Starfshópur skoðar erlenda löggjöf um aðskilnað eða takmörkun á viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað starfshóp sem fær það verkefni að skoða erlenda löggjöf um aðskilnað eða takmörkun á viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi, leggja mat á kosti og galla slíkrar löggjafar fyrir fjármálamarkað hér á landi og einnig að skoða hvort aðrar leiðir séu færar eða betur til þess fallnar að takmarka áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi alhliða banka.
Hópurinn á að að skila niðurstöðum í formi skýrslu til ráðherra í maí nk. og leggur ráðherra skýrsluna fram á Alþingi.
Starfshópinn skipa:
- Leifur Arnkell Skarphéðinsson, frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, formaður hópsins
- Björk Sigurgísladóttir frá Fjármálaeftirlitinu
- Fjóla Agnarsdóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu
- Jónas Þórðarson frá Seðlabanka Íslands,
- Jón Þór Sturluson frá Fjármálaeftirlitinu
- Sigríður Logadóttir frá Seðlabanka Íslands
Til upplýsinga um málið er meðfylgjandi áfangaskýrsla starfshóps sem skipaður var um svipað verkefni á síðasta kjörtímabili. Sá starfshópur náði ekki að ljúka störfum á tilsettum tíma en skilaði áfangaskýrslu til ráðherra 22.september 2016. Í 7. hluta áfangaskýrslunar er fjallað um takmörkun á áhættu af fjárfestingarbankastarfsemi hjá alhliða bönkum.