Fléttan: Sidekick Health innleiðir fjarvöktun og fjarstuðning við sjúklinga á hjartadeild Landspítalans
Sidekick Health, í samstarfi við göngudeildir hjartadeildar Landspítala (GH-LSH), hlýtur styrk að upphæð 9 m.kr. til verkefnis sem snýr að því að innleiða fjarvöktun og fjarstuðning á göngudeild hjartabilaðra á LSH. Sæmundur Oddsson, sem sækir um styrk fyrir hönd Sidekick Health, stýrir deild klínískra rannsókna hjá fyrirtækinu og ber ábyrgð á rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum þess. “Styrkur úr Fléttunni gerir okkur kleift að halda áfram því dýrmæta þróunarstarfi sem unnið hefur verið með hjartadeildinni og innleiðing þess er næsta skrefið í þeirri vegferð,” segir Sæmundur. Davíð O. Arnar, yfirlæknir hjartalækninga á LSH, segir að með þessu sé fyrsta skrefið í átt að innleiðingu á stafrænum fjarvöktunum á GH-LSH stigið. “Rannsóknir hafa sýnt að slík þjónusta hafi gefið góða raun og að þessi innleiðing sé liður í þróun á þeirri góðu þjónustu sem sjúklingum er veitt.”
Stafræn heilbrigðislausn Sidekick Health veitir auk þess ráðleggingar um heilbrigðan lífstíl, sem bætir heilsuhegðun sjúklinga og getur dregið úr alvarlegum einkennum sjúkdómsins. Með fjarvöktun má forgangsraða heimsóknum og fækka bráðum uppákomum, meðal annar heimsóknum á bráðamóttöku.
Markmið verkefnisins er að á fyrsta ári þess standi fjarvöktun öllum einstaklingum með hjartabilun á GH-LSH til boða. Það mun auka þjónustustig við einstaklinga sem eru í eftirliti á göngudeild hjartabilaðra. Einstaklingar fá með þessu þéttara utanumhald með fjarvöktun og meiri stuðning við lífstílsþætti og sína meðferð sem geti sparað komur á göngudeildina. Tæknilegar úrlausnir þess að innleiða verkefnið fyrir hjartabilaða auðveldar innleiðingu samskonar þjónustu fyrir aðra sjúklinga göngudeilda hjartadeildar síðar og opnar á tækifæri til þess að innleiða verkefnið víðar innan LSH. Lausn fyrir kransæðasjúkdóma hefur verið þróuð og slembirannsókn er í startholunum þar sem innleiða á tæknilegar úrlausnir fyrir kransæðasjúklinga í samvinnu við hjartadeild LSH. Reynist sú lausn vel mun innleiðing hennar vera framkvæmd á sama hátt og fylgja í kjölfar hjartabilunarverkefnisins.
Sidekick Health þróar og markaðssetur stafrænar heilbrigðismeðferðir í samstarfi við stærstu lyfja- og sjúkratryggingafélög í bæði Evrópu og Bandaríkjunum. Markmið Sidekick Health er að styðja við sjúklinga utan veggja heilbrigðiskerfisins og draga þannig úr álagi á heilbrigðisstarfsfólk og auka virkni hefðbundinna heilbrigðismeðferða. Þá vinnur Sidekick Health einnig að rannsóknarverkefnum í nánu samstarfi við heilbrigðisstofnanir hér á landi sem og erlendis.
Átta verkefnum hefur verið boðið að ganga til samninga um styrki úr Fléttunni. Fléttan eru styrkir sem veittir eru til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins almennt. Áhersla var lögð á að úthluta styrkjum sem styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðistækni, -vörum og -þjónustu. Styrkveiting er háð því skilyrði að umsækjendur eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu.