Hoppa yfir valmynd
10. október 2024 Innviðaráðuneytið

Ársfundur Jöfnunarsjóðs: Grundvallarkerfi fyrir íslenskt samfélag

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra á ársfundi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. - mynd

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í gær og samhliða kom út ársskýrsla sjóðsins fyrir rekstrarárið 2023. Heildarframlög Jöfnunarsjóðs námu rúmlega 79 milljörðum króna árið 2023. Framlög vegna málefna fatlaðra námu um 32,5 milljörðum kr. en næst á eftir komu framlög vegna grunnskóla sem námu 17,6 milljörðum kr.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra sagði í ávarpi á ársfundinum að „Jöfnunarsjóður væri eitt af grundvallarkerfum í íslensku samfélagi sem hafi mikil áhrif á alla íbúa landsins. Sjóðurinn útdeilir háum fjárhæðum til reksturs grunnskóla, vegna þjónustu við fatlað fólks að ógleymdu byggðahlutverki sjóðsins,“ sagði hún.

600 milljóna kr. framlag til Grindavíkurbæjar

Á fundinum kynnti ráðherra að ákveðið hafi verið að veita Grindavík sérstakt framlag að fjárhæð 600 milljónir kr. vegna fjárhagserfiðleika sveitarfélagsins. „Jöfnunarsjóður hefur mikilvægt hlutverk til þess að aðstoða sveitarfélög í vanda og slíkt er að raungerast nú um stundir. Grindavík var eitt best setta sveitarfélag landsins fyrir ári síðan. En eftir að rýma þurfti sveitarfélagið og hrun varð á tekjustofnum er fyrirsjáanlegt að það stefni í verulegar fjárhagsþrengingar á næsta ári. Stjórnvöld hafa reynt sitt besta að standa með Grindavík í miklum erfiðleikum sem samfélagið glímir við og þetta er eðlilegur hluti af því,“ sagði Svandís.

Ráðherra sagði í ávarpi sínu að sameining sveitarfélaga í öflugri einingar gefi möguleika á sérhæfðari stjórnsýslu og meiri gæðum. Það væri einfaldlega erfitt að ætla smáum sveitarfélögum sömu byrgðar og sveitarfélögum með tugþúsundir íbúa. Munurinn á milli stærstu og minnstu sveitarfélaga væri mikill á Íslandi. Starfsmenn stærsta sveitarfélagsins væru t.a.m. fleiri en samanlagður íbúafjöldi í 26 fámennustu sveitarfélögum landsins. Þegar þetta sé staðan blasi við að sveitarfélög hafi ólíka möguleika að halda uppi sömu þjónustu. „Mikilvægt er að styrkja enn frekar hvata sem stuðla að frekari sameiningu sveitarfélaga. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt að löggjafarþingið fái frumvarp til laga um breytingar á lögum um Jöfnunarsjóð til meðferðar í vetur til að gera þær breytingar sem við vitum að eru nauðsynlegar, til einföldunar og til þess að sjóðurinn virki vel við áskoranir nútímans,“ sagði Svandís.

Horfa beri á samgöngur og húsnæðismál í samhengi

Svandís fjallaði einnig um samgöngur og húsnæðismál og telur fullt tilefni til þess að horfa á þau mál í víðara samhengi. „Ég tel koma til greina að gera samgöngu- og húsnæðissáttmála við stærri svæði, við Vesturland, við Norðurland o.s.frv. Það er styrkur af því að hugsa húsnæðismál og samgöngur í sama vettvangi. Hvort tveggja eru mikilvægar forsendur byggðar. Á tímum þar sem að við erum sífellt að glíma við flóknari úrlausnarefni þá höfum við ekki efni á því að vinna hlutina aðskilið, dreifa kröftunum,“ sagði Svandís.

Sterk eiginfjárstaða

Guðni Geir Einarsson, forstöðumaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, fór yfir ársreikning sjóðsins fyrir árið 2023. Guðni Geir sagði sjóðinn standa sterkt þótt halli hafi orðið á rekstri síðasta árs vegna leiðréttinga á framlögum fyrir árið 2022. Eigið fé nam 594 milljónum kr. á efnahagsreikningi í lok árs 2023. Hann sagði stöðu Fasteignasjóðs Jöfnunarsjóðs mjög sterka en framlög úr sjóðnum hafa m.a. nýst til að styðja vel við átak í aðgengismálum fatlaðs fólks í samvinnu við ÖBÍ og landsátakið Römpum upp Ísland.

Framlög vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða

Guðni Geir sagði frá einnig nýju hlutverki Jöfnunarsjóðs við að greiða framlög til sveitarfélaga vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða en Alþingi samþykkti frumvarp þess efnis í sumar. Gjaldfrjálsar skólamáltíðir eru liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við langtímakjarasamninga á vinnumarkaði og leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks.

Árlegt framlag úr ríkissjóði bætist við tekjur Jöfnunarsjóðs á árunum 2024-2027 vegna verkefnisins. Gert er ráð fyrir að framlög fyrir heilt skólaár nemi 3.750 m.kr. en þau skiptast hlutfallslega eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum 1. janúar skólaárið á undan. Framlög vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða á árinu 2024, þ.e. frá ágúst til desember, nema 1.725 m.kr.

Starfshópur mun leggja mat á nýtingu og áhrif framlags gjaldfrjálsra skólamáltíða. Hann verður skipaður fulltrúa innviðaráðuneytisins, sem verður formaður, fulltrúa mennta- og barnamálaráðuneytisins og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta