fyrir ríkisstjórn sem Berglind mun fylgja eftir á næstu mánuðum:

  1. Markviss og hröð afgreiðsla atvinnuleyfa fyrir sérhæfð störf á sviði hugverkaiðnaðar svo hægt sé að gefa skilgreint þjónustuloforð um afgreiðslu umsókna.
  2. Einfalt og auðskilið upplýsinga- og umsóknarkerfi gert aðgengilegt í samvinnu við viðeigandi stofnanir þar sem allar upplýsingar eru á einum stað til að hraða afgreiðslu þeirra sem ekki falla undir flokk sérhæfðra starfa á sviði hugverkaiðnaðar.
  3. Íslenskir háskólar verði efldir á markvissan hátt og gerðir að eftirsóknarverðum kosti fyrir bæði íslenska og erlenda námsmenn. Þá verði framboð á námsgreinum sem kenndar eru á ensku aukið og nemendur utan EES fái þriggja ára dvalar- og atvinnuleyfi í kjölfar útskriftar til a halda sérhæfðri þekkingu þeirra í landinu. 
  4. Alþjóðlegum sérfræðingum verði gert auðveldara að stunda fjarvinnu á Íslandi. 
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta