Hoppa yfir valmynd
7. október 2022 Matvælaráðuneytið

Greinargerð um stöðu haf- og fiskirannsókna skilað til matvælaráðherra

Jóhann Sigurjónsson, fyrrum forstjóri Hafrannsóknastofnunar, hefur skilað greinargerð um stöðu haf- og fiskirannsókna til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Greinargerðinni er ætlað að gefa yfirlit um stöðu haf- og fiskirannsókna á Íslandi, mikilvægi þeirra og leiðir til að efla þær á næstu árum og áratugum. Greinargerðin var unnin samkvæmt beiðni ráðherra og mun nýtast við þá vinnu sem hafin er á vegum ráðuneytisins um stefnumótun í sjávarútvegi.

Við skrif greinargerðarinnar var notast við fyrirliggjandi gögn frá Hafrannsóknastofnun ásamt upplýsingum úr ítarlegum samtölum við hagaðila, aðila á Hafrannsóknastofnun og samstarfsaðila þeirra í stjórnsýslunni, háskóla- og stofnanaumhverfinu.
Einnig var horft til nágrannalanda og helstu alþjóðastofnana varðandi fyrirkomulag og þróun haf- og fiskirannsókna sem og fiskeldisrannsókna. Jafnframt er bent á tækninýjungar, sem geta dregið úr kostnaði við rannsóknir, bætt núverandi aðferðir og styrkt þekkingaröflunina.

Litið er til áskorana og tækifæra haf- og fiskirannsókna, og er þar átt við allar þær rannsóknir sem snúa að hafeðlis- og hafefnafræði sjávar, straummælingum og öllu sem viðkemur umhverfi og lífríki hafsins. Í greinargerðinni kemur m.a. fram að stærsta áskorunin sé vöktun og rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á fiskistofna og lífríkið í heild, þ.m.t. súrnun sjávar. Áhersla er lögð á mikilvægi vistkerfanálgunar ásamt því að fjármögnun til aukinna grunnrannsókna og vöktunar nytjastofna sé tryggð.

Meðal annars eru lagðar fram tillögur í greinargerðinni um endurskoðun á aðkomu Hafrannsóknastofnunar að fiskeldismálum, einkum varðandi val á eldissvæðum. Mælir höfundur einnig með að hugað verði að endurskoðun ráðgjafarnefndar Hafrannsóknastofnunar, skipan nefndar og vinnulagi svo hún nýtist rannsóknastarfinu sem best og verði í auknum mæli til samráðs við atvinnugreinina.

Einnig kemur fram að lögfesta þurfi setningu ramma fyrir fiskveiðarnar og aflareglur fyrir mikilvægustu fiskistofnana ásamt framfylgd þeirra af hendi matvælaráðherra. Setja þurfi langtímamarkmið um vernd og sjálfbæra nýtingu fiskistofna í anda nútíma vistkerfisnálgunar ásamt formlegri óháðri og utanaðkomandi úttekt á fimm ára fresti.

Greinargerðina má nálgast hér.

Sjá nánar um verkefnið Auðlindin okkar.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta