Ísland veitir 100 milljónum króna aukalega í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna
Utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 100 m.kr. viðbótarframlag í Neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (e. UN Central Emergency Response Fund, CERF). Tilkynnt var um aukninguna á árlegri framlagaráðstefnu Neyðarsjóðsins sem fram fór í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í dag.
„Sjóðurinn gegnir lykilhlutverki þegar neyðarástand skapast og bregst skjótt við, hvort sem er vegna hamfara eða átaka, og því er afar þýðingarmikið fyrir Ísland að vera aðili að honum. Í þessu samhengi var mikilvægt að sjá hversu hratt og fumlaust Neyðarsjóðurinn brást við með stórri úthlutun til bágstaddra eftir að átökin brutust út á Gaza,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra.
Neyðarsjóðnum var komið á fót árið 2006 til að efla viðbrögð Sameinuðu þjóðanna á sviði mannúðar- og neyðaraðstoðar á átakasvæðum og í kjölfar náttúruhamfara. Sjóðurinn leggur áherslu á skjótar og skilvirkar aðgerðir til að draga úr manntjóni og neyð og grípur inn í þar sem neyðin er viðvarandi og í sumum tilfellum gleymd. Á þessu ári hefur sjóðurinn úthlutað samtals 604 milljónum bandaríkjadala til mannúðar- og neyðaraðstoðar í 40 ríkjum eða svæðum, meðal annars á Gaza og í Afganistan, Jemen, Bangladess, Búrkína Fasó, Malí, Mjanmar, Haítí og Venesúela. Hér má sjá mynd yfir dreifingu framlaga á yfirstandandi ári.
Frá stofnun Neyðarsjóðsins hefur þörfin fyrir mannúðaraðstoð í heiminum margfaldast og farið úr 32 milljónum einstaklinga árið 2006 í 250 milljónir árið 2023. Alls hefur 131 ríki lagt í Neyðarsjóðinn frá stofnun hans, þar á meðal 59 ríki sem einnig hafa sjálf notið góðs af framlögum úr sjóðnum.
Neyðarsjóðurinn er ein af fjórum áherslustofnunum Íslands á sviði mannúðarmála og veita íslensk stjórnvöld árlegu framlagi í sjóðinn samkvæmt rammasamningi, en auk þess hefur Ísland jafnan lagt sig fram um að veita árslokaframlögum í sjóðinn. Með viðbótarframlaginu nú, sem tilkynnt var um í New York í dag, nema framlög Íslands í Neyðarsjóðinn á þessu ári samtals 220 m.kr.