Utanríkisráðherrafundur Eystrasaltsráðsins í Reykjavík
Fundi utanríkisráðherra ríkja Eystrasaltsráðsins, sem haldinn var í Hörpu, lauk nú síðdegis. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra stýrði fundinum sem haldinn var í tilefni af 25 ára afmæli Eystrasaltsráðsins og markaði ennfremur lok formennsku Íslands í ráðinu. Utanríkisráðherrarnir samþykktu meðal annars að stofna stefnumótunarhóp, sem skila á skýrslu um framtíðarhlutverk ráðsins og samstarf á svæðinu að ári. Þá var á fundinum fjallað um þátt svæðisbundins samstarf við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Í ræðu sinni á fundinum lagði utanríkisráðherra meðal annars áherslu á mikilvægi Eystrasaltsráðsins og svæðisbundinnar samvinnu, ekki síst á tímum óvissu og áskorana í Evrópu.
„Gildi samtalsins er ótvírætt og ég er mjög ánægður með að utanríkisráðherrar ríkja Eystrasaltsráðsins hafi komið hér saman til fundar - í fyrsta skipti síðan átök brutust út í Úkraínu. Þá hafa áherslur okkar í Eystrasaltsráðinu mælst einkar vel fyrir og ánægjulegt að ljúka formennskutímabilinu á vel heppnuðum utanríkisráðherrafundi í Reykjavík," segir Guðlaugur Þór sem afhenti utanríkisráðherra Svíþjóðar formennskukeflið í lok fundar. Í formennskutíð sinni lagði Ísland áherslu á lýðræði, jafnrétti og börn, og stóðu stjórnvöld fyrir margvíslegum viðburðum á formennskuárinu, meðal annars rakarastofuráðstefnu nú í vor.
Þá átti utanríkisráðherra tvíhliða fund með Sven Mikser, utanríkisráðherra Eistlands, þar sem tvíhliða samskipti ríkjanna, öryggis- og varnarmál og Brexit voru meðal umræðuefna. Guðlaugur Þór mun ennfremur eiga tvíhliða fundi í fyrramálið með utanríkisráðherrum Póllands og Danmerkur.
Eystrasaltsráðið var stofnað árið 1992 en aðild að ráðinu eiga Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin, Rússland, Pólland og Þýskaland, auk Evrópusambandsins.