Hoppa yfir valmynd
7. júní 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 267/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. júní 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 267/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050021

 

Beiðni [...] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 6. mars 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. janúar 2018, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Íraks (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Belgíu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. mars 2018. Kærandi óskaði eftir frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar þann 19. mars 2018. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd þann 31. mars 2018.

Þann 8. maí 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins með beiðni þess efnis. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann sama dag. Þá bárust myndir af kæranda þann 11. maí, læknisvottorð þann 23. maí 2018, bráðamóttökuskrár frá bráðadeild Landspítalans þann 25. maí 2018 og lögregluskýrsla ásamt dagbókarfærslum frá lögreglu þann 28. maí 2018. Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi óskar eftir endurupptöku á máli sínu hjá kærunefnd á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem að íþyngjandi ákvörðun í máli hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin. Kærandi byggir á því að andlegri heilsu hans hafi hrakað mikið. Kærandi hafi átt að vera fluttur úr landi þann 3. maí 2018 og hafi honum verið tilkynnt um það þann 2. maí sl. Lögreglan hafi síðan verið kölluð að heimili hans þann 2. maí þar sem kærandi hafi skaðað sjálfan sig víðsvegar um líkamann og verið fluttur með skyndi á bráðamóttöku Landspítalans. Á þeim tímapunkti hafi andleg heilsa hans verið metin slæm en hann ekki talinn í lífshættu vegna skurðanna. Kærandi hafi í kjölfarið neitað frekari heilbrigðisþjónustu. Kærandi greindi frá því í viðtali við talsmann sinn að hann óttist smyglara í Belgíu sem hafi hótað honum og kvaðst hann m.a. ætla að bíða eftir kæranda á flugvellinum. Kærandi kvaðst jafnframt ekki hafa sofið í fjóra sólarhringa samfellt, óskaði eftir aðstoð og væri illa áttaður. Þá ítrekaði kærandi að hann hygðist taka sitt eigið líf og spurði margra spurninga um framkvæmd líkflutnings til heimaríkis. Kærandi hafi í kjölfarið verið fluttur á geðdeild.

Í læknisvottorði dags. 22. maí 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi verið lagður inn á geðdeild í tvígang vegna sjálfsvígshættu. Ástand kæranda var metið svo að um væri að ræða bráða streitusvörun vegna alvarlegrar lífskrísu sem hafi valdið svefnleysi, kvíða, depurðareinkennum og vonleysi vegna aðstæðna. Einnig kemur fram það mat læknis að kærandi sé í töluvert aukinni sjálfsvígshættu af þessum sökum finni hann ekki málum sínum farsælan farveg. Í bráðamóttökuskrá dags. 2. maí 2018, kemur m.a. fram að kærandi hafi gengið berserksgang, skorið sjálfan sig með rakvélablaði og glerbroti á ýmsum stöðum. Í vottorðinu kemur fram að engin meiriháttar blæðing hafi verið frá skurðunum en að þeir hafi verið saumaðir. Að svo búnu hafi kærandi farið með lögreglu. Þá kemur fram í bráðamóttökuskrá dags. 16. maí 2018, að kærandi hafi verið lagður inn á geðdeild vegna þunglyndis/sjálfsvígshugsana. Í lögregluskýrslu dags. 3. maí 2018 ásamt dagbókarfærslum dags. 2. maí og 16. maí 2018, koma m.a. fram yfirlitsmyndir þegar lögreglan kom að kæranda ásamt frásögn sambýlismanna hans af aðstæðum.       

Kærandi byggir á því að taka eigi umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga með vísan til þess að andlegri heilsu hans hafi hrakað undanfarna mánuði. Vísar kærandi m.a. til úrskurðar kærunefndar frá 11. júlí 2017, nr. 410/2017, sem renni stoðum undir þann skilning að löggjafinn hafi með breytingarlögum nr. 115/2010 og lögum um útlendinga nr. 80/2016 verið að víkka til muna gildissvið núgildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Að lokum gagnrýnir kærandi gildistöku reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga, nr. 540/2017 og bendir á að hún eigi sér ekki nægilega stoð í lögum um útlendinga þar sem hún gangi þvert á markmið þeirra og vilja löggjafans um hvað felist í sérstökum ástæðum, sérstaklega er varðar heilbrigðiástæður. Meðal þeirra atvika sem beri að líta til sérstaklega séu áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar kæranda og þurfi því að fara fram heildstætt einstaklingsbundið mat með hliðsjón af atvikum máls. Þá gerir kærandi kröfu um að réttahrifum ákvörðunar kærunefndar verði frestað á meðan málið sé til meðferðar á ný hjá nefndinni með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærandi hefur lagt fram ný gögn í málinu, þ.e. myndir af framangreindum áverkum sem hann veitti sjálfum sér, læknisvottorð dags. 22. maí 2018, bráðamóttökuskrár, dags. 2. og 16. maí 2018 og þá bárust dagbókafærslur frá lögreglu dags. 2. og 16. maí 2018 ásamt lögregluskýrslu dags. 3. maí s.á.  

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 6. mars 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Belgíu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar og kærunefndar var kærandi metinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, með tilliti til atvika málsins. Við meðferð máls hjá kærunefnd hafði kærandi greint frá því að hann væri ekki við góða andlega heilsu, hann kvaðst m.a. vera andlega þreyttur, hræddur og sofa illa. Þá lá fyrir að kærandi hafði verið greindur með áfallastreituröskun. Samkvæmt framansögðu lágu fyrir gögn varðandi andlega heilsu kæranda þegar kærunefnd úrskurðaði í máli hans og var byggt á því við meðferð málsins að andleg heilsa hans væri bágborin. Þá var í úrskurði kærunefndar farið yfir heilbrigðisþjónustu í viðtökuríki, Belgíu, þar sem nefndin komst m.a. að þeirri niðurstöðu að hann geti leitar sé fullægjandi heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi, m.t.t. andlegra veikinda hans. Í læknisvottorði dags. 22. maí 2018, sem kærandi hefur nú lagt fram með beiðni sinni um endurupptöku kemur m.a.fram ekki séu vísbendingar um undirliggjandi alvarlegan geðsjúkdóm hjá kæranda en að athafnir hans hafi verið vegna bráðrar streitusvörunar vegna mjög alvarlegrar lífskrísu. Í máli þessu liggur fyrir að kærandi hefur verið fluttur úr landi. Í ljósi alls framangreinds telur kærunefnd að þrátt fyrir að andlegt ástand kæranda hafi tekið breytingum í tengslum við fyrirhugaðan flutning hans úr landi sé ekki hægt að fallast á að atvik máls hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 6. mars 2018 var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Við þetta mat hefur kærunefnd einnig litið til 4. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 276/2018, en ekki er fallist á þá málsástæðu kæranda að reglugerðina skorti lagastoð að þessu leyti.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd bar kærandi einnig fyrir sig þá málsæstæðu að hann hafi orðið fyrir hótunum frá smyglara í Belgíu og því sé lífi hans ógnað. Í úrskurði kærunefndar frá 6. mars 2018 komst nefndin m.a. að þeirri niðurstöðu að kærandi geti leitað ásjár yfirvalda í Belgíu óttist hann að á honum verði brotið. Telur kærunefnd að ekki standi efni til þess að breyta fyrri afstöðu um þetta efni.

Það er því niðurstaða kærunefndar að framangreind atriði varðandi kæranda leiði ekki til þess að ástæða sé til að fallast á endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 6. mars 2018, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson                                                              Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta