Þriðji fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2017
Þriðji fundur fjármálastöðugleikaráðs á árinu 2017 var haldinn mánudaginn 9. október í fjármála- og efnahagsráðuneyti.
Á heildina litið er áhætta í fjármálakerfinu fremur lítil. Spenna ríkir á fasteignamarkaði, fasteignaverð er nálægt sögulegu hámarki og farið að víkja frá undirliggjandi efnahagsþáttum. Vísbendingar eru þó um að farið sé að hægja á verðhækkunum á fasteignamarkaði. Vöxtur í ferðaþjónustu er enn nokkur en hefur hægt á sér. Útlánavöxtur er enn hóflegur en virðist vera að sækja í sig veðrið sérstaklega hjá fyrirtækjum. Þótt dregið hafi úr afgangi af utanríkisviðskiptum sl. misseri, eru enn horfur á að ytri jöfnuður þjóðarbúsins styðji við stöðugleika á næstu árum. Staða heimila og fyrirtækja er enn sterk og hefur í meginatriðum haldið áfram að styrkjast með batnandi efnahagsaðstæðum. Viðnámsþróttur viðskiptabankanna er einnig mikill, hvort heldur horft er til eignagæða, eiginfjár- eða lausafjárstöðu.
Þróun sveiflutengdrar kerfisáhættu hefur verið með svipuðu móti og búist var við á síðasta fundi fjármálastöðugleikaráðs. Með hliðsjón af greiningu kerfisáhættunefndar beinir fjármálastöðugleikaráð þeim tilmælum til Fjármálaeftirlitsins að halda sveiflujöfnunarauka óbreyttum í 1,25%, sbr. tilmæli ráðsins frá 30. september 2016. Þess má vænta að fjármálastöðugleikaráð leggi til að uppbyggingu sveiflujöfnunaraukans verði haldið áfram í takt við uppsöfnun ójafnvægis í fjármálakerfinu.
Næsti fundur fjármálastöðugleikaráðs er á dagskrá þriðjudaginn 19. desember 2017.