Rafrænt sakavottorð aðgengilegt á Ísland.is
Frá og með deginum í dag er hægt að sækja sakavottorð með rafrænum hætti á Ísland.is. Um er að ræða svokallað einkavottorð sem staðfestir að ekkert brot er í sakaskrá viðkomandi einstaklings.
„Að sakavottorð séu komin á rafrænt form gerir t.d. skrefin léttari þegar sótt er um nýtt starf og er einn þáttur í einfaldari samskiptum við ríkið,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Ferlið er einfalt, umsækjandi skráir sig inn með rafrænum skilríkjum og samþykkir svo að gögn verði sótt úr sakaskrá. Greiða þarf fyrir vottorðið eins og áður en að því loknu er sakavottorð sent í pósthólfið á Ísland.is ásamt kvittun fyrir afgreiðslu.
Skjalið sem inniheldur vottorðið er rafrænt undirritað af sýslumönnum, sem hægt er að staðfesta með því að opna skjalið í Acrobat Reader og smella á stimpilinn. Allar nánari upplýsingar má finna á vef sýslumanna.