Áhrif COVID-19 á íslenskan landbúnað og sjávarútveg rædd í ríkisstjórn
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gerði á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun grein fyrir áhrifum COVID-19 á íslenskan landbúnað og sjávarútveg. Þar kom fram að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fylgdist náið með þróun mála og að ráðuneytinu berist reglulegar upplýsingar frá m.a. Bændasamtökum Íslands og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Eindregin samstaða væri um að lágmarka efnahagslega neikvæð áhrif veirunnar bæði til skemmri og lengri tíma.
Kristján Þór gerði m.a. grein fyrir því að ekki væru fyrirséðar hindranir á innflutningi á áburði og fóðri en grannt væri fylgst með þeirri þróun. Þá hefðu Bændasamtök Íslands auglýst eftir viljugu fólki til þess að sinna afleysingarþjónustu fyrir bændur og að áhersla væri lögð á mögulegar afleysingar fyrir einyrkja og minni bú. Varðandi sjávarútveg væri ljóst að eftirspurn eftir ferskum fiski í Evrópu væri orðin því sem næst engin. Áhrifin væru þó víðtækari og ekki bundin við ferskar afurðir enda yrðu íslensks sjávarútvegsfyrirtæki vör við samdrátt í eftirspurn allra tegunda inn á sína sterkustu markaði.
Loks gerði Kristján Þór grein fyrir því að ráðuneytið myndi áfram fylgjast náið með þróun mála og grípa til nauðsynlegra aðgerða eftir því sem tilefni verður til.