Ný stjórn Bjargráðasjóðs skipuð
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur skipað nýja stjórn Bjargráðasjóðs til fjögurra næstu ára.
Hina nýju stjórn skipa:
- Jóna Björg Hlöðversdóttir, formaður, bóndi, Björgum, Þingeyjarsveit
- Jóhannes Sigfússon, bóndi, Gunnarsstöðum, Svalbarðshreppi
- Guðrún Eik Skúladóttir, bóndi, Tannstaðabakka, Húnaþingi vestra
Bjargráðasjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Sjóðnum er ætlað að bæta tjón í landbúnaði af völdum náttúruhamfara sem ekki fæst bætt annars staðar. Dæmi um verkefni sjóðsins er stuðningur vegna kal- og girðingatjóna eftir veturinn 2019-20, og flóða og skriðufalla líkt og þeirra sem urðu í Út-Kinn í Þingeyjarsýslu í fyrra. Saga Bjargráðasjóðs spannar rúmlega öld og hefur sjóðurinn skipað þýðingarmikið hlutverk við að hjálpa bændum að takast á við tjón sem oft eru ekki tryggjanleg. Náttúruhamfaratrygging Íslands annast rekstur og umsýslu sjóðsins.
Starfshópur á vegum matvælaráðuneytisins vann nýverið úttekt á tryggingamálum bænda. Í hópnum áttu sæti fulltrúar matvæla- og fjármálaráðuneyta, Bændasamtaka Íslands, Bjargráðasjóðs, Náttúruhamfaratryggingar Íslands og samtaka fjármálafyrirtækja fyrir hönd tryggingafélaga. Skýrsla og tillögur hópsins liggja nú fyrir og leggur hópurinn m.a. til að lög um Bjargráðasjóð verði endurskoðuð. Ný stjórn sjóðsins mun vinna úr ákvörðunum matvælaráðherra þegar þær liggja fyrir.