Úrskurður vegna stjórnsýslukæru - ákvörðun tollstjóra um niðurfellingu eða lækkun á dráttarvöxtum vegna skuldar dánarbús.
[…]
[…]
[…]
Reykjavík 27. október 2015
Tilv.: FJR15080053/16.2.2
Efni: Úrskurður ráðuneytisins vegna kæru [A], kt. […], vegna db. [B], kt. […]
Hinn 24. ágúst 2015 barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra [A], kt. […], vegna dánarbús [B], kt. […]. Kærð er ákvörðun tollstjóra dags. 10. júní 2015 um að hafna beiðni um niðurfellingu eða lækkun á dráttarvöxtum vegna skuldar dánarbúsins. Þá óskar kærandi þess til vara að ráðherra beiti heimild sinni í 1. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, til að fella niður eða lækka vextina.
Málavextir og málsástæður:
Þann 5. nóvember 2013 lagði ríkisskattstjóri á tekjuskatt og útsvar vegna endurálagningar opinberra gjalda fyrir árin 2009 og 2010 hjá kæranda og [B] konu hans, sem lést hinn 20. mars 2014, samtals með álagi 6.986.304 kr. eða 3.493.152 kr. hjá hvoru um sig. Kærandi kærði úrskurð ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar og óskaði eftir fresti á innheimtuaðgerðum hjá Tollstjóra þar til úrskurður nefndarinnar lægi fyrir. Greiðsluáætlun var gerð um gjöldin sem gilti þar til úrskurður yfirskattanefndar lá fyrir í september 2014, sem staðfesti úrskurð ríkisskattstjóra. Í kjölfarið greiddi kærandi skattskuld sína en ekki skuld dánarbúsins.
Kærandi telur að staðið hafi verið með röngum hætti að því að birta honum kröfu á hendur dánarbúi [B] sem hann var í forsvari fyrir. Þannig hafi fyrsta tilkynning sem honum barst um kröfuna af hálfu Tollstjóra verið með bréfi dagsettu 12. maí 2015 og þá voru áfallnir dráttavextir orðnir 678.264 kr. Hann hefði hins vegar séð kröfu í heimabanka sínum frá Tollstjóra í kjölfar úrskurðar yfirskattanefndar í september 2014 sem hann greiddi. Hann taldi þá að þar sem hann hafi einungis séð helming kröfunnar í heimabanka sínum hefði krafa á hendur eiginkonu hans heitinni sennilega verið felld niður enda þá um hálft ár liðið frá andláti hennar. Hann sat þá í óskiptu búi.
Tilkynning um gjaldfallna skuld dánarbúsins var send kæranda dags. 12. maí 2015 og nam hún þá 4.183.240 kr., með fyrrnefndum dráttarvöxtum. Með bréfi dags. 4. júní 2015 óskaði kærandi eftir því að vextirnir yrðu felldir niður en til vara að þeir yrðu lækkaðir. Með bréfi frá Tollstjóra dags. 10. júní 2015 var erindi kæranda synjað með vísan til ábyrgðar hans á skuldum dánarbúsins skv. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Samkvæmt upplýsingum frá embætti Tollstjóra var krafan að fullu greidd þann 28. júlí 2015 en áður hafði farið fram skuldajöfnuður í álagningu ársins 2015 að fjárhæð 340.405 kr. sem kom til frádráttar. Eftirstöðvar, sem greiddar voru þann 28. júlí 2015, voru því 3.936.298 kr.
Í kæru kemur fram það álit kæranda að Tollstjóri hefði með réttu átt að beina kröfunni á dánarbúið til sín. Hann telur að stjórnsýsla Tollstjóra hafi verið bæði misvísandi og óviðunandi vegna andlátsins.
Umsögn tollstjóra:
Ráðuneytinu barst umsögn tollstjóra þann 30. september 2015. Í henni kemur fram að umrædd krafa bar dráttarvexti frá þeim tíma sem hún var lögð á af ríkisskattstjóra hinn 5. nóvember 2013, sbr. 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Kæra til yfirskattefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 1. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003. Því bar krafa dánarbúsins dráttarvexti á meðan hún var til meðferðar hjá nefndinni.
Þá segir í umsögn tollstjóra að verklag embættisins varðandi skuldir dánarbúa sé með þeim hætti að innheimtubréf séu ekki send á heimilisföng dánarbúa. Innheimtu skuldar dánarbúsins var frestað með gerð greiðsluáætlunar sem gilti til 14. september 2014. Ef skuld dánarbús sem ekki hefur verið samið sérstaklega um með slíkum hætti og ekki er greidd innan ákveðins tíma fer fram vinna við að afla vottorðs um framvindu skipta frá sýslumanni í því skyni að fá upplýsingar um hver beri ábyrgð á greiðslu skuldar dánarbúsins. Í kjölfarið væri ábyrgðarmönnum send tilkynning um gjaldfallna skuld og í tilviki kæranda var honum send tilkynning þann 20. maí 2015. Tollstjóri fellst því ekki á það sjónarmið kæranda að staðið hafi verið að því með röngum hætti að birta honum kröfu á hendur dánarbúinu með því að birta hana ekki í heimabanka kæranda.
Tollstjóri telur að ljóst hafi verið af öllum atvikum málsins að kærandi hafi verið upplýstur um tilurð skuldar dánarbúsins allt frá álagningu hennar. Honum hafi mátt vera ljóst að sú skuld sem um er deilt var enn til staðar og hefði í ljósi ábyrgðar sinnar átt að hafa frumkvæði að því að leita upplýsinga um hana hjá innheimtumanni ríkissjóðs. Þá vísar tollstjóri til óbirts álits umboðsmanns Alþingis, nr. 5068/2007, þar sem tekið er fram að ætla megi gjaldanda að hafa ákveðið frumkvæði að því að fylgjast með niðurstöðu álagningar opinberra gjalda og afla sér upplýsinga um hana ef hann telur ástæðu til að ætla að álagningin hafi leitt til greiðsluskyldu af hans hálfu og hann vilji komast hjá vanefndaafleiðingum.
Tollstjóri telur með vísan til framangreinds að stjórnsýsla í málinu hafi verið í samræmi við lög og reglur. Kærandi beri hallann af því að hafa ekki gætt að frumkvæðisskyldu sinni varðandi skuld dánarbúsins og dráttarvextir hafi þannig reiknast á kröfuna líkt og raun beri vitni. Ekki séu til staðar heimildir í lögum sem veita undanþágur frá lögákveðnum dráttarvöxtum. Það sé því niðurstaða embættisins að staðfesta beri ákvörðun tollstjóra dags. 10. júní 2015.
Forsendur og niðurstaða:
Í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, kemur fram að sé skattur ekki greiddur innan mánaðar frá gjalddaga skuli greiða ríkissjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er. Samkvæmt 1. mgr. 113. gr. sömu laga hefur áfrýjun skattákvörðunar ekki frestandi áhrif á eindaga tekjuskatts.
Samkvæmt 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962, hefur maki, sem situr í óskiptu búi, eignarráð yfir fjármunum búsins og ber ábyrgð á skuldum hins látna líkt og um hans eigin skuldir væri að ræða.
Ráðuneytið bendir í þessu sambandi á að í óbirtu áliti umboðsmanns nr. 5068/2007 kemur fram að ætla megi gjaldanda að hafa ákveðið frumkvæði að því að fylgjast með niðurstöðu álagningar opinberra gjalda og afla sér upplýsinga um hana ef hann telur ástæðu til að ætla að álagningin hafi leitt til geiðsluskyldu af hans hálfu og hann vill komast hjá vanefndaafleiðingum. Af þessum orðum umboðsmanns sem og málavaxtalýsingu má ráða að kærandi hefði mátt vita eftir niðurstöðu yfirskattanefndar að til staðar væri skuld í dánarbúinu eftir sem áður, allt frá úrskurði ríkisskattstjóra þann 5. nóvember 2013.
Til vara biðlar kærandi til ráðherra um að hann beiti heimild sinni í 1. mgr. 113. gr. laga. nr. 90/2003, um tekjuskatt, til að fella niður eða lækka vextina. Nefnt lagaákvæði á hins vegar aðeins við um frestun eindaga tekjuskatts í því tilviki að skattaðila áfrýjar skattákvörðun eða þegar uppi er deila um skattskyldu. Það felur því ekki í sér heimild fyrir ráðherra til þess að fella niður eða lækka vexti af skattskuld.
Þar sem enga heimild er að finna í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, til að fella niður eða lækka dráttarvexti af opinberum gjöldum, sem og með vísan til jafnræðissjónarmiða, hafnar ráðuneytið kröfum yðar um niðurfellingu dráttarvaxta.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Tollstjóra dags. 10. júní 2015, um að hafna beiðni um niðurfellingu eða lækkun á dráttarvöxtum vegna skuldar dánarbúsins, er staðfest.
Fyrir hönd ráðherra