Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 305/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 305/2019

Miðvikudaginn 13. nóvember 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 16. júlí 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. apríl 2019 á umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. X, vegna tjóns sem hann telur að rekja megi til þess að hann var greindur með P árið X án þess að hafa verið upplýstur um það. Hann var ekki upplýstur um að hann væri með sjúkdóminn fyrr en árið X. Í bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 16. apríl 2019, segir að atvikið falli undir f. lið 24. gr. þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993, en ekki komi til greiðslu bóta þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að atvikið hafi valdið varanlegu heilsutjóni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júlí 2019. Með bréfi, dags. X, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. X. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála felli úr gildi hina kærðu ákvörðun þess efnis að töf á viðeigandi meðferð hafi ekki valdið honum varanlegu líkamstjóni og feli Sjúkratryggingum Íslands að taka mál hans til nýrrar meðferðar hvað þetta atriði varði. Einnig gerir hann kröfu um að stofnuninni verði gert að greiða þann lögmannskostnað sem hlotist hafi af því að kæra ákvörðun hennar.

Í kæru segir að kærandi felli sig við þá afstöðu stofnunarinnar að tjónsatvikið sé greiðsluskylt samkvæmt ákvæði f. liðar 24. gr. þágildandi laga um almannatryggingar. Í nefndu ákvæði segir að slysatryggðir séu sjúklingar sem séu til meðferðar á sjúkrastofnunum sem starfi samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og heilsutjónið eða örorkan sé vegna læknisaðgerða eða mistaka starfsfólks sem starfi á þessum stofnunum. Í lögunum sé síðan að finna nánari útlistun á því hvernig reikna skuli fjárhæð bóta. Kærandi felli sig aftur á móti ekki við þá afstöðu stofnunarinnar að umrædd töf hafi ekki valdið honum varanlegu heilsutjóni og því skuli ekki koma til greiðslu bóta vegna sjúklingatryggingaratviksins.

Í grunninn séu atvik þau að kærandi hafi greinst með P þegar hann hafi verið í innlögn á C árið X. Honum hafi aftur á móti ekki verið sagt frá smitinu. Í X hafi hann gengist undir blóðrannsókn sem eðlilega hafi skilað þeirri niðurstöðu að hann væri sýktur af P. Fyrst hafi verið talið að smitið væri að rekja til blóðgjafar en við nánari athugun og í kjölfar bréfaskrifta lögmanns kæranda við Embætti landlæknis hafi komið í ljós að svo hafi ekki verið heldur hafi smitið átt sér lengri sögu.

Kærandi sé ósammála þeirri afstöðu Sjúkratrygginga Íslands sem byggi á áliti læknis um að hann hafi ekki orðið fyrir varanlegu heilsutjóni af völdum þeirra tafa sem hafi orðið á því að honum væri gert kunnugt um smitið og að rétt meðferð byrjaði.

Leggja verði til grundvallar að rétt meðferð hefði geta hafist árið X, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. X. Í því máli hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að árangursrík meðferð við P hafi komið fram á því ári. Því beri að hafna ályktun læknisins um að rétt meðferð hafi ekki getað hafist fyrr en sumarið X eða í byrjun árs X. Að mati kæranda verði að leggja til grundvallar í málinu, þrátt fyrir ábendingar nefnds læknis um að líklega hefði kæranda ekki verið ráðlögð sú meðferð sem fyrst hafi komið fram X í ljósi einkenna hans, að kærandi hefði byrjað þegar í meðferð X, enda sé ómögulegt að vita hvort hann hefði gert það eða ekki væri honum kunnugt um hið alvarlega smit og rétt að leyfa honum að njóta vafans í þeim efnum en ekki hinum greiðsluskylda aðila.

Í hinni kærðu ákvörðun sem og í sérfræðiálitinu sé talsvert gert úr fyrri og núverandi stoðkerfisvandamálum kæranda og því haldið fram að smitið hafi ekki haft áhrif á þau. Á þetta sé ekki hægt að fallast. Þegar skoðuð sé umfjöllun um P, til dæmis á heimasíðu Gigtarfélags Íslands, geti P orsakað stoðkerfisvandamál. Leggja verði til grundvallar að P hafi haft áhrif á stoðkerfisvandamál kæranda í gegnum árin svo einhverju nemi og að minnsta kosti séu meiri líkur til þess en minni. Í þessu samhengi verði að benda á að kærandi hafi margsinnis leitað til lækna vegna vandamála sinna hvort sem þeir tengist stoðkerfi hans eða almennum slappleika og óþægindum. Það verði að telja meiri líkur en minni á því að hluta þessara vandamála hans megi rekja til P. Allt að einu verði stofnunin að bera sönnunarbyrðina fyrir því að töfin hafi engin áhrif haft og þá sönnunarbyrði hafi stofnunin ekki axlað með framlagningu sérfræðiálits, enda taki allar ályktanir sem þar komi fram mið af sönnunarkröfum læknavísinda sem séu mjög strangar, öfugt við sönnunarkröfur lögfræðinnar í líkamstjónamálum sem aðeins áskilji meiri líkur en minni þegar komi að orsakatengslum tjónsatviks og afleiðinga. Af þessum sökum sé sönnunargagn um varanlegar afleiðingar sjúklingatryggingaratviksins í raun virt að vettugi í sérfræðiálitinu, auk þess sem stofnunin, sem annar aðili málsins, hafi aflað álitsins einhliða sem dragi enn frekar úr sönnunargildi matsins.

Í dag sé kærandi til skoðunar á Landspítala þar sem talið sé að hann glími við svokallaða T. Hann hafi aðeins fengið þau svör að þetta tengist P, en ekki fengið upplýsingar um hvort þetta standi í tengslum við það að hann hafi borið smitið eins lengi og raun beri vitni eða hvort þetta tengist alfarið lyfjameðferðinni sem hann hafi gengist undir eftir að honum hafi verið kunngert um smitið. Þetta atriði hafi ekki verið til lykta leitt og kunni að hafa áhrif á niðurstöðu þess hvort kærandi hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni af völdum þess að meðferð hafi ekki byrjað árið X eins og mögulegt hafi verið. Það liggi fyrir að kærandi verði til frekari uppvinnslu og meðferðar á Landspítala næstkomandi haust og á meðal þeirra lækna, sem komið hafi að máli hans, sé tiltekinn taugalæknir.

Nauðsynlegt sé að gera athugasemd við það sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun um að læknar á C hafi eflaust á árunum X, X og X ráðlagt kæranda að X fyrr en árið X. Eðli máls samkvæmt haldi læknar og heilbrigðisstarfsmenn, sem komi að X. Aftur á móti kunni sú ráðlagning og hvati fyrir sjúklinginn að vera annar og meiri sé hann upplýstur um að hann sé smitaður af P og því sé sérstaklega varhugavert fyrir viðkomandi, umfram aðra, að X. Kærandi verði að njóta vafans um hvaða þýðingu það hefði haft hefði honum verið kunngert um smitið þegar árið X og leggja til grundvallar að hann hefði hagað lífi sínu til samræmis við smitið þannig að það hefði sem minnst áhrif á lífsgæði hans og starfsgetu. Önnur nálgun sé hróplega ósanngjörn í hans garð.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir meðal annars að aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og leitað ráðgjafar sérfræðilæknis í lyflækningum og meltingarsjúkdómum við mat á heilsutjóni.

Umsóknin ásamt gögnum hennar hafi verið tekin til skoðunar hjá stofnuninni og niðurstaðan verið sú að atvikið félli undir ákvæði f. liðar 24. gr. þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Í ákvæðinu hafi verið felld undir slysatryggingakafla almannatryggingalaga atvik þar sem sjúklingar, sem hafi verið til meðferðar á sjúkrastofnunum sem hafi starfað samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, hafi orðið fyrir heilsutjóni eða örorku vegna læknisaðgerða eða mistaka starfsfólks sem hafi starfað á þessum stofnunum. Samkvæmt bréfi velferðarráðuneytisins, dags. X, hafi Sjúkrahúsið C fallið undir lög nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu.

Bætur úr slysatryggingu almannatrygginga séu sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur, sbr. 27.-40. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ekki hafi komið til greiðslu bóta þar sem af gögnum málsins hafi ekki verið sýnt fram á að atvikið hafi valdið varanlegu heilsutjóni.

Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að kærandi hafi gengist undir blóðrannsókn á Sjúkrahúsinu C árið X. Sýnið sé dagsett X og hafi reynst jákvætt fyrir P. Samkvæmt gögnum málsins hafi verið gerð rannsókn á smiti af völdum P vegna brenglaðra P og kæranda gerð grein fyrir því en hvergi komi fram í gögnum málsins með óyggjandi hætti að kæranda hafi verið gerð grein fyrir niðurstöðunni. Það hafi því verið mat stofnunarinnar að telja verði meiri líkur en minni á því að kærandi hafi ekki vitað af smitinu frá X til X þegar hann hafi verið greindur með P á Sjúkrahúsinu á D.

Varðandi niðurstöðu stofnunarinnar um að atvikið hafi ekki valdið varanlegi heilsutjóni sé vísað í fyrirliggjandi ákvörðun og ekki þyki því ástæða til að rekja þá umfjöllun hér.

Ekki sé að sjá að tilgreindur dómur Hæstaréttar hafi áhrif á mál þetta, enda hafi ekki fallið efnislegur dómur varðandi kröfu um miskabætur. Engin afstaða hafi þannig í raun verið tekin til þess hvenær meðferð hefði átt að hefjast en í umræddu máli hafi það verið niðurstaða héraðsdóms að engin árangursrík aðferð hefði verið til staðar árin X til X. Í sérfræðiáliti, sem stofnunin hafi aflað, sé farið yfir þau meðferðarúrræði sem hafi verið í boði á því tímabili sem um ræði og árangri meðferðanna lýst.

Eftir standi að niðurstaða stofnunarinnar sé sú að ekki sé hægt að rekja stoðkerfisvandamál kæranda til P þar sem veiran valdi fyrst og fremst skaða á lifrinni. Skipti þá í raun engu hvort miðað sé við að meðferð hafi byrjað X eða X. Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að stoðkerfisvandamál kæranda eigi sér lengri sögu og aðrar orsakir. P sé ekki þekktur orsakavaldur að útbreiddum stoðkerfisverkjum og lagist slíkir verkir ekki við meðhöndlun á P. Það sé skilyrði bóta að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns kæranda og þeirrar meðferðar sem hann hafi gengist undir. Af gögnum málsins sé ljóst að þetta orsakasamband sé ekki til staðar.

Niðurstaða stofnunarinnar sé því sú að ekki séu meiri líkur en minni á því að kærandi hafi hlotið tjón af umræddum töfum á veitingu upplýsinga um smit. Niðurstaðan byggi meðal annars á umræddu sérfræðiáliti og sé tekin á grunni þeirri kröfu um sönnun sem um mál þessi gildi. Ekki sé því litið til sönnunar samkvæmt kröfum læknavísindanna.

Komi í ljós að sjúkdómur sem kærandi búi nú við samkvæmt kæru, taugaendalömun, megi rekja til tafa á meðferð vegna sjúklingatryggingaratviksins sé hægt að senda gögn því til stuðnings til stofnunarinnar og yrði málið þá tekið upp að nýju.

Þá sé gerð krafa um greiðslu málskostnaðar sem hljótist af kæru til nefndarinnar. Í lögum um sjúklingatryggingu sé ekki að finna heimild til greiðslu lögmannsþóknunar og á umsóknareyðublöðum stofnunarinnar sé sérstaklega vakin athygli á því að kostnaður vegna lögmannsaðstoðar sé ekki greiddur. Í 15. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu komi fram að stofnunin afli gagna eftir því sem þurfa þyki. Að gagnaöflun lokinni taki stofnunin afstöðu til bótaskyldu og ákveði fjárhæð bóta. Telji umsækjandi að ákvörðun stofnunarinnar sé byggð á röngum forsendum og til séu gögn eða upplýsingar sem styðji það, sem ekki hafi legið fyrir við ákvörðun stofnunarinnar, sé hægt að óska eftir endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá geti umsækjandi kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála líkt og hann hafi nú gert. Starfsmönnum stofnunarinnar beri að veita umsækjendum leiðbeiningar um hvernig þeir óski eftir endurupptöku hjá stofnuninni eða sendi kærur til úrskurðarnefndarinnar.

Ítrekað sé að ekkert tjón hafi hlotist af og þá óháð því hvort kærandi hefði hagað lífi sínu til samræmis við smitið þannig að það hefði sem minnst áhrif á lífsgæði hans og starfsgetu, sbr. umfjöllun í kæru.

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar mat á afleiðingum atviks sem átti sér stað þegar tekið var blóðsýni úr kæranda árið X og reyndist sýnið jákvætt fyrir P en hann virðist ekki hafa verið upplýstur um þá niðurstöðu. Hann var síðar greindur aftur með P árið X og fékk í kjölfarið meðferð við sjúkdóminum og læknaðist af honum. Kærandi telur að varanlegar afleiðingar atviksins hafi verið vanmetnar í hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu tóku lögin gildi 1. janúar 2001 og taka til tjónsatvika sem verða eftir þann tíma. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum um sjúklingatryggingu segir að kröfur eða tilkynningar sem koma fram eftir 1. janúar 2001 vegna tjónsatvika sem áttu sér stað fyrir þann tíma skuli fara samkvæmt ákvæðum f. liðar 1. mgr. 24. gr. laga nr. 117/1993.

Samkvæmt niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands fellur umrætt atvik undir f. lið 24. gr. þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993 og er það óumdeilt í málinu. Í ákvæðinu sagði að slysatryggðir væru sjúklingar sem væru til meðferðar á sjúkrastofnunum sem störfuðu samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og heilsutjónið eða örorkan væri vegna læknisaðgerða eða mistaka starfsfólks sem störfuðu á þessum stofnunum.

Til skoðunar kemur hvort kærandi hafi orðið fyrir heilsutjóni eða örorku þar sem hann var ekki upplýstur um greiningu á P árið X.

Í umsókn kæranda um bætur segir um lýsingu á heilsutjóni hans vegna atviksins að meta þurfi hvaða áhrif það hafi haft að hann hafi ekki fengið meðhöndlun við smitinu þegar í kjölfar greiningar, og þá sérstaklega í ljósi þess að árangursrík meðferð var fyrir hendi X-X. Árangursrík meðferð hafi því ekki byrjað fyrr en 13-14 árum síðar en nauðsyn hafi verið. Meta þurfi áhrif þessa á heilsufar kæranda. Í lýsingu á afleiðingum atviksins segir í umsókninni að kærandi sé með útbreidda stoðkerfisverki. Einnig segir að til þess hæfur matsmaður verði að svara og skera úr um hverjar séu afleiðingar af P og þess að bera slíkt smit í 13-14 ár án meðhöndlunar.

Um mat á heilsutjóni segir í hinni kærðu ákvörðun:

„SÍ leituðu til […] sérfræðilæknis til að meta hvenær viðeigandi meðferð var fyrst tímabær í tilviki tjónþola. Þá óskuðu SÍ einnig eftir mati læknisins á heilsutjóni tjónþola sem hægt væri að rekja til tafa á meðferð við P. Í sérfræðiáliti, dags. X, kom m.a. fram að þegar smitið var fyrst greint árið X var engin meðferð til við P. Síðan segir:

Árið 1996 kemur I sem meðferð við P á markað. Lyfið var með miklar aukaverkanir og aðeins um 10% sjúklinga svöruðu lyfinu. Árið 1998 kemur F sem notað var með I með aðeins betri svörun. Bylting í meðferðinni verður svo árið 2001 þegar Z ásamt F kemur á markað og gefur um 50% svörun í heildina en um 70% svörun við arfgerð 3a sem er arfgerðin sem [tjónþoli] fær og læknar hann af veirunni árið X.

Læknirinn setur þann fyrirvara við framangreint að á þessum árum voru sjúklingar sem voru virkir í notkun fíkniefna og/eða áfengis ekki meðhöndlaðir. Það var gerð krafa um 6-12 mánaða edrúmennsku áður en talið var óhætt að hefja meðferð þar sem hún var með miklar aukaverkanir og talin áhættusöm þeim sem voru með virk vímuefnavandamál. Í gögnum málsins kemur fram að tjónþoli hafi farið í áfengismeðferð í byrjun árs X og telur læknirinn því ljóst að tjónþoli hefði í fyrsta lagi byrjað meðferð sumarið X eða líklega í byrjun árs X ef hann hefði vitað af sýkingunni. Síðan segir: „[Tjónþola] var vafalítið ráðlagt að halda sig frá X af læknum á C þegar hann fór í meðferð þar X, X og X en tekst ekki að verða X fyrr en X skv. gögnum.“

Með vísan í framangreint var það niðurstaða sérfræðiálitsins að það væri rétt að ræða um töf á mögulegri meðferð sem líkleg var til að lækna tjónþola frá X til X, eða samtals í átta og hálft ár. Læknirinn taldi ekki rétt að miða við árið X þegar I kom á markaðinn þar sem líkur við svörun við þeirri meðferð sem var þá í boði voru litlar að mati hans og þá taldi hann ólíklegt að tjónþola hefði verið ráðlögð meðferð á þeim tíma þar sem hann var ekki með bandvefsskemmdir. Í raun telur læknirinn að meðferð fyrir árið X hafi ekki komið til greina í tilviki tjónþola þar sem meðferðinni á þeim tíma var nánast einungis beitt hjá sjúklingum með marktæka bandvefsskemmd í L.

Læknirinn kemst að þeirri niðurstöðu í sérfræðiáliti sínu að tjónþoli hafi ekki hlotið neinn skaða af umræddri töf (8 og ½ ár) á viðeigandi meðferð við P og vísar hann því til staðfestingar til X frá X sem sýna enga bandvefsskemmd í lifrinni, en þó sést bólga. Síðan segir í sérfræðiálitinu:

Bandvefsskemmd (fibrosis) er skaðinn sem P veldur lifrinni og leiðir í mörgum sjúklingum með tímanum til S. Sumir sjúklingar geta gengið ævilangt með veiruna án þess að bandvefsskemmd myndist og virðist [tjónþoli] vera einn af þeim heppnu þar sem enginn bandvefsskemmd hefur myndast á þeim 18 árum sem hann hefur borið veiruna þegar sýnið er tekið. Talið er t.d. að um 30% þeirra sem X fái skorpulifur og margir af hinum þróa marktæka bandvefsskemmd. Bólgumyndun gengur til baka þegar veiran er meðhöndluð/upprætt með lyfjum og veldur ekki skaða.

Í áðurnefndu sérfræðiáliti kemur fram að ekki sé hægt að rekja stoðkerfisvandamál tjónþola til P, þar sem veiran veldur fyrst og fremst skaða á lifrinni. Samkvæmt gögnum málsins er hins vegar ljóst að stoðkerfisvandamál tjónþola á sér lengri sögu og aðrar orsakir, sbr. fyrri umfjöllun. P er ekki þekktur orsakavaldur að útbreiddum stoðkerfisverkjum og lagast slíkir verkir ekki við meðhöndlun á P. Það er skilyrði bóta að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns tjónþola og þeirrar meðferðar sem hann gekkst undir. Af gögnum málsins er ljóst að þetta orsakasamband er ekki til staðar í tilviki tjónþola.

Tjónþoli hóf viðeigandi meðferð í X og lauk meðferð í X. Samkvæmt gögnum málsins er tjónþoli nú læknaður af veirunni og því engin merki um varanlegan skaða. Það er því mat SÍ að tjónþoli varð fyrir tímabundnu heilsutjóni en þar sem atvikið átti sér stað í gildistíð þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er ekki heimild til að greiða bætur fyrir tímabundið heilsutjón. En bætur samkvæmt þágildandi lögum eru eins og áður hefur komið fram sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur. Að mati SÍ er ekki sýnt fram á að tjónþoli hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni í kjölfar sjúklingatryggingaratburðar og því kemur ekki til greiðslu bóta fyrir örorku.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, fær ráðið af gögnum málsins að töf hafi orðið á því að kærandi væri upplýstur um að hann hefði fengið P en sú greining hafi legið fyrir allt frá árinu X. Viðeigandi meðferð var af þessum sökum ekki veitt fyrr en X en með henni tókst að lækna kæranda af sjúkdóminum. Í töf frá greiningu til meðferðar felst hið eiginlega sjúklingatryggingaratvik en ágreiningur snýst um hvort það hafi haft varanleg áhrif á heilsufar kæranda. Kemur þá í fyrsta lagi til álita hvort varanlegar skemmdir hafi orðið á lifur kæranda. Í meinafræðiáliti Sjúkrahússins á D vegna smásjárskoðunar á sýni úr lifur, dags. X, kemur fram að engar bandvefsskemmdir séu til staðar. Af því má ráða að ekki hafi orðið varanlegur skaði á lifur kæranda þrátt fyrir þá töf sem varð á meðferð. Í öðru lagi kemur fram í umsókn kæranda um bætur að hann telji að stoðkerfisverki sem hann býr við sé að rekja til sjúklingatryggingaratviksins en einnig óskar hann eftir almennu mati á því hvaða afleiðingar hann búi við vegna atviksins. Eins og fram kemur í áður tilvitnuðu áliti sérfræðings í meltingar- og lifrarsjúkdómum er ekki vitað til að orsakasamband sé á milli P og útbreiddra stoðkerfisverkja. Þá er ljóst af gögnum málsins að kærandi á langa sögu um stoðkerfiseinkenni, allt frá árinu X. Að mati úrskurðarnefndar liggur því ekki fyrir að stoðkerfisvandi kæranda sé til kominn vegna sjúklingatryggingaratviks. Ekki liggur heldur fyrir í gögnum málsins að hann hafi að öðru leyti orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna þess.

Lögmaður kæranda fer fram á greiðslu málskostnaðar vegna kæru. Kröfu um málskostnað verður að skilja svo að þess sé krafist að kostnaður verði greiddur vegna þeirrar vinnu sem lögmaður hafi innt af hendi í þágu kæranda í tengslum við kæru til úrskurðarnefndarinnar. Með ákvæðum laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu hefur löggjafinn leitast við að tryggja réttarstöðu þeirra sem greinir á við Sjúkratryggingar Íslands og geta þeir fengið leyst úr ágreiningi án þess að þurfa að leita aðstoðar lögmanns til að gæta hagsmuna sinna. Hvorki í lögum um sjúklingatryggingu né lögum um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um greiðslu lögmannsþóknunar. Hins vegar fer um ákvörðun bótafjárhæðar eftir skaðabótalögum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 og skal samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 greiða bætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað, þjáningabætur og annað fjártjón sem leiðir af bótaskyldum atburði. Hugsanlegt er að lögmannskostnaður leiði af bótaskyldum atburði samkvæmt sjúklingatryggingarlögum. Í ljósi þess að hin kærða ákvörðun er staðfest kemur lögmannskostnaður ekki til álita í máli þessu.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. apríl 2019 um bætur vegna heilsutjóns eða örorku.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótum til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta