Hoppa yfir valmynd
30. júní 2022 Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Mikilvægum leiðtogafundi lokið

Leiðtogar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins. - mynd

Leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins lauk í Madrid í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók þátt í fundinum ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra. Fundurinn var haldinn í skugga stríðsrekstrar Rússlands í Úkraínu og ávarpaði Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu leiðtogana í upphafi hans. Leiðtogarnir tóku mikilvægar ákvarðanir sem miða að því að styrkja bandalagið í ljósi breytts öryggisumhverfis, auk þess sem Finnlandi og Svíþjóð var boðin aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Samþykkt var ný grunnstefna Atlantshafsbandalagsins sem meðal annars markar endurskoðaða stefnu gagnvart Rússlandi og fjallar um margvíslegar aðrar áskoranir sem bandalagið stendur frammi fyrir. Grunnstefnan felur einnig í sér skýr skref varðandi samþættingu loftslagsmála í öll meginverkefni bandalagsins, tæknibreytingar, netöryggismál auk þess sem  jafnréttismál, öryggi borgara og áherslur varðandi konur, frið og öryggi eru tilgreind meðal mikilvægra verkefna bandalagsins. Leiðtogarnir ákváðu að styrkja verulega fælingar- og varnarstefnu bandalagsins, einkum með auknum liðsafla í austurjaðri bandalagsins, auka viðbragðsgetu og styrkja netvarnir. Samþykkt var sérstök stuðningsáætlun fyrir Úkraínu sem m.a. felur í sér langtímastuðning við enduruppbyggingu lykilinnviða í landinu.

Aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu voru samþykktar á fundinum eftir að samkomulag náðist milli ríkjanna tveggja og Tyrklands sem staðið hafði í vegi fyrir afgreiðslu umsóknanna.

Þá var ákveðið að fjárframlög til bandalagsins muni vaxa í samræmi við styrkingu á starfsemi þess. 

Samstarfsríki Atlantshafsbandalagsins tóku þátt í hluta fundarins þ. á m. Finnland, Svíþjóð og Georgía, en einnig Ástralía, Nýja Sjáland, Japan og Suður-Kórea, auk leiðtoga Evrópusambandsins. Meginviðfangsefni þess hluta leiðtogafundarins var að ræða samstarf lýðræðisríkja vegna stríðsins í Úkraínu, hnattrænar áskoranir, áhrif loftslagsbreytinga á öryggismál, viðbrögð bandalagsins og hvernig standa megi vörð um grundvallargildi alþjóðasamvinnu.

„Þessi fundur er haldinn í skugga stríðsátaka í Evrópu sem eðli máls samkvæmt hafa áhrif á stefnu Atlantshafsbandalagsins til lengri og skemmri tíma. Áfram er mikill samhljómur meðal aðildarríkja um stuðning við Úkraínu. Ég tel mikilvægt að tekist hafi að fá inn í endurnýjaða grunnstefnu bandalagsins sem samþykkt var á fundinum þær áherslur sem Ísland hefur lagt á þætti eins og loftslagsmál, jafnréttismál, öryggi borgaranna og kynferðislegt ofbeldi í átökum.  Þá markar það auðvitað tímamót að samþykkt hafi verið að bjóða Finnum og Svíum aðild að bandalaginu en þessar vinaþjóðir okkar eru öflugir málsvarar lýðræðis, mannréttinda og félagslegra gilda sem eru mikilvæg sjónarmið innan Atlantshafsbandalagsins,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

“Stórar og mikilvægar ákvarðanir hafa verið teknar hér í Madrid. Á fundinum voru meðal annars ræddar margvíslegar birtingarmyndir þeirra voðaverka sem eru hluti af stríðsrekstri Rússa í Úkraínu. Sú hörmulega staða undirstrikar mikilvægi þess að Ísland hugi að sínu öryggi og að við gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að vera verðugir og öflugir bandamenn. Aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningur við Bandaríkin eru tryggar stoðir okkar öryggis, ” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Á fundinum var einnig undirrituð yfirlýsing um vilja til þátttöku í stofnun nýsköpunarsjóðs á vegum bandalagsins, en áætlað er að hann taki til starfa á árinu 2023 og fjárfesti á markaðsforsendum í fyrirtækjum sem vinna að þróun nýrrar tækni sem nýst getur til að auka öryggi. Þar er meðal annars litið til tækni sem hönnuð er til almennra nota en getur nýst í varnartengdum verkefnum, en einnig græna tækni. Ísland verður aðili að sjóðnum.

Í tengslum við leiðtogafundinn átti forsætisráðherra jafnframt tvíhliða fundi og samtöl við Pedro Sánchez forsætisráðherra gestgjafaríkisins Spánar, Olaf Scholz kanslara Þýskalands, Emanuel Macron forseta Frakklands og Micheál Martin forsætisráðherra Írland. Á þeim fundum var m.a. rætt um Evrópumál, stöðu alþjóðamála og um tvíhliða samskipti ríkjanna.

Utanríkisráðherra fundaði með Melanie Joly utanríkisráðherra Kanada, Anitu Anand varnarmálaráðherra Kanada, Wopke Hoekstra utanríkisráðherra Hollands, Jan Lipavsky utanríkisráðherra Tékklands, og Tönju Fajon utanríkisráðherra Slóveníu, auk Mortens Bødskov varnarmálaráðherra Danmerkur.

  • Forsætisráðherra undirritar yfirlýsingu um vilja til þátttöku í stofnun nýsköpunarsjóðs á vegum bandalagsins. - mynd
  • Utanríkisráðherra fundaði með öðrum kvenkyns utanríkis- og varnarmálaráðherrum bandalagsríkjanna. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta