Hoppa yfir valmynd
3. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                            

Miðvikudaginn 3. september 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 23/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Kópavogsbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 25. apríl 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála afgreiðslu Kópavogsbæjar, dags. 29. janúar 2014 og 9. apríl 2014, á umsóknum hennar um fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um framfærslustyrk og sérstaka aðstoð vegna barna fyrir janúar 2014 hjá Kópavogsbæ með tveimur umsóknum, dags. 27. janúar 2014. Með bréfi, dags. 29. janúar 2014, var kæranda tilkynnt að Kópavogsbær hefði samþykkt að veita henni 80% af fullum framfærslustyrk samkvæmt 15. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð fyrir desember 2013 og janúar 2014 en synjað um styrk til greiðslu leikskóla, skólamáltíða og dægradvalar þar sem umsóknin félli ekki að skilyrðum 31. gr. reglnanna. Með umsókn, dags. 2. apríl 2014, sótti kærandi um framfærslustyrk fyrir mars 2014. Með bréfi, dags. 9. apríl 2014, var kæranda tilkynnt að Kópavogsbær hefði samþykkt að veita henni hálfan framfærslustyrk samkvæmt 15. gr. reglnanna að frádregnum mæðralaunum. Í gögnum málsins liggja einnig fyrir umsóknir kæranda, dags. 30. apríl 2014 og 20. maí 2014, um framfærslustyrk fyrir apríl og maí 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 25. apríl 2014. Með bréfi, dags. 29. apríl 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Kópavogsbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi, dags. 20. júní 2014, var beiðni úrskurðarnefndarinnar ítrekuð. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 27. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. júlí 2014, var bréf Kópavogsbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið skertar greiðslur frá Kópavogsbæ þar sem hún sýni ekki fram á að hún greiði húsaleigu. Hún sé einstæð móðir með fimm börn á sínu framfæri og búi í húsnæði sem sé í eigu barnsföður hennar. Hún hafi skilið við hann seint á árinu 2013, hann hafi flutt úr húsnæðinu en hún og börnin hafi verið þar áfram. Hún sé með úrskurð frá sýslumanni um að meðlagsgreiðslur séu þeirra á milli en ekki með milligöngu kerfisins. Vegna aðstæðna hjá barnsföður hennar hafi þau gert samkomulag um að hún og börnin séu í húsnæði hans og hann greiði ekki meðlag á meðan, þess vegna sé hún ekki með húsaleigusamning. Kærandi telur að hún eigi rétt á grunnframfærslu frá sínu sveitarfélagi en hún þurfi einungis á aðstoð að halda þar til hún komist aftur út á vinnumarkaðinn þegar tvö yngstu börnin hennar byrji í leikskóla.   

III. Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að á teymisfundi þann 29. janúar 2014 hafi verið samþykkt að veita kæranda 80% af fullum framfærslustyrk fyrir desember 2013 og janúar 2014 og þá hafi verið tekið sérstakt tillit til þess að útgjöld vegna jólahalds hafi verið íþyngjandi fyrir kæranda. Hins vegar hafi verið synjað um styrk til greiðslu leikskóla, skólamáltíða og dægradvalar samkvæmt 31. gr. reglna sveitarfélagsins þar sem kærandi hafi verið yfir tekjumörkum ákvæðisins. Á teymisfundi þann 9. apríl 2014 hafi verið samþykkt að greiða kæranda hálfan framfærslustyrk þar sem hún bæri ekki kostnað vegna húsnæðis en mæðralaun séu dregin frá styrknum.

Samkvæmt 15. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð sé við ákvörðun framfærslustyrks haft til viðmiðunar útgjöld vegna daglegs heimilishalds. Þeir einstaklingar sem sannarlega reki eigið heimili fái fulla fjárhagsaðstoð en aðstoð til þeirra sem deili húsnæði eða séu án þinglýsts húsaleigusamnings sé skert. Kærandi greiði ekki húsaleigu og búi endurgjaldslaust í fasteign sem sé í eigu barnsföður hennar. Kærandi eigi því ekki rétt á fullri fjárhagsaðstoð, sbr. 15. gr. reglna sveitarfélagsins. Fjárhæð fjárhagsaðstoðar sé óháð því hvort barn búi á heimilinu. Þá komi til frádráttar allar tekjur umsækjanda, þar með talin mæðralaun, sbr. 17. gr. reglnanna.

Kópavogsbær vísar til þess að reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð byggi á leið b í greinargerð með leiðbeiningum velferðarráðuneytisins til sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð. Leið b feli í sér að við mat á fjárþörf sé ekki tekið tillit til framfærslu barna og greiðslur sem einstaklingur þiggi með börnum, svo sem meðlag eða greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, séu ekki taldar til tekna.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð frá 30. desember 2003, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Kópavogsbæ hafi borið að greiða kæranda fulla fjárhagsaðstoð.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um framfærslustyrk og sérstaka aðstoð vegna barna á grundvelli 15. og 30. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Umsókn kæranda um sérstaka aðstoð vegna barna var synjað á þeirri forsendu að hún væri yfir tekjumörkum samkvæmt 30. gr. reglnanna.   

Í 30. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð er fjallað um sérstaka aðstoð til foreldra vegna barna á þeirra framfæri. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að ef ljóst þyki að stuðningur við börn sé nauðsynlegur vegna alvarlegra greiðsluerfiðleika foreldra sé heimilt að víkja frá skilyrðum um grunntekjur og veita foreldrum barna aðstoð til greiðslu eftirfarandi:

a. Daggæslu barna í heimahúsum.

b. Leikskólagjalda.

c. Skólamáltíða.

d. Dægradvalar í skóla.

e. Áframhaldandi tómstundaiðkunar barna.

f. Skólagjalda og bókakostnaðar í framhaldsskóla.

Í 2. mgr. 30. gr. reglnanna kemur fram að heildartekjur heimilis megi að hámarki nema 268.000 krónum á mánuði. Með heildartekjum samkvæmt 30. gr. reglnanna er átt við launatekjur, bótagreiðslur, lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr lífeyrissjóðum, atvinnuleysisbætur, leigutekjur, mæðra- og feðralaun og menntunarlífeyri, meðlög og barnabætur. Í greinargerð félagsráðgjafa, dags. 29. janúar 2014, er að finna upplýsingar um tekjur og útgjöld kæranda. Samkvæmt þeim voru mánaðartekjur kæranda samtals að fjárhæð 424.535 krónur. Í greinargerð félagsráðgjafa, dags. 9. apríl 2014, voru mánaðartekjur kæranda tilgreindar 302.055 krónur. Að því virtu er ljóst að kærandi var yfir tekjumörkum samkvæmt 30. gr. reglnanna og er það mat úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ hafi verið rétt að synja umsókn kæranda um sérstaka aðstoð vegna barna.    

Umsóknir kæranda um framfærslustyrk voru samþykktar með þeim hætti að hún fékk skerta fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ á þeirri forsendu að hún bæri ekki kostnað vegna húsnæðis. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð tekur framfærslugrunnur mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og miðast við grunnfjárhæð 153.100 krónur. Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem sannanlega reka eigið heimili er 1,0 eða 153.100 krónur, sbr. 1. lið 1. mgr. 15. gr. reglnanna. Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem búa hjá öðrum og deila sannanlega kostnaði af húsnæði er 0,5 eða 76.550 krónur, sbr. 2. lið 1. mgr. 15. gr. reglnanna. Framfærslugrunnur einstaklinga 18 ára og eldri sem leigja húsnæði án þinglýsts leigusamnings og sannanlega sýna fram á húsnæðiskostnað sem og þeirra sem ekki hafa aðgang að húsnæði er 0,8 eða 122.480 krónur, sbr. 3. lið 1. mgr. 15. gr. reglnanna. Fyrir liggur að kærandi býr endurgjaldslaust í húsnæði í eigu barnsföður hennar og að mati úrskurðarnefndarinnar átti kærandi því rétt á hálfri grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 2. lið 1. mgr. 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Kópavogsbæ.  

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Kópavogsbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar á umsóknum A um framfærslustyrk og sérstaka aðstoð vegna barna er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta