Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                             

Miðvikudaginn 20. ágúst 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 36/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Vestmannaeyjabæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 20. júní 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 3. júní 2014, að fella niður greiðslu húsaleigubóta til hennar.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 16. janúar 2014, sótti kærandi um húsaleigubætur hjá Vestmannaeyjabæ vegna íbúðarhúsnæðis að B í Vestmannaeyjum og var umsókn kæranda samþykkt. Með bréfi, dags. 3. júní 2014, var kæranda tilkynnt um niðurfellingu á greiðslu húsaleigubóta til hennar á þeirri forsendu að hún hafi fært lögheimili sitt.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með kæru, dags. 20. júní 2014. Með bréfi, dags. 24. júní 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Vestmannaeyjabæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Vestmannaeyjabæjar barst með bréfi, dags. 30. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. júlí 2014, var greinargerð sveitarfélagsins send kæranda til kynningar og henni gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi ákveðið að flytja í annað sveitarfélag í júlí 2014 vegna vinnu og hafi sótt um leikskóla fyrir börnin sín í því sveitarfélagi. Hún hafi þurft að flytja lögheimili sitt vegna umsóknar um leikskóla en hafi verið áfram búsett í Vestmannaeyjum.

III. Sjónarmið Vestmannaeyjabæjar

Í greinargerð sveitarfélagsins er greint frá því að kærandi hafi fært lögheimili sitt í annað sveitarfélag og því hafi húsaleigubætur hennar fallið niður, sbr. 4. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Vestmannaeyjabæ hafi verið heimilt að fella niður greiðslu húsaleigubóta til kæranda.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um húsaleigubætur skulu sveitarfélög greiða húsaleigubætur og annast félagsmálanefndir sveitarfélaga að jafnaði afgreiðslu umsókna. Í 4. gr. laganna er fjallað um rétt til húsaleigubóta. Þar segir í 1. mgr. að þeir leigjendur eigi rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili. Í 2. mgr. er síðan kveðið á um undanþágu frá þeirri reglu en þar segir að dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur geti viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð. Þá segir í 3. mgr. að sveitarfélagi sé heimilt að greiða húsaleigubætur til leigjanda sem búa þarf tímabundið í öðru sveitarfélagi vegna veikinda.

Kærandi fékk greiddar húsaleigubætur frá Vestmannaeyjabæ vegna íbúðarhúsnæðis að B í Vestmannaeyjum þar sem hún var með skráð lögheimili. Kærandi hefur greint frá því að hún hafi flutt lögheimili sitt að C en hafi verið áfram búsett í Vestmannaeyjum. Hún hafi ákveðið að flytja vegna vinnu en hafi þurft að flytja lögheimili sitt fyrr vegna umsóknar um leikskóla fyrir börnin sín. 

Í 15. gr. laga um húsaleigubætur er gerð grein fyrir þeim tilvikum sem leitt geta til brottfalls bótaréttar. Segir þar meðal annars í 1. mgr. að réttur til húsaleigubóta falli niður ef skilyrðum laga um húsaleigubætur sé ekki lengur fullnægt. Þar sem kærandi flutti lögheimili sitt úr því íbúðarhúsnæði sem hún leigði uppfyllti hún ekki lengur skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur. Þá hefur kærandi ekki sýnt fram á að hún uppfylli skilyrði 2. og 3. mgr. 4. gr. laganna.

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Vestmannaeyjabæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 3. júní 2014, um að fella niður greiðslu húsaleigubóta til A er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta