Tedros Adhanom Ghebreyesus kjörinn framkvæmdastjóri WHO
Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Eþíópíu, var í gær kjörinn framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Ghebreyesus tekur við embættinu af Margaret Chan frá Hong Kong sem hefur leitt stofnunina frá ársbyrjun 2007.
Tedros er fyrsti fulltrúi Afríkuríkis sem kjörinn er til að leiða Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina. Hann var heilbrigðisráðherra Eþíópíu á árunum 2005 – 2012 og utanríkisráðherra árin 2012 – 2016. Í embættistíð sinni sem heilbrigðisráðherra stóð Tedros fyrir viðamiklum umbótum á heilbrigðiskerfi Eþíópíu; stofnaði 3500 nýjar heilsugæslustöðvar, fjölgaði heilbrigðisstarfsfólki verulega og setti á fót fjármögnunarkerfi til að auka sjúkratryggingavernd.
Á Alþjóðavettvangi er Tedros meðal annars þekktur fyrir að leiða baráttu gegn alnæmi, berklum og malaríu sem formaður stjórnar Global Fund og formaður samstarfsráðsins Roll Back Malaria.
Dr. Tedros Adhanom Ghebreyesus er 52 ára gamall, fæddur árið 1965. Hann tekur formlega við embætti framkvæmdastjóra WHO 1. júlí næstkomandi og er skipunartíminn til fimm ára.