Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 203/2018 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 24. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 203/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18030024

 

Beiðni […] um endurupptöku

I.             Málsatvik

Þann 6. febrúar 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 25. september 2017, um að taka umsókn […], fd. […], ríkisborgara Srí Lanka (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og endursenda hann til Þýskalands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 12. febrúar 2018. Þann 20. febrúar 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa og þann 24. apríl 2018 var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa vísað frá með úrskurði kærunefndar útlendingamála. Þann 16. mars 2018 óskaði kærandi eftir endurupptöku málsins.

Krafa kæranda um endurupptöku máls hans er byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem íþyngjandi ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Með beiðni kæranda fylgdu gögn til stuðnings kröfu kæranda.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Í beiðni kæranda kemur fram að kærunefnd útlendingamála hafi yfirsést eða láðst að taka tillit til fylgigagna frá þýskum yfirvöldum við töku ákvörðunar í máli hans. Kærandi sé við slæma andlega heilsu og eigi ekki rétt á lífsnauðsynlegri læknaþjónustu í viðtökuríki. Þau gögn sem liggi fyrir í máli kæranda auk þeirra sem fylgi beiðni hans bendi til þess að lífi kæranda kunni að vera mikil hætta búin í Þýskalandi og í heimaríki, verði hann sendur þangað, og að endursending kunni að hafa óafturkræfar og neikvæðar afleiðingar þar sem nauðsynleg heilbrigðisþjónusta standi honum ekki til boða. Með hliðsjón af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, þeim hagsmunum sem séu í húfi í málinu og þeirra breytinga sem framangreindar upplýsingar kunni að hafa í för með sér fyrir niðurstöðu málsins sé ljóst að fullt efni sé til að endurupptaka mál kæranda.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 6. febrúar 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að endursending kæranda til Þýskalands bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. eða 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá var ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki talið eiga við í máli kæranda, þ.e. að kærandi hefði ekki slík sérstök tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að íslensk stjórnvöld hafi ekki tekið nægjanlegt tillit til þeirrar viðkvæmu stöðu sem kærandi sé í vegna andlegrar heilsu og þeirra aðstæðna sem bíði hans í viðtökuríki. Með beiðni sinni um endurupptöku lagði kærandi fram samskiptaseðla frá göngudeild sóttvarna, dags. frá 25. september til 12. desember 2017, sem lágu fyrir þegar kærunefnd úrskurðaði í máli kæranda, og bréf frá þýskum stjórnvöldum um synjun á greiðslu sálfræðiþjónustu fyrir kæranda. Síðarnefnda gagnið lá ekki fyrir við meðferð máls kæranda sem lauk með úrskurði kærunefndar frá 6. febrúar 2018. Samkvæmt greinargerð kæranda komi fram í umræddu fylgigagni að kærandi þjáist af kvíðaköstum og þunglyndi en eigi þrátt fyrir þau veikindi ekki rétt á lífsnauðsynlegri læknisþjónustu í Þýskalandi.

Við meðferð máls hjá kærunefnd hafði kærandi greint frá því að andlegt heilsufar hans væri ekki gott. Kærandi kvaðst vera hræddur og hafa þurft að taka lyf vegna andlegrar vanheilsu sinnar í Þýskalandi þar sem hafi staðið til að senda hann aftur til heimaríkis. Þá lágu fyrir sjúkragögn frá Þýskalandi þar sem fram kom að kærandi hafi verið greindur með alvarlegt þunglyndi, áfallastreituröskun og kvíða. Þá lá einnig fyrir að í færslu sálfræðings á göngudeild sóttvarna þann 14. nóvember 2017 hafi m.a. komið fram að einkenni þunglyndis og áfallastreitu hafi versnað til muna eftir að umsókn kæranda hafi verið synjað hjá Útlendingastofnun. Þar hafi jafnframt komið fram að áfram hafi verið unnið með einkenni áfallastreituröskunar eftir pyndingar og ofbeldi sem kærandi hafi verið beittur, þar á meðal kynferðisofbeldis. Þá voru þau læknisfræðilegu gögn frá Göngudeild sóttvarna, sem kærandi lagði fram með beiðni sinni um endurupptöku, lögð til grundvallar í málinu og afstaða tekin til þeirra upplýsinga, sem þar komu fram, í úrskurði kærunefndar. Samkvæmt framansögðu lágu fyrir nokkuð umfangsmikil gögn varðandi andlega heilsu kæranda þegar kærunefnd úrskurðaði í máli hans og var byggt á því við meðferð málsins að andleg heilsa hans væri bágborin. Þá lágu fyrir umfangsmikil gögn í málinu varðandi aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, m.a. þá þjónustu sem stendur þolendum pyndinga til boða. Meðal þess sem kemur fram í gögnum sem lágu fyrir hjá nefndinni um aðstæður í Þýskalandi er að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfi á að halda fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Eins og fram kemur í úrskurði máli kæranda var lagt til grundvallar að hann gæti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi í Þýskalandi og að gögn málsins hafi ekki borið það með sér að heilsufar kæranda væri með þeim hætti að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar hans hafi í för með sér verulegar og óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar hans. Það var niðurstaða kærunefndar að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Að mati kærunefndar breyta þau nýju gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi synjun þýska ríksins á greiðslu sálfræðiþjónustu ekki grundvelli máls kæranda hjá kærunefnd. Að mati kærunefndar benda gögnin ekki til þess að úrskurður kærunefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða séu þess eðlis að aðstæður kæranda teljist hafa breyst verulega frá því að ákvörðun kærunefndar var tekin.

Samkvæmt öllu framangreindu er það því niðurstaða kærunefndar að ákvörðun kærunefndar frá 6. febrúar 2018 hafi ekki byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Beiðni kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir

    

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta