Frekari flutningur verkefna til sýslumanna undirbúinn
Innanríkisráðuneytið er að hefja undirbúning að frekari flutningi á verkefnum til sýslumanna í samræmi við ákvæði nýrra laga um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði, sem Alþingi samþykkti 14. maí. Er það í samræmi við áherslur ríkisstjórnarinnar um bætta stjórnsýslu og þjónustu ríkisins en meðal markmiða laganna er að stækka og efla umdæmi embætta sýslumanna.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra kynnti verkefnið á ríkisstjórnarfundi á föstudag og var samþykkt að óska eftir samstarfi allra ráðuneyta. Nýju lögin kveða meðal annars á um að innanríkisráðherra skuli, í samvinnu við forsætisráðherra, láta semja aðgerðaáætlun fyrir Stjórnarráðið þar sem afmörkuð skulu þau stjórnsýsluverkefni ráðuneyta og undirstofnana þeirra sem talið er ákjósanlegt að flutt verði til embætta sýslumanna. Þessi aðgerðaáætlun um flutning tilgreindra verkefna skuli liggja fyrir ekki síðar en 1. janúar 2015.
Áherslu af svipuðum toga er einnig að finna í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar en þar eru þrjár tillögur sem snúa að því að flytja verkefni til embætta sýslumanna.
1. Almenn afgreiðsluverkefni ráðuneyta verði flutt til annarra stofnana, svo sem sýslumanna (tillaga 21).
2. Efla þarf starfsemi sýslumannsembætta sem þjónustumiðstöðva ríkisins í héraði og tafarlaust ætti að hefjast handa við að flytja til þeirra verkefni (tillaga 45).
3. Kannaðir verði möguleikar þess að færa verkefni frá Þjóðskrá Íslands, Útlendingastofnun o.fl. til sýslumannsembætta (tillaga 46).
Mikil tækifæri felast í fækkun sýslumannsembætta og stækkun umdæma. Embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra. Innanríkisráðuneytið hefur góða reynslu af flutningi verkefna til sýslumannsembætta og er skemmst að minnast flutnings nokkurra verkefna frá ráðuneytinu til sýslumanna snemma á árinu, svo sem afgreiðslu umsókna um lögmannaleyfi, leyfi til fjársafnana, til skráningar trúfélaga og fleiri.